Previous Next

Smásala áfengis á Íslandi í gegnum vefsíðu/app eru ekki erlend (net)viðskipti

Láttu aðra vita

Verslun með áfengi er ekki einkamál áfengisiðnaðarins og áfengisstefnu í samfélaginu er ekki hægt að byggja á þeim forsendum. Almannahagsmunir, velferðar- og lýðheilsusjónarmið eru mun mikilvægari en einkahagsmunir. Áfengisiðnaðurinn hefur ekkert umboð til breytinga en fer sínu fram að virðist átölulaust? Lýðheilsumat eða nokkur önnur úttekt á afleiðingum breytinga á ríkjandi áfengisstefnu eru ekki fyrir hendi? Á sviði framkvæmda í samfélaginu er vart velt við steini nema fyrir liggi umhverfismat?

Í fjölda ára hefur verið heimilt að flytja inn áfengi til eigin nota og það löngu áður en að netið kom til sögunar. Áhugafólk hefur gjarnan nýtt sér þessa leið og lagalega er engin ágreiningur um þetta fyrirkomulag. Fólk getur keypt áfengi til eign nota erlendis, flutt hingað hvort sem það tekur það með sér sem ferðalangar eða flytur inn með öðrum aðferðum og greiðir viðkomandi gjöld af vörunni.

Þetta á ekkert skylt við smásölu áfengis nokkurra fyrirtækja hérlendis sem með röngu telja sig „erlendar“ netverslanir.  Það er sorglegt að fjármálaráðherra hafi beitt sér gegn því að máli af þessum toga, sem vísað frá héraðsdómi af tæknilegum ástæðum (byggt á áliti eins dómara), væri áfrýjað til æðra dómstigs?  Hér að neðan er tilvísun í reifun málsins sem sýnir í hnotskurn smásölu einkaaðila. (Leturbreytingar eru okkar þar sem hvorki nöfn né fyrirtæki skipta máli, efnisatriðin kjarna málið)

„Samkvæmt  því  sem  fram  kemur  í  stefnu  fékk  stefndi,  BBBBB,  persónulega, skráð  virðisaukaskattsnúmerið  xxxxxxx  þann  xx. xxxx  20xx  vegna  atvinnurekstrar einstaklings,  og  sé  það  virðisaukaskattsnúmer  gefið  upp  fyrir  smásölu  áfengis  í vefverslun á vefslóðinni www.AAA.is.

Kveður stefnandi að stefndi, BBBBB, hafi hins vegar hvorki leyfi til innflutnings áfengis né heildsölu. Enn  fremur  segir  í  stefnu  að  hið  stefnda  félag,  AAA  ehf.,  sé  handhafi tímabundins  starfsleyfis  til  áfengisinnflutnings  og  að  stefndi,  BBBBB,  sé  skráður ábyrgðarmaður  leyfishafa.  Skráð  starfsemi  stefnda,  AAA  ehf.,  sé  heildverslun  með drykkjarvörur og smásala á drykkjarvörum í sérverslunum. Stefndi, BBBBB, sé 100% eigandi,  stefnda,  AAA  ehf.,  og  eini  stjórnarmaður  þess. 

Stefnandi  byggir  á  því  að stefndi, AAA ehf., virðist vera innflytjandi áfengis sem selt sé í smásölu í vefverslun á   vefslóðinni  www.AAA.is .   Áfengi   sé   jafnframt   afgreitt   af   lager   á   skráðu heimilisfangi stefnda, AAA ehf. Stefnandi kveður stefnda, AAA ERLENDIS vera félag skráð í XXlandi og að það sé í fullri eigu stefnda, BBBBB, sem jafnframt sé skráður forráðamaður þess. Stefndi, AAA ERLENDIS, sé með skráða kennitölu hérlendis, kt. xxxxxx- xxxx, sem gefin  sé  upp  fyrir  smásölu  áfengis  í  vefverslun  á vefslóðinni www.AAA.is.  Þá  sé stefndi, AAA ERLENDIS, skráð fyrir fyrrgreindu léni í rétthafaskrá ISNIC. Reikningar hafi verið gefnir út í nafni AAA ERLENDIS vegna viðskipta við vefverslunina.  Stefndi AAA ERLENDIS hafi þó hvorki leyfi til innflutnings áfengis til Íslands né heildsölu þess.

Fram kemur í málavaxtalýsingu í stefnu að þrátt fyrir einkarétt stefnanda hafi stefndu hafið smásölu áfengis í vefverslun á vefslóðinni www.AAA.is í xxxx 20xx, þar sem  neytendum  sé  boðið  áfengi  til  sölu  beint  af  innlendum  lager.  Á  heimasíðu vefverslunarinnar komi fram að allar vörur sem boðnar séu til sölu í vefversluninni séu á lager á Íslandi og tilbúnar til afgreiðslu samdægurs eða í síðasta lagi næsta virka dag.

Stefnandi kveðst hafa hvoru tveggja kært starfsemi stefndu til lögreglu, sem og tilkynnt Skattinum um meint brot stefndu á skatta – og tollalögum en ekki verði séð að  yfirvöld  hafi  brugðist  við  erindum  hans.  Þá  hafi  stefnandi  gert  leyfisveitanda, sýslumanninum  á  höfuðborgarsvæðinu,  grein  fyrir  meintum  brotum  stefnda,  AAA ehf., á skilyrðum innflutningsleyfis hans og mun sýslumaður hafa sent erindi hans til lögreglunnar  á  höfuðborgarsvæðinu  sem  eftirlitsaðila  með  framkvæmd  leyfisins. Stefnandi telur stefndu með háttsemi sinni brjóta gegn lögvörðum einkarétti stefnanda og valda honum tjóni. Sé honum því nauðugur sá kostur að höfða þetta mál.

Stefnandi  telur  alla  stefndu  eiga  þátt  í  ólögmætri  smásölu  áfengis,  sem  farifram í vefverslun á íslensku vefslóðinni  www.AAA.is. Það sé þó stefndi, BBBBB, sem haldi um alla þræði, sem 100% eigandi hinna stefndu félaga og skráður forsvarsmaður þeirra beggja. Stefnandi byggir á því að ekki geti skipt máli þótt erlent félag sé skráð fyrir  léni  vefverslunarinnar www.AAA.is þar  sem  vörurnar  séu  boðnar  til  sölu  eða hvort einhvers konar reikningar séu gefnir út í nafni stefnda, AAA ERLENDIS. Telur stefnandi  augljóst  að  um  smásölu  stefndu  innanlands  sé  að  ræða,  sem  brjóti  gegn einkarétti  stefnanda,  hvort  sem  það  telst  vera  erlendur  eða  innlendur  aðili  sem raunverulega  býður  vöruna  til  sölu,  samþykkir  pöntun,  tekur  á  móti  greiðslu  eðaafhendir áfengið.

Innflutningsleyfi stefnda, AAA efh., veiti honum heimild til þess að selja eða afhenda  áfengi  til  þeirra  sem  leyfi  hafa  til  að  framleiða,  selja  eða  veita  áfengi  í  atvinnuskyni, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1998. Stefnda sé jafnframt heimilt að selja  eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota, sem og að selja eða afhenda innflutt áfengi  þeim  sem  njóta  úrlendisréttar  og  í  tollfrjálsar  forðageymslur  eða  verslanir.  Ákvæðið sé tæmandi en þar sé jafnframt tiltekið að innflutningsleyfi veiti leyfishafa  ekki heimild til að selja áfengi í smásölu.

Þá segir í stefnu að á stefnda, BBBBB, hafi verið að skilja að sala stefnda, AAA ehf.,  til  stefnda,  AAA ERLENDIS, félli  undir  h-lið  1.  mgr.  5.  gr.  reglugerðar  nr.  828/2005  um  framleiðslu,  innflutning  og  heildsölu  áfengis  í  atvinnuskyni  um að innflutningsleyfishafa sé heimilt að selja og afhenda áfengi til „sölu úr landi“. Ekki sé hins vegar að sjá að áfengið sé flutt úr landi eftir að stefndi, AAA efh. hafi flutt það inn,  áður  en  það  sé  selt  í  vefversluninni,  enda  sé  ljóst  að  stefndi,  AAA ERLENDIS, þyrfti  þá  að  flytja  áfengið  til  landsins  að  nýju  og  greiða  skatta  og  skyldur af  innflutningnum. Til þess hafi hann ekki leyfi og hið sama eigi við um stefnda, BBBBB.

Hvorugur  þeirra  teljist  til  þeirra  aðila  sem  framangreint  ákvæði  áfengislaga heimili handhöfum  áfengisinnflutningsleyfis  að  eiga  viðskipti  við.  Þrátt  fyrir  þetta  virðist áfengið  sem  stefndi,  AAA ehf.,  hafi  flutt  inn  á  grundvelli  starfsleyfis  síns  með  einhverjum  hætti  skipta  um  hendur  áður  en  það  sé  selt  í  smásölu  hérlendis,  en virðisaukaskattur  af  þeim  viðskiptum  virðist  innheimtur  í  nafni  stefnda,  BBBBB,  og  stefndi, AAA ERLENDIS, er sagður annast smásöluna. Stefnandi byggir á því að þáttur stefnda, AAA efh. í smásölu á áfengi í vefverslun á vefslóðinni www.AAA.is, hvort tveggja til einstaklinga og fyrirtækja, falli utan við framangreinda heimild leyfishafa og sé þannig ólögmætur.“

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/smasala-afengis-a-islandi-i-gegnum-vefsidu-app-eru-ekki-erlend-netvidskipti/

Það er engin lagaleg óvissa

Láttu aðra vita

Það er leitt að sjá ýmsa fjölmiðla byggja umfjöllun um ólöglega sölu áfengis á þeirri skoðun og óskhyggju áfengissala að það sé „lagaleg óvissa“ sem geri söluna löglega? Slíku er ekki fyrir að fara, þvert á móti. Rannsóknarsetur verslunarinnar segir einfaldlega að vefsala sé eitt form smásölu og hver er þá lagalegi vafinn annar en sá að slá ryki augu fólks? Það eru í gildi áfengislög sem eru skýr.

Máli ÁTVR gegn tilteknum fyrirtækjum var vísað frá Héraðsdómi af tæknilegum ástæðum. Byggt á áliti eins dómara sem taldi ÁTVR ekki vera aðila máls. Í frávísunni er ekkert tekið á efnisatriðum málsins, hinni ólöglegu sölu. ÁTVR áfrýjaði að sjálfsögðu.

Æðsti yfirmaður ÁTVR fjármálaráðherra (sem og dómsmálaráðherra) brást ókvæða við og taldi enga þörf á áfrýjun sem er ástæða þess að ÁTVR dró áfrýjun til baka. Þetta er merkilegt en með þessu var algerlega ljóst að fjármálaráðherra vill ekki efnislegan dóm í málinu enda veit hann lögfræðingurinn hver niðurstaðan yrði.

Að telja kolólöglega smásölu áfengis löglega byggða á frávísun eins héraðsdómara er einfaldlega óboðlegt Stóra fréttinn í þessu máli er því sú hvers vegna yfirvöld í láti þessi lögbrot viðgangast? Er Costco og fleiri fyrirtæki hafin yfir íslensk lög?

Það hefur engin beðið um áfengisstefnu eða samþykkt áfengispólitík sem byggir á ítrustu sérhagsmunum áfengissala. Málefnið er einfaldlega miklu stærra og varðar fleiri og mun ríkari almanna hagsmuni en það.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/thad-er-engin-lagaleg-ovissa/

Hin hliðin – Lýðheilsa – Vernd barna og ungmenna – Áfengisstefna – Íslenska leiðin

Láttu aðra vita

Sjá – https://www.visir.is/k/e16ad5ce-5997-4de9-a1aa-6c377d3581cb-1687248225157?fbclid=IwAR1PUyNcX8rvesJCBWqJ_-wigqYOvpth1R9hKJ_0McNuB8wbzqbFmDc9lxY

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/hin-hlidin-lydheilsa-vernd-barna-og-ungmenna-afengisstefna-islenska-leidin/

Af þreyttasta frumvarpi Íslandssögunnar

Láttu aðra vita

Um þessar mundir liggja fyrir Alþing tvö áfengisfrumvörp sem bæði ganga, að sögn, út á að „frelsa“ áfengið, eins og það sé í einhverri ánauð. Annað þeirra, frumvarp um að heimila „vefsölu“ áfengis, er til umfjöllunar í þessu greinarkorni. Ekki hefur sá sem þetta ritar tölu á öllum þeim sambærilegum frumvörpum sem lögð hafa verið fram á Alþingi síðustu ár eða áratug en þau eru sennilega vel á annan tuginn.

Tímasetningar í þessu sérhagsmuna vafstri hafa ekki alltaf verið heppilegar. Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins  ætlaði að mæla fyrir slíku frumvarpi í upphafi hrunsins þegar að vart heyrðist mannsins mál í þingsal vegna mótmælanna fyrir utan þinghúsið. Þegar að covid faraldurinn skall á með miklum þunga og samfélagið var allt á öðrum endanum þá taldi þ.v. dómsmálaráðherra ástandið sýna að mikil þörf væri fyrir netverslun með áfengi? Árangur af þessu vafstir er engin, eins og dæmin sanna og  tíma þingsins örgugglega betur varið í önnur mál og mikilvægari.

Meintur „vandi“ kristallast sennilega í þeim fleygu ummælum stjórnmálamanns eins um að það væri slæmt að geta ekki kippt með sér hvítvínsflösku/m í stórmarkaðinum á sunnudögum til að hafa með humrinum. Það sé frelsismál, en ekki minnst einu orði á humarinn, sem er með öllu ófrjáls eins og mest af okkar sjávarfangi, sem býr við helsi fiskveiðistjórnunarkerfisins? Og svo hinu að áfengi sé löglega vara (eins og tóbak) og því eigi framleiðendur og  seljendur allan rétt á því að sýsla með áfengið eins þeim og þeirra hagsmunum henti best.

Hagmunaaðilar háværir

Hagmunaaðilar, helstu og háværustu talsmenn breytinga, eru orðnir óþreyjufullir. Ýmsir í þeirra ranni nenna ekki lengur að bíða. Í þágu sinna ítrustu sérhagsmuna, auglýsa þeir áfengi eins og engin sé morgundagurinn og selja áfengi í smásölu þvert á  lög, lýðheilsu- og forvarnasjónarmið svo ekki sé minnst á almennt velsæmi.  

Í þessu samhengi þá veldur „ákvörðun“ ÁTVR um að draga til baka, áfrýjun til Landsréttar, mál vegna ólöglegrar sölu áfengis, mikilli furðu svo ekki sé meira sagt. Fingraförin sjást reyndar langar leiðir. Fulltrúi löggjafa- og framkvæmdavaldsins, fjármálaráðherra, beitir sér af alefi gegn því að dómsvaldið úrskurði efnislega í algerlega augljósu máli. Tæknileg frávísun byggð á skoðun eins  héraðsdómara er látin nægja.  Slíkt er algerlega óboðlegt og framganga fjármálaráðherra í þessu máli honum lítt sæmandi.  Áfengisbransinn  andar léttar um skeið enda búið að afstýra því að úrskurðað verði efnislega um algerlega augljósa ólöglega áfengissölu. Fyrirliggjandi frumvarp um að heimila vefsölu áfengis er auk þess ekkert annað en formleg viðurkenning á því að núverandi „vefsala“ sé með öllu ólögleg. 

Markmiðið er klárt. Nú á skal þess freistað með öllum tiltækum ráðum, enn eina ferðina, að brjóta á bak aftur fyrirkomulag sem ríkt hefur nokkuð almenn sátt um í samfélaginu.

Dómsmálaráðherra

Dómsmálaráðherra hefur látið þau boð út ganga að hann ætli að fá til liðs við sig, í ráðuneytið, þrjá eða fjóra  lögfræðinga, sérfræðinga í Evrópurétti, til þess að kanna hvort við þurfum ekki að taka upp reglur Evrópusambandsins, sem að hans mati virðast ganga út á það að við verðum að selja áfengi út um allt, alltaf. Evrópusambandið vill hann að öðru leyti ekkert með hafa, finnur því reyndar flest allt til foráttu. Skynsamara væri að nýta þessa fjármuni í að láta gera lýðheilsumat á afleiðingum þessara frumvarpa, fremur en að eyða stórfé í spurningu sem þegar er búið svara. Eitt símtal til Evrópusambandslandsins Svíþjóðar nægir, það þarf enga fjóra lögfræðinga í það. Lýðheilsu- og velferðarmarkmið þjóða ganga einfaldlega framar viðskiptahagsmunum. Fyrirkomulag áfengissölu á augljóslega við í þeim efnum, þjóðir geta því haft það fyrirkomulag sem þær kjósa.  Fullkomið verkleysi ráðherrans, sem yfirmanns löggæslumála, gagnvart augljósum lögbrotum, bæði hvað varðar áfengisauglýsingar og ólöglega sölu áfengis, vekja furðu og spurningu um hvort ráðherra telji sig hafa ríkar skyldur gagnvart áfengissölum  en almenning í landinu, ekki síst börnum og ungmennum?

Vefsala er almennt söluform

Að heimila „vefsölu“ áfengis þýðir ekkert annað en að leyfa almenna sölu áfengis. Á því leikur engin vafi og kemur einkar vel fram í úttekt Rannsóknaseturs verslunarinnar á áhrifum  stafrænnar tækni á verslunarrekstur:

„Vegna samruna hefðbundinnar verslunar við net og stafrænar tæknilausnir getur reynst erfitt að aðgreina umfang hefðbundinnar verslunar frá umfangi  netverslunar eða öðrum nýjum verslunarháttum.  

Til samanburðar má líkja samruna hefðbundinnar verslunar við netverslun við þá breytingu sem varð um miðja síðustu öld þegar tekin var upp sjálfsafgreiðsla í stað afgreiðslu yfir búðarborð. Erfitt reyndist að aðgreina magn þess sem selt var í sjálfsafgreiðslu og vörur sem voru á bakvið búðarborðið.

Á sama hátt getur reynst erfitt að aðgreina veltu í hefðbundnum verslunum núna og netverslunum, því þessar tvær tegundir renna sífellt meira saman“

(Emil Karlsson, 2018. Íslensk netverslun– áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni, bls 9 .RANNSÓKNASETUR VERSLUNARINNAR)

Stórmarkaðir eins og Costco, Hagkaup, Bónus, Krónan, og nánast allir þeir sem það kjósa, munu geta hafið sölu áfengis án verulegra takamarkanna og munu gera verði frumvarp af þessum toga einhvern tímann að lögum. Útsölustöðum mun fjölga um mörg hundruð prósent frá því sem nú er. Stórmarkaðir verða ráðandi og þessir fáu aðilar sem hæst hafa um þessar mundir verða eins og síli innan um laxanna, fórnalömb eigin hugmyndafræði.

Allt hefur þetta verið keyrt áfram á forsendum ítrustu viðskiptahagsmuna. Framboð af áfengi verður gríðarlegt, sölustöðum fjölgar margfalt, opnunartímar verða alltaf, áfengisauglýsingar og algerlega óheft markaðssókn verður viðvarandi og mun eins og dæmin sanna ekki síst bitna á og beinast að börnum og ungmennum.

Vernd barna og ungmenna

Allt gengur þetta þvert á lýðheilsu- og forvarnarmarkmið samfélagsins, sem nokkuð almenn sátt hefur ríkt um. Ágætur árangur okkar Íslendinga í forvörnum gagnvart börnum og ungmennum er afsprengi margra áratuga vinnu. „Íslenska módelið“ er m.a. afrakstur þess og er gagnreynd aðferðarfræði (Rannsókn og greining) og er mörgum öðrum löndum fyrirmynd á þessu sviði. Nálgun sem byggir á nokkrum meginstoðum. Samveru foreldra, barna og ungmenna, virkri þátttöku í æskulýðs- og íþróttastarfi,  forvarnarfræðslu foreldra, barna og ungmenna, aðgengi og sölufyrirkomulagi áfengis, svo dæmi séu nefnd. Árangurinn í forvarnarstafi er ekki sjálfsprottinn og varir ekki nema stöðugt sé haldið áfram. Forvarnir eru ferskvara.  Gott ástand einnar kynslóðar er ekki ávísun á að það þurfi ekkert að vinna gagnvart næstu kynslóð. Gott ástand er ekki heldur nein skiptimynt eða réttlæting fyrir breytingum sem ganga þvert á öll lýðheilsu- og forvarnarmarkmið.

Lýðheilsumat

Í fyrstu frumvörpum um áfengismál var smávegis um að auka fé til lýðheilsu- og forvarnamála til mótvægis við þær neikvæðu afleiðingar sem svona frumvörp hafa.  Síðustu ár er ekki minnst á slíkt svo neinu nemi og þá helst persónlegum hugmyndum flutningsmanna, og eða þeirra lögfræðinga sem frumvörpin semja, um að frumvarpið hafi lítil sem engin áhrif á lýðheilsu? Eigi ekki við eins og einn ráðherra orðaði það. Í síðustu tveimur til þremur tilraunum við að koma svona frumvarpi í gegn þá hefur umræðan auk þess verði afar einhliða og nánast algerlega á forsendum hinna ítrustu viðskiptahagsmuna.  Það sem verra er að framlag í Lýðheilsusjóð hefur verið lækkað frá því sem áður var, er nú föst upphæð í stað hlutfalls af áfengisgjaldi eins og áður var.

Engum af flutningsmönnum þessara frumvarpa, í gegnum árin, virðast detta til hugar að leggja til að fram fari lýðheilsumat á afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin kunna að hafa í för með sér. Í þeim efnum má nefna rannsókn sem birtist á vef BMC Public Health í desember 2018.  Lýðheilsufræðileg rannsókn á áhrifum þess að breyta sölufyrirkomulagi áfengis í Svíþjóð í þá veru að leggja niður Systembolaget (sænska ÁTVR) Estimating the public health impact of disbanding a government alcohol monopoly: application of new methods to the case of Sweden. Innan Félags Lýðheilsufræðinga og Landlæknisembættisins eru sérfræðingar á þessu sviði sem hafa þekkingu til þess að gera svona mat með gagnreyndum vísindalegu aðferðum. Undarlegt að ekki hafi verið leita til viðkomandi aðila í tengslum við þetta frumvarp?

Fyrirkomulag áfengisölu á ekki að lúta forsendum ítrustu  sérhagsmuna.

Örfá aukaspor, ef einhver eru, til þess að versla áfengi er á alla leggjandi. Þær breytingar sem dómsmálaráðherra berst fyrir eru fyrst og fremst í þágu  ítrustu viðskiptahagsmuna og yrðu eitt mesta lýðheilsuslys síðustu áratuga. Að mati þess sem þetta ritar er grundvallaratriði og kjarni þessa máls, auk lýðheilsu- og velferðarsjónarmiða, vernd barna og ungmenna. Ekki bara vernd þeirra gegn  áfengisáróðri eins og áfengisauglýsingar eru. Ekki síður vernd gagnvart sölufyrirkomulagi sem er afar ótryggt hvað varðar börn og ungmenni. Samfélagið getur og setur sér ýmis lög og reglur í þágu almannahagsmuna sem betur fer. Áfengismál eru dæmi um slíkt, ákveðin samfélagssáttmáli sem flestir virða og vonandi verður það áfram svo. Fyrirkomulag áfengisölu, áfengisstefna á ekki að lúta forsendum ítrustu  sérhagsmuna, slíkt er einstakt óráð.

Árni Guðmundsson

Félagsuppeldisfræðingur/ Tómstunda- og félagsmálfræðingur

Grein þessi birtistí Kjarnanum vorið 2022

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/af-threyttasta-frumvarpi-islandssogunnar/

Stöndum vörð um velferð barna og ungmenna

Láttu aðra vita

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/690-2/

Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og ungmenna

Láttu aðra vita

Erindi formans Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum á málfundi Vímulausrar æsku og IOGT í Bústaðakirkju þ. 3. desember 2018

Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og ungmenna

"Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og ungmenna" Erindi formanns Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum á málfundi Vímulausrar æsku og IOGT í Bústaðakirkju þ. 3. desember s.l.

Posted by Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum on Friday, December 7, 2018

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-eru-bodflennur-i-tilveru-barna-og-ungmenna/

Load more