Síðustu tvo daga höfum við fjallað um flutning vínbúðarinnar á Akureyri úr miðbænum í norðurhluta bæjarins og höfum bæði heyrt í aðstoðarforstjóra ÁTVR sem sagði flutninginn hafa verið nauðsynlega ákvörðun fyrirtækisins því ekki fannst annað hentungra rými í miðbænum. Við heyrðum líka í kaupmanni í miðbænum á Akureyri og bæjarstjóranum sem höfðu af þessu nokkrar áhyggjur og við fengum líka skoðanir hlustenda. Í gær hringdum við í Vilhjálm Árnason þingmann Sjálfstæðiflokksins sem vildi meina að staðsetning nýrra vínbúða ráðist sannarlega ekki af lýðheilsusjónarmiðum.
Árni Guðmundsson félagsuppeldisfræðingur og formaður foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum var á línunni (tengill í mynd)
Í grein sem formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum ritaði í Vísi 1. mars segir m.a. “Þeir sem hafa farið fremstir í að breiða skipulega út að þessi netsala sé lögleg haga áróðri sínum með svipuðum hætti og tóbaksiðnaðurinn gerði og gerir, hafna gagnreyndri þekkingu, gefa ekkert fyrir vísindi og fresta þess að stýra umræðunni í kraft fjármagns og áhrifa.” ( https://www.visir.is/…/202526…/jon-og-felagar-eru-farnir ) Miðað við grein forstjóra í áfengisbransanum, sem birtist 3. mars, “Af hverju lýgur Alma” þá mætti bæta við smætta, niðra og gera lítið úr fólki sem stendur í vegi fyrir ítrustu sérhagsmunum viðkomandi. Sorglegt fyrst og fremst og undarlegt ef viðkomandi telji svona rugl vera sér til framdráttar.
Heilbrigðisráðherra var í viðtali á Rás 2 í morgun. Þar varaði hún eindregið við breytingum á sölufyrirkomulagi áfengis hérlendis sem væri einn af grunnþáttum þess hve vel hefur tekist í forvörnum, ekki síst hvað varðar börn . Áfengisneysla á Norðurlöndum að Danmörku undanskilinni sýndi í raun mikilvægi þess fyrirkomulags sem viðkomandi þjóðir búa við. Ráðherra vitnaði í þeim efnum m.a. til nýlegrar skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHOog varaði eindregið við að markaðsöflum væri falin forráð í þessum efnum. Þar helgist markmið fyrst og fremst af viðskiptasjónarmiðum með tilheyrandi auglýsingum og markaðssókn, sem gengur út á að ná sem mestri sölu og eigin ágóða með öllum tiltækum ráðum.
Að gefnu tilefni leggja Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum, sameiginlega fram eftirfarandi sparnaðarráð í samráðsgátt:
Þann 26. ágúst sl. komu ofangreind félög heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri á framfæri áskorun til yfirvalda um að bregðast við yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis. Í henni kom m.a. fram:
” Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun. Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli ÁTVR og að markmið laganna sé að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.”
Félögin skora á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi. Ofangreindir aðilar vilja, að gefnu tilefni, koma því á framfæri að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu er mikill. Felst hann m.a. í kostnaði vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu, í löggæslu og réttargæslukerfi, vegna eigna- og líkamstjóns og í minni framleiðni samfélagsins m.a. vegna dauðsfalla og vinnutaps. Kostnaður og önnur áhrif falla þannig á neytendur, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Sjá má staðreyndir um áhrif áfengisneyslu á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/alcohol Þá er vakin athygli á því að í bréfi WHO til heilbrigðisyfirvalda á Íslandi þann 18. júlí 2023 er tilgreint að evrópska áætlunin um aðgerðir vegna áfengis 2022-2025, sem samþykkt var einróma af öllum 53 aðildarríkjum árið 2022, hvetur aðildarríkin til að forgangsraða aðgerðum til að stjórna framboði áfengis, þar á meðal að huga að því að taka upp ríkisreknar áfengissölur (including considering the provision of state-operated alcohol outlets).
Eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur undirstrikað þá hefur áfengisiðnaðurinn mikla hagsmuni af því að selja áfengi til að hagnast. Áfengisiðnaðurinn beitir sömu aðferðum og tóbaksiðnaðurinn til að koma í veg fyrir eða tefja fyrir reglusetningu stjórnvalda og grafa undan góðri opinberri stefnu. Í nýju skjal frá WHO (nóvember 2024) Empowering public health advocates to navigate alcohol policy challenges – alcohol policy playbook eru teknar saman þær fullyrðingar sem áfengisiðnaðurinn styðst við í sínum málflutningi og gagnrök lýðheilsufólks og stofnana. Þar segir í formála (bls. VI); Áfengisiðnaðurinn heldur röngum upplýsingum á lofti sem hafa haft skaðleg áhrif á þekkingu og vitund almennings. Innan við þriðji hver Evrópubúi veit að áfengisneysla eykur hættu á krabbameini og aðeins 20% kvenna hafa nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýst val um áfengisneyslu. Viðskiptahagsmunir atvinnugreina eins og áfengis- og tóbaksiðnaðarins rekast stöðugt á lýðheilsumarkmið, en við verðum að hefja okkur yfir þær áskoranir. Eins og undirstrikað er í nýlegri skýrslu WHO/EURO um viðskiptaákvarðanir vegna langvinnra sjúkdóma, þá beita atvinnugreinar háþróuðum aðferðum til að móta skynjun almennings, hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun, og jafnvel stöðva pólitísk ferli. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að stefnumótendur, heilbrigðisyfirvöld og talsmenn lýðheilsu fái þau tæki sem þeir þurfa til að fletta ofan af og eyða þessum skaðlegu og röngu upplýsingum. „Misinformation perpetuated by the alcohol industry has contributed to a dangerous gap in public awareness; fewer than one in three Europeans know that alcohol increases cancer risk, and just 20% of women have the information necessary to make informed choices about alcohol consumption. The commercial interests of industries like alcohol and tobacco persistently clash with public health objectives, but we must rise above these challenges. As highlighted in the recent WHO/EURO report on the commercial determinants of noncommunicable diseases, industries employ sophisticated tactics to shape public perception, influence media narratives, and even capture political processes. This underscores the urgency of equipping policymakers, health authorities, and advocates with the tools they need to expose and dismantle these harmful narratives.“
Í sömu skýrslu kemur fram í kafla 1.3.1 (bls.13) að áætlaður samfélagslegur kostnaður áfengisneyslu ef allt er tekið saman nemi um 2.6% af vergri landsframleiðslu (VLF). „There is a substantial and growing body of literature estimating the economic costs to society that are caused by alcohol use. For example, a 2021 PROSPERO-registered systematic review and analysis identified 29 studies focused on the estimation of alcohol’s social cost (73). An analysis aggregating these identified studies from 29 primarily high-income countries showed that, if all harms caused by alcohol were included, the social cost of alcohol use expressed as a percentage of national gross domestic product (GDP) was 2.6%.“
Verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi var 4.321 milljarður árið 2023. Því má ætla að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu hafi verið rúmir 112 milljarðar króna á Íslandi árið 2023 út frá gögnum WHO. Nákvæm uppreiknuð upphæð er 112.346.000.000. kr.
Samkvæmt úttekt frá desember 2018 er talið að með því að færa áfengissölu frá Systembolaget, ríkissölunni í Svíþjóð, til einkaaðila myndi áfengisneysla þar aukast verulega. Ef salan væri færð til einkarekinna sérverslana mætti gera ráð fyrir því að áfengisneysla ykist um 20,00% á hvern einstakling. Ef salan væri færð inn í matvöruverslanir ykist áfengisneyslan um 31,2% á hvern einstakling. Fyrirkomulag áfengissölu hefur verið mjög svipað hjá Systembolaget í Svíþjóð og hjá ÁTVR á Íslandi og því mætti gera ráð fyrir að sambærileg neysluaukning yrði hér ef einkaaðilar tækju yfir áfengissölu á Íslandi.
Allar rannsóknir sýna að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif á lýðheilsu og mikinn samfélagslegan kostnaði í för með sér. Þær sýna einnig að öll aukning í sölu áfengis, m.a. vegna aukins aðgengis að áfengi, veldur tilheyrandi aukningu á áfengistengdum skaða og samfélagslegum kostnaði. Það felst því mikill sparnaður í því að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi. Sá sparnaður hleypur á milljörðum króna á ári.
„Held áfram á meðan að dómarinn flautar ekki“ sagði ungur verðbréfasali eitt sinn aðspurður um hvort tiltekin afar vafasamur viðskiptamáti stæðist lög. Ekki man ég hvort dómarinn „flautaði“ að lokum en veit það eitt að dómarinn flautar lítið ef nokkuð í sumum málum. Eitt af þeim málum er einlæg og sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum á lögum, sem með skýrum hætti banna auglýsingar af þessum toga, eru lögin brotin margsinnis dag hvern. Áfengisauglýsingar eru boðflenna í tilveru unglinga sem þau eiga fullan rétt á að vera laus við.
Hin siðferðilegi boðskapur laganna sem og innhald er afar skýrt. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um.
Það er eins og engin sé ábyrgur? Áfengisinnflytjendur eða framleiðendur auglýsa hvað af tekur og eyða til þess gríðarlegum fjárhæðum; flestir fjölmiðlar birta þessar auglýsingar átölulaust; auglýsingastofur framleiða þær? Þrátt fyrir einlægan síbrotavilja þessara aðila þá „flautar dómarinn ekki“. Ungt fólk virðist ekki búa við sama rétt og aðrir þegnar þessa lands. Þrengstu viðskiptahagsmunir eru teknir fram fyrir velferð barna og ungmenna..
Núna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram, óháð lögum og almennu siðferði.
Við foreldrar, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það er ekki við hæfi.
Foreldrar – forráðamenn og allir þeir aðilar sem hafa velferð æskunnar að leiðarljósi – Sýnum hug okkar í verki – Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir
Árni Guðmundsson
Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/sni%c3%b0gongum-auglystar-afengistegundir/
Fréttatilkynning frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi Hæstaréttar frá 23. október 2008 þar sem ritstjóri Blaðsins var dæmur til greiðslu 1.000.000 króna sektar vegna brota á lögum um banni við áfengisauglýsingum sbr. 20. gr áfengislaga. Samtökin vekja einnig athygli á að samkvæmt séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar Hæstaréttardómara kemur fram að ákærði lagði fram í Héraðsdómi fjórar möppur frá Fjölmiðlavaktinni og benti á 999 sambærileg brot á tímabilinu 1. maí 2005 til 1. júní 2006.Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetur yfirvöld til þess að gæta jafnræðis gangvart þeim aðilum sem brjóta með markvissum og einbeittum brotavilja gegn lögum þessum. Það verður einungis gert með fleiri ákærum eins og fyllst tilefni er til og málsgögn þessa máls sýna. Það er með öllu óásættalegt að einungis 0.001% af brotum komi til kasta dómskerfisins.
Dómur Hæstaréttar frá 23. október 2008
K (Karl Garðarsson) var sakfelldur fyrir að hafa sem ritstjóri B (Blaðsins) á árinu 2005 birt í blaðinu fjórar auglýsingar á áfengi og með því brotið gegn 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Ekki var talið að 20. gr. áfengislaga bryti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en slíkum vörnum hafði áður verið hafnað í dómum Hæstaréttar. Þá byggði K á því að undantekning frá banni við áfengisauglýsingum í 20. gr. áfengislaganna, er lýtur að auglýsingum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í máli nr. 220/2005 hefði verið talið að hliðstætt ákvæði tóbaksvarnarlaga nr. 6/2002 bryti ekki gegn jafnræðisreglu. Að því virtu sem og röksemdum ákæruvaldsins var ekki fallist á að ákvæði 20. gr. áfengislaga bryti gegn áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá var ekki fallist á það með K að rannsókn lögreglu hefði verið ábótavant. Þar sem höfundur auglýsinganna hafði ekki nafngreint sig bar K ábyrgð á birtingu auglýsinganna samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu K og hann dæmdur til greiðslu 1.000.000 króna sektar. (Heimsíða Hæstaréttar)
Dómur Hæstaréttar.
“Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
Í ákæru er varðandi heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða, auk tilvísana til ákvæða áfengislaga, vísað til 15. gr. laga nr. 57/1956. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber höfundur efnis, sem birtist í blöðum, refsiábyrgð á efninu ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að höfundur auglýsinganna hafi ekki nafngreint sig í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Verður fallist á þá niðurstöðu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 165/2006, sem kveðinn var upp 8. febrúar 2007. Samkvæmt lagaákvæðinu ber ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna, en samkvæmt því var heimilt að beina málsókn hvort heldur að útgefanda rits eða ritstjóra. Að því virtu, sem rakið er að framan, verður sakfelling ákærða í málinu staðfest. Refsing hans er hæfilega ákveðin í héraðsdómi, sem verður staðfestur með þeim hætti, sem segir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Karl Garðarsson, greiði 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 475.418 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.” (Heimsíða Hæstaréttar)
Í séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara kemur eftirfarandi fram “Við meðferð málsins í héraði lagði ákærði fram fjórar möppur sem hafa að geyma samantekt Fjölmiðlavaktarinnar ehf. á ætluðum áfengisauglýsingum í innlendum blöðum og tímaritum. Í athugasemd Fjölmiðlavaktarinnar ehf. sem fylgir möppunum segir meðal annars: „Samantekt þessi er afrit af þeim áfengisauglýsingum sem birst hafa í prentmiðlum að Blaðinu undanskildu. Tímabilið miðast við 1. maí 2005 – 2. júní 2006.“ Auglýsingarnar sem ákæran tekur til voru allar birtar á þessu tímabili. Tilvikin, sem samantektin tekur til, eru hvorki fleiri né færri en 999 talsins. Við athugun á þessum gögnum verður ljóst að um er að ræða blaðaefni, sambærilegt við þær auglýsingar sem meirihluti Hæstaréttar sakfellir nú ákærða fyrir að birta.” (Heimsíða Hæstaréttar)
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, telur óþarft að herða reglur um bann við áfengisauglýsingum eftir nýlegan dóm Hæstaréttar sem hann segir marka þáttaskil í meðferð þessara mála. Hann væri bæði skýr og afdráttarlaus og niðurstaða Hæstaréttar um túlkun laganna því skýr. Þingmenn vilja að lögunum verði fylgt betur eftir.
Hæstiréttur sakfelldi fyrrverandi ritstjóra Blaðsins í síðustu viku fyrir að hafa birt fjórar áfengisauglýsingar í blaðinu og þannig brotið gegn ákvæðum laga um bann við áfengisauglýsingum. Ekki var fallist á það fyrir Hæstarétti að auglýsingabann bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar
Áfengisauglýsingar eru boðflennur í lífi barna og unglinga
Það er auðvitað með eindæmum að stofna hafi þurft sértök samtök til þess eins að berjast fyrir því að farið sé eftir gildandi lögum í landinu? Í þessu tilfelli lögum um banni við áfengisauglýsingum. Markmið samtakanna er einfalt eða eins og fram kemur í 5.gr stofnsamþykktar: “Markmið samtakana er að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstakri áherslu á vernd barna og unglinga”
Íþróttahreyfingin nýtur gríðarlegar aðstoðar og velvildar samfélagsins. Bæjarfélög styrkja íþróttahreyfinguna með verulegum fjármunum í formi rekstrarstyrkja og til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum. Hreyfingin hefur því ríkum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu sem m.a. felast í því að boða heilbrigðan lífstíl .Það er auðvitað ekki gert í samvinnu við bjórbransann nema síður sé. Áfengisauglýsingar í íþróttahúsum eða á íþróttaleikvöngum eru ekki viðhæfi en um slíkt eru því miður nokkur dæmi um. Það verður ekki bæði haldið eða sleppt í þessum efnum. Áfengisauglýsingar og forvarnir? Eitthvað lætur undan að lokum og eflaust verður það trúverðugleiki viðkomandi félaga. Áfengisauglýsingar á íþróttaleikvöngum eiga ekki að sjást. Íþróttahreyfingin á undantekningalaust að sýna gott fordæmi og gerir það í lang flestum tilfellum.
Auglýsingar á heimasíðum barna. Halda menn að það sé almennur vilji forráðamanna barna að þau auglýsi áfengi á ágætum heimasíðum sínum ? Held nú síður – Þetta er bara “hágæða” lákúra sem að varðar ekki bara við lög um bann við áfengisauglýsingum, heldur einnig vaflítið réttindi viðkomandi barna sem hafa verið þverbrotin með misnotkun af þessu tagi.
Þetta dæmi sýnir að það eru hvorki siðleg né lagalega takmörk fyrir því hve lágt er lagst í áfengisauglýsingum. Gríðarlegur fjöldi barna heldur úti bloggsíðum sem að öllu jöfnu er hið besta mál. Hvernig heilvita fólki dettur í hug að setja inn áfengisauglýsingar á bloggsíður barna eins og gert var hjáwww.blog.central.is er ráðgáta.
Áfengisauglýsingar í strætóskýlum. Áfengisauglýsingaherferð Egils Skallgrímsonar s.l. vor var sem endranær beint að börnum og unglingum sérstaklega. Af því tilefni voru strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu þakin áfengisauglýsingum við lok grunnskólaprófa! Fullkomin lágkúra og algert virðingarleysi við börn og unglinga, sem eru eins og kunnugt er helstu viðskiptavinar Strætó. Það er einnig með eindæmum að Strætó bs skuli taka þátt í þessu með því að legga biðskýli fyrirtækisins undir ólöglegar áfengisauglýsingar og gefa þar með sínum helstu viðskiptavinum börnum og unglingum langt nef.
Það eru foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum mikil vonbrigði að RÚV skuli með kerfisbundnum birtingum áfengisauglýsinga virða réttindi barna og unglinga í landinu að vettugi og brjóta á lögvörðum rétti þeirra til þess að vera laus við áfengisáróður sbr lög þar um. Samtökin hafa margsinnis skorað á stjórn RÚV ohf að stöðva allar þessar beinu og óbeinu áfengisauglýsingar sem allar eiga það sannmerkt að vera ólöglegar og langt fyrir neðan virðingu fyrirtækisins. Telji fyrirtækið minsta vafa hvað varðar “lögmæti” þessara áfengisauglýsinga þá ber því hlutverki sínu samkvæmt að láta börn og unglinga í landinu njóta þess vafa. Því fer fjarri
Það var með eindæmum að eftir skemmtilega Kastljósútsendingu frá Bessastöðum þar sem okkar bestu synir, handknattleikslandsliðið, og fyrirmyndir æsku þessa lands voru heiðraðir, þá hafi RÚV fundist það viðeigandi að birta langa og ákaflega asnalega áfengisauglýsingu frá Vífilfelli í kjölfarið? Er reyndar ekki í fyrsta sinn sem RUV fer langt yfir strikið og verður sér til skammar í þessum efnum. Marga rekur minni til þess þegar að forseti Íslands veitti í Íslensku forvarnarverðlaunin fyrir nokkrum árum þá var birt enn ein áfengisauglýsingin í kjölfarið og viðhöfninni ,forsetanum og fólkinu í landinu með því sýndur fádæma dónaskapur.
Þetta eru bara nokkur dæmi, nánast af handahófi, um hve illa málum er komið og í þessum efnum hægt væri að nefna mýmörg önnur dæmi. Hér hefur ekki verið fjallað um áfengisauglýsingarútvarpsstöðva sem höfða í dagskrá sinni til barna og unglinga.
Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin í þessum efnum og ítrustu viðskiptahagsmunir teknir fram fyrir sjálfsagðan og ótvíræðan rétt æskunnar. Einbeittur brotavilji og síbrot forsvarsmanna fyrirtækja látin nánast átölulaus enda verða brotin sífellt grófari. Sorglegt að slíkt sé látið átölulaust og ekki boðlegt í siðuðu samfélagi. Sýnum börnum og unglingum fordæmi – förum að lögum.
Árni Guðmundsson
Uppeldis- og menntunarfræðingur
Formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum
Vika 43 – vímuvarnavika 2008. Vímuvarnavika 2008 verður haldin fimmta árið í röð og stendur yfir dagana 19. – 25. október nk. eða í viku 43. Framvegis verður þessi 43. vika ársins notuð til að kynna málefni vímuvarna á Íslandi og heitir þá verkefnið framvegis „VIKA 43″. Vika 43 er vettvangur 20 félagasamtaka sem vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns, til þess að vekja athylgi á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum:
Skapa vettvang fyrir samstarf félagasamtaka um að vekja athygli á stefnumörkun í áfengis- og vímuefnamálum, einkum forvörnum.
Varpa ljósi á viðfangsefni forvarna og það starf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka.
Vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnum og unglingum.
Virkja þekkingu, styrk og samstöðu grasrótarsamstarfs til eflingar forvarnastarfs.Hvers vegna
Neysla áfengis og annarra vímuefna raskar uppvexti og ógnar velferð margra barna. Sum bíða ævarandi tjón. Það er bitur reynsla foreldra og annarra aðstandenda að sjá barn sitt lenda í fjötrum vímuefnaneyslu og villast á brautir glæpa og ofbeldis. Það er átakanleg fórn sem snertir okkur öll.
Forvarnstarf gegn áfengis- og vímuefnaneyslu er liður í að skapa börnum þroskavænleg skilyrði. Með því að styðja börn og ungmenni í að hafna neyslu áfengis og annarra vímuefna er stuðlað að velferð þeirra og lífshamingju.
Í forvarnastarfi er lögð höfuðáhersla á að ná til barna og unglinga í ljósi þess að í æsku er lagður grunnur að framtíð hvers einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Ungt fólk er veikara fyrir gagnvart neyslu vímuefna en fullorðnir og rannsóknir sýna að því seinna sem ungt fólk byrjar neyslu áfengis og tóbaks því minni líkur eru á að það leiðist í neyslu vímuefna, hætti í skóla eða lendi í öðrum erfiðleikum. Þá verður að hafa í huga að börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir áróðri og hvatningu til neyslu áfengis og annarra vímuefna. Með fræðslu, upplýsingastarfi og hvatningu til heilbrigðra lífshátta er leitast við að sporna gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.Vika 43 árið 2008
Beinir sjónum að opinberri stefnumörkun í forvörnum. Opinber stefna er miklivægur rammi, samkomulag um hvert ber að stefna.
Hvetja stjórnvöld til þess að:
– lækka ekki aldursmörk til áfengiskaupa
– skerpa á reglum um áfengisauglýsingar
– standa gegn sölu áfengis í almennum verslunum
Vika 43 verður kynnt í fjölmiðlum þegar nær dregur en auk þessara áhersluatriða vikunnar í ár verður vakin athygli á framlagi félagasamtaka, skóla og annara aðila í vímuvörnum.Aðildarsamtök að Viku 43:
Bandalag Íslenskra skáta, Biskupstofa, Brautin – bindindisfélag ökumanna,FÍÆT – félag Íslenskra æskulýðs- og tómstundafulltrúa, FRÆ, Heimili og skóli, IOGT á Íslandi, ÍSÍ, ÍUT-forvarnir, KFUM-K, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Kvenfélagasamband Íslands, LIONS hreyfingin, Samstarf um forvarnir SAMFO, SAMFÉS, Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum, Samtök skólamanna um bindindisfræðslu SSB, UMFÍ, VÍMULAUS ÆSKA – Foreldrahús, Vernd – fangahjálp
Aðsetur Viku 43 er í Brautarholti 4a í Reykjavík, s. 511 1588.
Þessi vefsíða notar "vafrakökur" til að auðvelda aðgengi að vefnum. Við reiknum með að þú sért sammála því en þú getur afþakkað þáttöku ef þú vilt. Vafraköku stillingarÍ lagi
Vafraköku skilmálar
Vafrakökur
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína við að skoða vefsíðu okkar. Af þessum vefkökum eru vefkökur sem eru taldar nauðsynlegar vistaðar af vafranum þínum og eru til að síðan virki eins og hún þarf. Við notum líka aðrar kökur sem hjálpa okkur að greina og skilja hvernig þú notar vefinn. Þær eru vistaðar aðeins með þínu leyfi. Þú getur skráð þig út úr notkun á þeim vefkökum. Með því að leyfa ekki notkun á sumum þessum vefkökum þá getur þín upplifun af notkun vefsins breyst .
Sumar vefkökur eru nauðsynlegar fyrir þig fyrir til að nota alla eiginleiga síðunnar. Þær gera mögulegt að fylgjast með öryggis ógnum. Þær skrá engar persónulegar upplýsingar.
Þessar vefkökur vista upplýsingar um fjölda heimsókna, fjölda einstakra notenda, hvaða síður hver og einn skoðar og hvaða notandi kemur. Þessar upplýsignar hjálpa okkur til að skilja og greina hve vel síðan virkar og hvað er hægt að lagfæra. Okkar vefsíða sýnir ekki auglýsingar eða skráir vefkökur tengdar auglýsingum.
Virkni: Þetta eru vafrakökur sem hjálpa ákveðinni virkni sem ekki er nauðsynleg á vefsíðu okkar. Þessir virkni fela í sér að fella inn efni eins og myndskeið eða deila efni vefsíðunnar á samfélagsmiðla.
Afkasta vafrakökur eru notaðar til að skilja og greina helstu árangurstölur vefsíðunnar sem hjálpa til við að skila betri notendaupplifun fyrir gestina.
Tölfræði: Þessar vafrakökur vista upplýsingar eins og fjölda heimsókna, fjölda einstakra gesta, hvaða síður eru skoðaðar, hvaðan gesturinn kemur og fleira. Þessar upplýsingar hjálpa okkur að skilja og greina hversu vel vefsíðan stendur sig og hvað þarf að bæta .