Ritstjórar prentmiðla eru ábyrgir fyrir ómerktum áfengisauglýsingum
Að gefnu tilefni áréttar talsmaður neytenda lagareglur og fordæmi sem leiða til þess að ritstjórar prentmiðla séu ábyrgir fyrir auglýsingum sem brjóta í bága við bann við áfengisauglýsingum – þ.e. ef auglýsandi er ekki nafngreindur í auglýsingu.
Að gefnu tilefni vill talsmaður neytenda árétta að af nýlegum dómi Hæstaréttar má ráða að svarið við spurningunni hvort einhver beri ábyrgð á áfengisauglýsingum er jákvætt eins og rakið var í talhorninu fyrr á árinu. Svarið er enn fremur að ritstjórar prentmiðla bera ábyrgð á ómerktum áfengisauglýsingum eins og bent var á í frétt á heimasíðu talsmanns neytenda næsta dag.
Brot á lögum en sýknað þar sem auglýsandi var ekki nafngreindur
Í nefndum hæstaréttardómi segir m.a.
„Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fram komið að birting auglýsinga þeirra sem um getur í ákæru var andstæð ákvæðum 20. gr. áfengislaga. Hins vegar var ákærði hvorki nafngreindur né vísað til fyrirtækis þess, sem hann veitir forstöðu, í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt við birtingu auglýsinga samkvæmt 1. til 3. og 5. tölulið ákæru og ber hann því ekki refsiábyrgð á efni þeirra. Ber samkvæmt kröfu ákæruvaldsins að sýkna hann af ákæru samkvæmt þeim liðum.“
Þá er ritstjóri ábyrgur
M.ö.o. fólu auglýsingarnar í sér brot á refsiákvæðum áfengislaga en auglýsandinn var aðeins sakfelldur fyrir sumar auglýsingar en ekki aðrar þar sem tilvísun í nafn hans var ekki á öðrum auglýsingum. Þá er ritstjóri hins vegar ábyrgur og ber að ákæra hann eins og rökstutt hefur verið áður í tilvitnaðri frétt þar sem segir m.a.:
„Í greiningu sinni á ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum í talhorninu í gær kemst talsmaður neytenda að þeirri niðurstöðu að skýrt sé hver beri ábyrgðina: Nafngreindur auglýsandi – en ritstjóri ella.
Í talhorninu að þessu sinni fjallaði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um ábyrgð – einkum refsiábyrgð en einnig meðábyrgð fjölmiðla – á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:
í prentmiðlum,
ljósvakamiðlum og
öðrum miðlum.“
Í pistlinum segir um áhrif dómanna:
„Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits.“
Í pistlinum segir einnig að sú niðurstaða hljóti að leiða til breytts verklags á dagblöðum – svo tryggt verði að auglýsandi verði nafngreindur.
„Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögum miðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.“
Betur er farið yfir réttarstöðuna í tilvitnuðum pistli talhorninu og bent á að þessi túlkun hafi legið fyrir frá árinu 1963.
Reyna þarf á léttölsfyrirvara
Í áfengislögum segir:
„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. […] – Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti […]. – […] Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“
Ekki er að mati talsmanns neytenda nægilegt að fram komi með smáum stöfum orðið „LÉTTÖL“ til að forðast refsiábyrgð en á það hefur líklega ekki reynt nægilega. Um það sagði í nefndum pistli að vonandi reyndi brátt á ábyrgðarreglur útvarpslaga fyrir dómi enda væri bann við áfengisauglýsingum að mati talsmanns neytenda þverbrotið á hverjum degi þegar í lok bjórauglýsinga birtist í vinstra horni neðst með daufum og smáum stöfum, líklega í um eina sekúndu: „Léttöl.“ Þetta stæðist að mati talsmanns neytenda ekki skýrt bann áfengislaga.
Til verndar ungum neytendum og af virðingu við lög í landinu
Ábendingar þessar eru gerðar þar sem hugsanlegt er að brugðist verði við með skipulögðum hætti ef brotið er gegn áfengislögum – einkum ef auglýsingar beinast að ungum neytendum og verður það þá gert í tengslum við samstarfsverkefni með umboðsmanni barna við að leitast við að semja um frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum en þar er slík opinber og almenn kærustefna nefnd meðal hugsanlegraúrræða. Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur ekki almenna skoðun á áfengisneyslu fullorðinna neytenda en vill sporna gegn auglýsingum sem beinast að börnum á óhollri vöru – einkum ef refsivert er að auglýsa hana. Þá grefur það undan virðingu við lög sem eiga öðrum þræði að vernda unga neytendur ef slíkt skýrt bann í lögum er hunsað endurtekið. Við það verður ekki unað
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda