Ráðherraábyrgð og stjórnsýslan

Láttu aðra vita

Opinberir punktar fyrir fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, 18. september 2024

Mynd af vef Alþingis

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis

Við erum frá hópi fólks sem í eru forystumenn forvarnarsamtaka og fleira lýðheilsuþenkjandi fólk.

Í mars óskuðum við skriflega eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tæki málið til skoðunar. Þar röktum við af hverju við teljum netsöluna, eins og hún er stunduð á Íslandi, vera ólöglega.

Við höfum nýlega, ásamt fjölda heilbrigðisstétta, sent áskorun til yfirvalda þar sem félögin skora á yfirvöld að m.a. hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um um einkasölu ÁTVR á áfengi.

Félögin eru:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Félag sjúkraþjálfara,
Ljósmæðrafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag
Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands. Lyfjafræðingafélag Íslands, Félag áfengis- og
vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Við teljum að með afskiptaleysi yfirvalda, bæði ráðuneyta og lögreglu, sé verið að mylja niður einkasölu áfengis á Íslandi. Mylja undan lögum sem byggja á lýðheilsu, rannsóknum og gagnreyndir þekkingu. Í stað þess að fara í málið að framanverðu, með umræðum um kosti og galla og eftir atvikum lagabreytingu, eigi að fara í málið að aftanverðu. Valdhafar leyfi ólöglegum netsölum að spretta upp, gera lítið sem ekkert í því, láta netsöluna þá hreiðra um sig og svo eigi að lögleiða þá stöðu. Eins og þið vitið er slík lögleiðing komin fram á þingmálaskrá vetrarins. Að okkar mati er þetta bæði lögbrot og algerlega siðlaust. Þetta er ekki heiðarleg og réttlætanleg aðferð. Aðferðin er þekkt innan m.a. tóbaks- og áfengisiðnaðarins, þeir spila á kerfið, play by the playbook.

Lögbrotið

Við viljum ekki nota mikið af dýrmætum tíma í umræður um lögbrotið sjálft. Bæði lög og stefnur eru skýrar. Í stuttu máli þá fer hér fram lögbrot því um smásölu er að ræða þegar varan er seld af lager innanlands á nokkrum mínútum til neytenda. Alveg eins og þegar pantaður er matur á netinu hjá Kentucky Fried Chicken og Tokyo Sushi og hann afhentur nokkrum mínútum seinna.

Ekki er um innflutning til eigin nota að ræða, þá væri lager sem selt er af ekki innanlands. Þá er salan á skjön við lýðheilsustefnuna sem allir þingmenn samþykktu fyrir ekki löngu. Ef salan væri lögleg þá þyrfti væntanlega dómsmálaráðherra ekki að flytja mál til að lögleiða söluna og ekkert slíkt mál væri á þingmálaskrá.

Stjórnsýslan

Við höfum áhuga á að ræða við ykkur um stjórnsýsluna og ráðherraábyrg. Skoða verði lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011 sem heyra að mestu undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðherra og áfengislög nr. 75/1998 sem heyra að mestu undir málefnasvið dómsmálaráðherra. Þessir ráðherra hafa eftirlitsskyldu gagnvart lögunum í gegnum lögregluna, skatt og toll.

Þá sé brýnt að kryfja lög um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 og lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963 í þessu samhengi. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 bera ráðherrar ábyrgð á málefnasviðum sínum. Ráðherrar bera athafnaskyldu gagnvart því að farið sé að lögum á málefnasviðum sem undir þá heyra. Þeim ber með öðrum orðum lagaleg skylda til viðbragða ef lögum er ekki framfylgt.

Í lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Þar segir að krefja megi ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög.

Fjármála- og efnahagsráðherrann

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur vanrækt skyldu sína með því að beita sér ekki á málasviði sínu í fjölmörg ár. Til dæmis þegar ÁTVR sótti mál gegn netsölum fyrir dóm á sínum tíma. Niðurstaða Héraðsdóms var sú að málatilbúnaðurinn var haldinn annmörkum og var málinu því vísað frá án efnislegrar niðurstöðu.

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=3e5ff1c0-8cf8-4bd8-a1c1-a9f1ffb0e66e

Fram kom að fjármála- og efnahagsráðherrann stöðvaði málareksturinn, kvaðst ekki sjá ástæðu til þess að grípa frekar inn í atburðarásina með því að t.d. kæra úrskurð Héraðsdóms til Landsréttar eða grípa til aðgerða með öðrum hætti. Í fjölmiðlum sagði ráðherra m.a. „Ég myndi frek­ar leggja áherslu á að ræða með dóms­málaráðuneyt­inu þörf­ina fyr­ir að skoða lög­gjöf­ina og skýra leik­regl­urn­ar held­ur en að grípa frek­ar inn í þessa at­b­urðarás.“

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2022/03/22/ser_ekki_astaedu_til_ad_kaera_i_malum_atvr

Þetta var alvarlegt í ljósi ábyrgðar ráðherra á málaflokknum og þess að almennt er ekki véfengt að netverslun með lager innanlands er ekki leyfileg, sbr. afdráttarlausan dóm innan EES. Ráðherrann stóð ekki með ÁTVR í málinu heldur vísaði á annan ráðherra, dómsmálaráðherra.

Héraðsdómur vísað málinu frá á grunni þess að ÁTVR væri ekki eftirlitsaðili í þessu máli. Dómsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti eru eftirlitsaðilar í gegnum lögreglu, toll og skatt samkvæmt lögunum.  Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ekki beitt sínum eftirlitsheimildum, svo vitað sé, hjá skatti og tolli eins og honum bar skylda til að gera.

Dómsmálaráðherra

Félag atvinnurekenda, FA, lagði fram fyrirspurnir til fjármála- og efnahagsráðuneytis um lögmæti þriggja útfærsla af netsölu 9. ágúst 2021.

1) Er netverzlun áfengisframleiðenda með staðfestu á Íslandi, líkt og fer fram á bjorland.is, í samræmi við lög? 2) Er netverzlun fyrirtækis með staðfestu í öðru EES-ríki, sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög? 3) Er netverzlun fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (t.d. Bretlandi) sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?

Fjármála- og efnhagsráðuneytið bað dómsmálaráðuneytið um að svara, sem það gerði ekki, samkvæmt upplýsingum FA því FA dregur fram, í umsögn til Alþingis 22. mars 2022, að dómsmálaráðuneytið hafi ekki svarað þeim neinu varðandi lögmætið þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir.

“FA hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá dómsmálaráðuneytið til að svara spurningum um lögmæti þeirra þriggja mismunandi útfærslna á vefverzlun sem litið hafa dagsins ljós. Í fyrsta lagi er um að ræða fyrirtæki með heimilisfesti á Íslandi, í öðru lagi vefverzlanir með staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og í þriðja lagi vefverzlanir með staðfestu í ríkjum utan EES, til dæmis Bretlandi. Í öllum tilvikum eru starfrækt vöruhús á Íslandi, sem vörur eru afhentar úr. Svör ráðuneytisins hefur mátt skilja svo að innlend vefverzlun sé óheimil að óbreyttum lögum, en ekki hafa verið gefin skýr svör varðandi önnur rekstrarform.“

Dómsmálaráðherra hefur því vanrækt skyldu sína ef rétt er að fyrirspurn í mikilvægu samfélags- og lýðheilsumáli hafi verið látin liggja án svara.

Við gefum FA líka falleinkunn, því okkur sýnist að þeir beittu sér ekkert frekar til að fá svör. Þeir kærðu t.d. ekki málið til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, fóru ekki með það til Umboðsmanns Alþingis svo við sjáum. Við höfum hins vegar kært til nefndarinnar og bað nefndin dómsmálaráðuneytið um að taka „ákvörðun um afgreiðslu hennar eins fljótt og við verður komið og ekki síðar en 25. september næstkomandi.“

Við sendum bæði dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra erindi þann 20. mars þar sem við óskuðum skriflegra skýringa á athafnaleysi ráðherra á málefnasviði sínu.

Dómsmálaráðherra svaraði og gaf boltann á fjármála- og efnahagsráðherra með þessum orðum „Vegna þeirrar netsölu sem vísað er til í erindinu hefur áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðað dómsmál á hendur tveimur fyrirtækjum. Málunum var vísað frá héraðsdómi og hefur hvorki ÁTVR né fjármálaráðherra hafst frekar að, eftir því sem næst verður komið.

Eins og sjá má hafa dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra vísað hvor á annann í þessu máli í stað þess að taka á því.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ekki svarað fyrirspurninni okkar frá 20. mars. Við teljum að ykkar nefnd eigi að kryfja lögin um Stjórnarráð Íslands og lög um ráðherraábyrgð í þaula í þessu samhengi.

Þá viljum við benda á fleiri yfirvöld sem hafa brugðist.

ÁTVR kærði netsölur 16. júní 2020. Síðan eru liðin á fimmta ár. Eftir eftirrekstur brást Ríkissaksóknari loks við og er farinn að spyrja lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hvenær ljúka eigi málinu. Nú hefur komið fram opinberlega að tvö netsölumál eru fullrannsökuð og komin til ákærusvið. Því skal skotið að hér að þrátt fyrir þetta ákveður Hagkaup að hefja áfengissölu, vitandi að kæra ÁTVR er komin á ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og það styttist vonandi í niðurstöðu þar.

Við gefum lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur ekki komist að niðurstöðu í á fimmta ár, falleinkunn í þessu máli.

Að okkar mati er ekki hægt að útskýra þennan rannsóknartíma. Kannski hefði mátt útskýra nokkra mánuði, tæpast ár. En þessi tími er algerlega óeðlilegur.

Að lokum teljum við rétt að geta þess að þrátt fyrir að hafa reynt að rannsaka þetta mál um stund þá höfum við ekki séð neitt lögfræðiálit sem styður að netsalan eins og hún fer fram hér sé lögleg. Við höfum einungis séð álit sem renna stoðum undir að hún sé ólögleg s.s. álit Málþings (Bjarki Már Baxter) unnið fyrir ÁTVR og álit Magna lögmanna (Flóki Ásgeirsson) unnið fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í grein heilbrigðisráðherra „Lýðheilsuhugsjónin“ á visir.is 30. ágúst sl. segir: „Í lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra kemur skýrt fram að það fyrirkomulag netverslana sem þróast hefur hér á landi síðustu misseri sé í andstöðu við lög.“

 Annað hvort er hér átt við Magna álitið eða eitthvað annað álit. Við höfum spurnir af því að til sé álit í dómsmálaráðuneyti og/eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem okkur skilst sýni að netsalan sem fer fram á Íslandi sé ólögleg. Ekki vitum við hvort heilbrigðisráðherra sé að vísa til þess. Álitið sé nokkurra ára, hafi farið á milli ráðuneyta, en setið sé á því. Við teljum að stjórnskipunar- og eftirlitnefnd þurfi að kalla eftir álitinu. Því ef ráðuneyti á til álit um að færa megi rök fyrir því að netsalan sé ólögleg og lykilráðherrar hafi ekki brugðist við árum saman, eru það sterk viðbótarrök við þau rök sem fyrr hafa verið rakin um að kryfja verið lög um ráðherraábyrgð og athafnaleysi til hlítar í þessu mikilvæga samfélags- og lýðheilsumáli.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/radherraabyrgd-og-stjornsyslan/