Síðustu tvo daga höfum við fjallað um flutning vínbúðarinnar á Akureyri úr miðbænum í norðurhluta bæjarins og höfum bæði heyrt í aðstoðarforstjóra ÁTVR sem sagði flutninginn hafa verið nauðsynlega ákvörðun fyrirtækisins því ekki fannst annað hentungra rými í miðbænum. Við heyrðum líka í kaupmanni í miðbænum á Akureyri og bæjarstjóranum sem höfðu af þessu nokkrar áhyggjur og við fengum líka skoðanir hlustenda. Í gær hringdum við í Vilhjálm Árnason þingmann Sjálfstæðiflokksins sem vildi meina að staðsetning nýrra vínbúða ráðist sannarlega ekki af lýðheilsusjónarmiðum.
Árni Guðmundsson félagsuppeldisfræðingur og formaður foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum var á línunni (tengill í mynd)
Í grein sem formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum ritaði í Vísi 1. mars segir m.a. “Þeir sem hafa farið fremstir í að breiða skipulega út að þessi netsala sé lögleg haga áróðri sínum með svipuðum hætti og tóbaksiðnaðurinn gerði og gerir, hafna gagnreyndri þekkingu, gefa ekkert fyrir vísindi og fresta þess að stýra umræðunni í kraft fjármagns og áhrifa.” ( https://www.visir.is/…/202526…/jon-og-felagar-eru-farnir ) Miðað við grein forstjóra í áfengisbransanum, sem birtist 3. mars, “Af hverju lýgur Alma” þá mætti bæta við smætta, niðra og gera lítið úr fólki sem stendur í vegi fyrir ítrustu sérhagsmunum viðkomandi. Sorglegt fyrst og fremst og undarlegt ef viðkomandi telji svona rugl vera sér til framdráttar.
Heilbrigðisráðherra var í viðtali á Rás 2 í morgun. Þar varaði hún eindregið við breytingum á sölufyrirkomulagi áfengis hérlendis sem væri einn af grunnþáttum þess hve vel hefur tekist í forvörnum, ekki síst hvað varðar börn . Áfengisneysla á Norðurlöndum að Danmörku undanskilinni sýndi í raun mikilvægi þess fyrirkomulags sem viðkomandi þjóðir búa við. Ráðherra vitnaði í þeim efnum m.a. til nýlegrar skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHOog varaði eindregið við að markaðsöflum væri falin forráð í þessum efnum. Þar helgist markmið fyrst og fremst af viðskiptasjónarmiðum með tilheyrandi auglýsingum og markaðssókn, sem gengur út á að ná sem mestri sölu og eigin ágóða með öllum tiltækum ráðum.
Að gefnu tilefni leggja Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum, sameiginlega fram eftirfarandi sparnaðarráð í samráðsgátt:
Þann 26. ágúst sl. komu ofangreind félög heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri á framfæri áskorun til yfirvalda um að bregðast við yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis. Í henni kom m.a. fram:
” Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun. Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli ÁTVR og að markmið laganna sé að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.”
Félögin skora á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi. Ofangreindir aðilar vilja, að gefnu tilefni, koma því á framfæri að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu er mikill. Felst hann m.a. í kostnaði vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu, í löggæslu og réttargæslukerfi, vegna eigna- og líkamstjóns og í minni framleiðni samfélagsins m.a. vegna dauðsfalla og vinnutaps. Kostnaður og önnur áhrif falla þannig á neytendur, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Sjá má staðreyndir um áhrif áfengisneyslu á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/alcohol Þá er vakin athygli á því að í bréfi WHO til heilbrigðisyfirvalda á Íslandi þann 18. júlí 2023 er tilgreint að evrópska áætlunin um aðgerðir vegna áfengis 2022-2025, sem samþykkt var einróma af öllum 53 aðildarríkjum árið 2022, hvetur aðildarríkin til að forgangsraða aðgerðum til að stjórna framboði áfengis, þar á meðal að huga að því að taka upp ríkisreknar áfengissölur (including considering the provision of state-operated alcohol outlets).
Eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur undirstrikað þá hefur áfengisiðnaðurinn mikla hagsmuni af því að selja áfengi til að hagnast. Áfengisiðnaðurinn beitir sömu aðferðum og tóbaksiðnaðurinn til að koma í veg fyrir eða tefja fyrir reglusetningu stjórnvalda og grafa undan góðri opinberri stefnu. Í nýju skjal frá WHO (nóvember 2024) Empowering public health advocates to navigate alcohol policy challenges – alcohol policy playbook eru teknar saman þær fullyrðingar sem áfengisiðnaðurinn styðst við í sínum málflutningi og gagnrök lýðheilsufólks og stofnana. Þar segir í formála (bls. VI); Áfengisiðnaðurinn heldur röngum upplýsingum á lofti sem hafa haft skaðleg áhrif á þekkingu og vitund almennings. Innan við þriðji hver Evrópubúi veit að áfengisneysla eykur hættu á krabbameini og aðeins 20% kvenna hafa nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýst val um áfengisneyslu. Viðskiptahagsmunir atvinnugreina eins og áfengis- og tóbaksiðnaðarins rekast stöðugt á lýðheilsumarkmið, en við verðum að hefja okkur yfir þær áskoranir. Eins og undirstrikað er í nýlegri skýrslu WHO/EURO um viðskiptaákvarðanir vegna langvinnra sjúkdóma, þá beita atvinnugreinar háþróuðum aðferðum til að móta skynjun almennings, hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun, og jafnvel stöðva pólitísk ferli. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að stefnumótendur, heilbrigðisyfirvöld og talsmenn lýðheilsu fái þau tæki sem þeir þurfa til að fletta ofan af og eyða þessum skaðlegu og röngu upplýsingum. „Misinformation perpetuated by the alcohol industry has contributed to a dangerous gap in public awareness; fewer than one in three Europeans know that alcohol increases cancer risk, and just 20% of women have the information necessary to make informed choices about alcohol consumption. The commercial interests of industries like alcohol and tobacco persistently clash with public health objectives, but we must rise above these challenges. As highlighted in the recent WHO/EURO report on the commercial determinants of noncommunicable diseases, industries employ sophisticated tactics to shape public perception, influence media narratives, and even capture political processes. This underscores the urgency of equipping policymakers, health authorities, and advocates with the tools they need to expose and dismantle these harmful narratives.“
Í sömu skýrslu kemur fram í kafla 1.3.1 (bls.13) að áætlaður samfélagslegur kostnaður áfengisneyslu ef allt er tekið saman nemi um 2.6% af vergri landsframleiðslu (VLF). „There is a substantial and growing body of literature estimating the economic costs to society that are caused by alcohol use. For example, a 2021 PROSPERO-registered systematic review and analysis identified 29 studies focused on the estimation of alcohol’s social cost (73). An analysis aggregating these identified studies from 29 primarily high-income countries showed that, if all harms caused by alcohol were included, the social cost of alcohol use expressed as a percentage of national gross domestic product (GDP) was 2.6%.“
Verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi var 4.321 milljarður árið 2023. Því má ætla að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu hafi verið rúmir 112 milljarðar króna á Íslandi árið 2023 út frá gögnum WHO. Nákvæm uppreiknuð upphæð er 112.346.000.000. kr.
Samkvæmt úttekt frá desember 2018 er talið að með því að færa áfengissölu frá Systembolaget, ríkissölunni í Svíþjóð, til einkaaðila myndi áfengisneysla þar aukast verulega. Ef salan væri færð til einkarekinna sérverslana mætti gera ráð fyrir því að áfengisneysla ykist um 20,00% á hvern einstakling. Ef salan væri færð inn í matvöruverslanir ykist áfengisneyslan um 31,2% á hvern einstakling. Fyrirkomulag áfengissölu hefur verið mjög svipað hjá Systembolaget í Svíþjóð og hjá ÁTVR á Íslandi og því mætti gera ráð fyrir að sambærileg neysluaukning yrði hér ef einkaaðilar tækju yfir áfengissölu á Íslandi.
Allar rannsóknir sýna að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif á lýðheilsu og mikinn samfélagslegan kostnaði í för með sér. Þær sýna einnig að öll aukning í sölu áfengis, m.a. vegna aukins aðgengis að áfengi, veldur tilheyrandi aukningu á áfengistengdum skaða og samfélagslegum kostnaði. Það felst því mikill sparnaður í því að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi. Sá sparnaður hleypur á milljörðum króna á ári.
Mjög mikil fjöldi ungmenna á aldrinum 13- 16 ára sækir félagsmiðstöðvar – Þar fer fram mikið og gott starf. Ungmennin finna sér alls konar verkefni við hæfi eða kíkja bara til að hitta önnur ungmenni í öruggu og uppbyggilegu umhverfi. Sjálfsefling og virkni eru leiðarstef í allri starfseminni. Þátttaka í starfinu er þroskandi og reynslan sem þar fæst gott veganesti (menntun) inn í fullorðinsárin.
Flestar félagmiðstöðvar eru virkar á samfélagsmiðlum. Þar eru unglingarnir en þar eru því miður stundum „aðrir“. Unglingar fá engan frið fyrir áfengisbransanum eins og þetta skjáskot sýnir. Á meðan ekkert er gert í ólöglegum áfengisauglýsingum, ólöglegri áfengissölu og „markaðsátaki“ eins hér má sjá, þá er staðan einfaldlega sú að með algeru fálæti yfirvalda er í raun búið að gefa „skotveiðileyfi“ á æsku landsins.
Er ekki löngu komin tími til að taka á þessari ömurlegu vitleysu?
Erindi til dómsmálaráðherra um athafnaskyldu ráðherra.
Erindi þetta er sent til að leita skriflegra svara við því af hverju ráðherra hefur ekki brugðist við þeirri ólöglegu netsölu áfengis sem fram hefur farið í landinu um langt skeið. Sú netsala sendir áfengi heim til einstakra neytenda á innan við 30 mínútum úr vöruhúsi sem er innanlands og er því smásala í samkeppni við ÁTVR og á skjön við lög á málefnasviði ráðherra. Netsalar þessir hafa ekki leyfi til smásölu áfengis. Neytendur geta einnig sótt vöruna beint í vöruhúsið og fengið hana afhenta þar, en slíkt er einnig á skjön við lög á málefnasviði ráðherra. Langt skeið hefur liðið án viðbragða ráðherra við þessari ólöglegu framkvæmd.
Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 bera ráðherrar ábyrgð á málefnasviðum sínum. Ráðherrar bera athafnaskyldu gagnvart því að farið sé að lögum á málefnasviðum sem undir þá heyra. Þeim ber með öðrum orðum lagaleg skylda til viðbragða ef lögum er ekki framfylgt. Málið er mikilvægt fyrir hagsmuni alls almennings að okkar mati. Við bendum því einnig á lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Þar segir að krefja megi ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög. Nánari upplýsingar um mál þetta eru hér.
Sem fyrr segir er óskað skriflegra skýringa á athafnaleysi ráðherra á málefnasviði sínu. Með fyrir fram þökkum,
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri IOGT og Hildur Helga Gísladóttir, fulltrúi SAFF-Samstarfs félagasamtaka í forvörnum.
Sambærilegt erindi var sent fjármála- og efnahagsráðherra.
Forvarnarsamtök afhenda dómsmálaráðherra áskorun þann 14. mars 2024 um að staðinn verði vörður um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis. Frá vinstri: Aðalsteinn Gunnarsson, IOGT, Björn Sævar Einarsson, IOGT, Árni Einarsson, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Árni Guðmundsson, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, Hildur Helga Gísladóttir, SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum og Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.
Breiðfylking forvarnarsamtaka ræðir við ráðherra um lýðheilsu og ólöglega netsölu áfengis
Þann 14. mars 2024 átti breiðfylking forvarnarsamtaka fund með dómsmálaráðherra til að undirstrika að lýðheilsa gangi framar markaðsvæddri netsölu áfengis. Óskað var eftir að ræða hvernig tryggja megi að landslögum sé fylgt og lýðheilsa varin eins og lög gera ráð fyrir. Á fundinum voru fulltrúar Samtakanna Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum, en sömu samtök stóðu að málþingi um lýðheilsu og áfengi þann 13. febrúar 2024 (upptaka af málþingi).
Áfengi sent heim á nokkrum mínútum í ólöglegri samkeppni við ÁTVR
Samtökin hafa áhyggjur af því að ekki skuli vera farið að landslögum hvað varðar rekstur netsölu með áfengi á Íslandi. Sú netsala sendir áfengi heim til einstakra neytenda á innan við 30 mínútum úr vöruhúsi sem er innanlands og er því smásala í samkeppni við ÁTVR. Neytendur geta einnig sótt vöruna beint í vöruhúsið. Í svari dómsmálaráðherra til Alþingis þann 11. desember 2023 er staðfest að slík sala sé ólögleg m.a. með staðfestingu á fyrri túlkun ráðuneytisins á lögunum frá 4. desember 2015 og tilkynningu um að til standi að lögleiða söluna. Netsalan fer því ekki fram í lagalegu tómarúmi eins og netsalarnir hafa reynt að halda á lofti.
Samtökin styðja gildandi lýðheilsustefnu og hafna að smásala í gegnum netið verði lögleidd
Ráðherra vill lögleiða heimild til reksturs innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda eins og fram kom í ofangreindu svari ráðherra til Alþingis og leggja ÁTVR niður. Forvarnarsamtökin komu því á framfæri að þau hafna slíku. Lögleiðing væri kúvending á gildandi stefnu þar sem einkasala ríkis á áfengi er fyrirkomulag til að takmarka og stýra aðgengi að áfengi til að draga úr skaðlegum áhrifum og vernda ungt fólk gegn neyslu. Þá væri slíkt í hrópandi mótsögn við lýðheilsustefnu stjórnvalda til 2030 sem samþykkt var samhljóða á Alþingi nýlega. Þar segir m.a. að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu. Þar segir einnig að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.
Einkasala ÁTVR er sterkasta forvörnin ásamt verðlagningu
Vitað er að einkasala ríkis á áfengi er ein virkasta forvörnin ásamt verðlagningu eins og vísindarannsóknir hafa sannað. Þess vegna er ekkert tilefni fyrir tilslökun við að halda fast í gagnreynda áfengisstefnu eins og WHO bendir á í nýlegu bréfi til heilbrigðisráðherra þann 18. júlí 2023. Á fundinum drógu forvarnarsamtökin fram að gildandi lög og stefnur hafa lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Slík rök vegi meira en markaðsvæðing áfengissölu með tilheyrandi samkeppni um að selja sem mest áfengi til sem flestra. Verði netsmásalan lögleidd falla því lýðheilsurök Íslands um að einkasala ÁTVR í smásölu sé grundvölluð á lýðheilsu og gangi því upp innan EES/ESB svæðisins.
Ráðherra ræður ekki einn
Samtökin bentu á að þótt ráðherra vonist eftir lagabreytingum í framtíðinni er ekki búið að breyta lögunum enn. Lögin standa. Dómsmálaráðherra ræður ekki einn. Ekkert bendir til þess að lögunum verði breytt á næstunni. Bæði heilbrigðisráðherra sem og varaformaður þingflokks Vinstri grænna og formaður velferðarnefndar Alþingis styðja ekki lögleiðingu smásölu áfengis í gegnum netið. Heilbrigðisráðherra vill þvert á móti herða reglur um áfengissölu. Raunveruleikinn veldur að sjálfsögðu netsölunum hugarangri eins og fram kom í erindi Félags atvinnurekenda til stjórnvalda árið 2021. Raunveruleikinn er sá að ólöglegar netsölur áfengis starfa nú óáreittar í trássi við einkaleyfi ÁTVR á smásölu og afhendingu áfengis á Íslandi. Þeim hefur stórfjölgað og eru nú 15-20 talsins að talið er. Slík staða er óásættanleg. Með þessum hætti er ekkert gefið fyrir lýðheilsu og forvarnir.
Netsala áfengis til ungmenna og eldri borgara
Samtökin telja að netsala áfengis beinist mest að tveimur hópum, eldri borgurum og ungmennum. Samtökin hafa áhyggjur af því að sá góði árangur sem náðst hefur varðandi ungmenni með “íslensku leiðinni“ glutrist niður. Íslenska leiðin felur í sér tvær stoðir. Þær eru takmarkað aðgengi að áfengi með einkasölu ÁTVR ásamt framúrskarandi og faglegu tómstunda- og íþróttastarfi. Ekki má kippa annarri stoðinni undan. Þá eru áhyggjur af vaxandi áfengisneyslu eldra fólks.
Beðið árum saman eftir niðurstöðu lögreglu
Vitað er að ÁTVR kærði netsölu þann 16. júní árið 2020 til lögreglu. Lögreglan hefur ekki komist að niðurstöðu í málinu þótt bráðlega séu liðin fjögur ár. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á þeim drætti. Forvarnarsamtökin hafa viðað að sér gögnum um netsölu áfengis frá ráðuneytum og stofnunum á grundvelli upplýsingalaga. Meðal þeirra gagna er minnisblað lögmannsstofu, unnið fyrir ÁTVR, um dóm Hæstaréttar Svíþjóðar í Winefinder málinu sem féll 7. júlí 2023. Í minnisblaðinu er dómurinn, sem fjallaði um netsölu áfengis, rakinn og komist að þeirri niðurstöðu að „Netsalarnir sem selja áfengi á íslenskum markaði selja vörur sem hafa þegar verið fluttar inn til landsins og tollafgreiddar. Slík sala er smásala hér á landi sem brýtur gegn einkarétti ÁTVR til smásölu áfengis og er því ólögleg.“
Beðið eftir Godot
Forvarnarsamtökin og fleiri lýðheilsuþenkjandi aðilar hafa reynt að fá svör frá stjórnsýslunni, sem helst tengist þessum málum, svo brugðist verði við þeirri ólögmætu stöðu sem nú er uppi. Hvorki lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Halla Bergþóra Björnsdóttir, dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, Ríkissaksóknari, Sigríður J. Friðjónsdóttir, né aðrir hafa enn brugðist við. Enginn tekur á þessu máli. Stjórnsýslan hefur ekki í áravís brugðist við þessari stöðu. Í réttarríki á ekki að þurfa að bíða eftir að lögum sé fylgt.
Í lok fundar afhentu samtökin ráðherra framangreind gögn. Einnig var afhent áskorun til alþingismanna frá 13. febrúar 2024 um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis.
Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/breidfylking-forvarnarsamtaka-raedir-vid-radherra-um-lydheilsu-og-ologlega-netsolu-afengis/
Meðfylgjandi minnisblað um dóm hæstaréttar Svíþjóðar sýnir ótvírætt að fyrirkomulag “erlendrar netsölu áfengis” hér á landi er bara orðhengilsháttur og útúrsnúningar sem hefur ekkert með erlendan innflutning til einkanota að gera. Hérlendis er einfaldlega um að ræða ólöglega smásölu áfengis.
Netsala áfengis af hálfu einstaklinga og fyrirtækja er ólögleg eins og glögglega kemur fram í bréfi innanríkisráðneytisins frá 4. desember 2015. Lagaleg óvissa er engin. Að lögregluyfirvöld skuli ekki hafa brugðist við í samræmi við við álitið er með eindæmum.
Þessi vefsíða notar "vafrakökur" til að auðvelda aðgengi að vefnum. Við reiknum með að þú sért sammála því en þú getur afþakkað þáttöku ef þú vilt. Vafraköku stillingarÍ lagi
Vafraköku skilmálar
Vafrakökur
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína við að skoða vefsíðu okkar. Af þessum vefkökum eru vefkökur sem eru taldar nauðsynlegar vistaðar af vafranum þínum og eru til að síðan virki eins og hún þarf. Við notum líka aðrar kökur sem hjálpa okkur að greina og skilja hvernig þú notar vefinn. Þær eru vistaðar aðeins með þínu leyfi. Þú getur skráð þig út úr notkun á þeim vefkökum. Með því að leyfa ekki notkun á sumum þessum vefkökum þá getur þín upplifun af notkun vefsins breyst .
Sumar vefkökur eru nauðsynlegar fyrir þig fyrir til að nota alla eiginleiga síðunnar. Þær gera mögulegt að fylgjast með öryggis ógnum. Þær skrá engar persónulegar upplýsingar.
Þessar vefkökur vista upplýsingar um fjölda heimsókna, fjölda einstakra notenda, hvaða síður hver og einn skoðar og hvaða notandi kemur. Þessar upplýsignar hjálpa okkur til að skilja og greina hve vel síðan virkar og hvað er hægt að lagfæra. Okkar vefsíða sýnir ekki auglýsingar eða skráir vefkökur tengdar auglýsingum.
Virkni: Þetta eru vafrakökur sem hjálpa ákveðinni virkni sem ekki er nauðsynleg á vefsíðu okkar. Þessir virkni fela í sér að fella inn efni eins og myndskeið eða deila efni vefsíðunnar á samfélagsmiðla.
Afkasta vafrakökur eru notaðar til að skilja og greina helstu árangurstölur vefsíðunnar sem hjálpa til við að skila betri notendaupplifun fyrir gestina.
Tölfræði: Þessar vafrakökur vista upplýsingar eins og fjölda heimsókna, fjölda einstakra gesta, hvaða síður eru skoðaðar, hvaðan gesturinn kemur og fleira. Þessar upplýsingar hjálpa okkur að skilja og greina hversu vel vefsíðan stendur sig og hvað þarf að bæta .