Previous Next

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekur afstöðu með börnum og unglingum

Láttu aðra vita

Forvarnanefnd Hafnarfjarðar tók upp um daginn á fundi sínum frumvarp um sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum sem til stendur að taka upp á Alþingi nú í vetur. Forvarnanefndin tók upp frumvarpið því að það ætlar sveitarfélögum að framfylgja hluta laganna og sjá um að úthluta matvöruverslunum áfengissöluleyfi.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar tók heillshugar undir bókun forvarnanefndar þar sem lagst er gegn frumvarpinu. Þegar tillagan kom til bæjarstjórnar sköpuðust talsverðar umræður um frumvarpið en í ljós kom að einn flutningsmanna þess situr einmitt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. En meðferð málsins endaði þannig að allir bæjarfulltrúarnir utan þess sem er flutningsmaður studdu tillöguna 10 – 1. Vilji sveitarstjórnamanna í Hafnarfirði er skýr.

,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mælir eindregið gegn því að frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs), 37. þingmál 136. löggjafarþings, verði samþykkt. Reynsla annarra þjóða af auknu aðgengi að áfengi með afnámi einkasölu sýnir aukna neyslu, ekki síst meðal ungmenna og þar af leiðandi mikla fjölgun félagslegra og heilsufarslegra vandamála. Þetta frumvarp stefnir því í þveröfuga átt eftir að náðst hefur mikilvægur árangur í forvörnum gegn notkun áfengis og annarra vímuefna, með markvissri vinnu í Hafnarfirði og víðar.  Einnig er vakin athygli á að ekki hefur verið leitað formlegrar umsagnar þeirra aðila sem skv. frumvarpinu munu bera ábyrgð á framkvæmdinni.”

Bókun forvarnanefndar:

Forvarnarnefnd Hafnarfjarðar leggst eindregið gegn frumvarpi til laga um sölu áfengis í matvörubúðum. Gögn frá Lýðheilsustöð benda ótvírætt til þess að sala áfengis í matvörubúðum sé mikið óheillaspor. Landlæknir hefur lagst gegn frumvarpinu og fyrirliggjandi upplýsingar frá SÁÁ eru samhljóða.

Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur gefið út Stefnumótun í áfengismálum, sem fjallar um stefnumótun í áfengismálum. Þar eru þjóðir hvattar til að móta sér stefnu í áfengismálum og bent er á aðgerðir sem sannreynt þykir að skili árangri sem dregur úr skaðlegri neyslu áfengis.
Meðal þeirra leiða sem bent er á eru
:


Skert aðgengi
Aðgerðir gegn ölvunarakstri
Aðgengi að meðferð
Bann við áfengisauglýsingum
Áfengislaust umhverfi
Fræðsla

Forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar er eini aðilinn á Íslandi sem reglulega hefur athugað hvort unglingar undir aldri fái keypt tóbak í verslunum. Niðurstöður þeirra rannsókna benda til þess að rúmlega helmingur ungmenna sem ekki eiga að fá keypt tóbak geti verslað það í búðum hér. Bandarísk rannsókn hefur leitt í ljós að auðveldara er fyrir fólk undir lögaldri að fá keypt áfengi í matvöruverslunum og stórmörkuðum en sérstökum áfengisverslunum. Ætla má að svipað verði uppi á teningnum hér.

Forvarnarnefnd Hafnarfjarðar skorar á Bæjarstjórn að samþykkja samhljóða

,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mælir eindregið gegn því að frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs), 37. þingmál 136. löggjafarþings, verði samþykkt. Reynsla annarra þjóða af auknu aðgengi að áfengi með afnámi einkasölu sýnir aukna neyslu, ekki síst meðal ungmenna og þar af leiðandi mikla fjölgun félagslegra og heilsufarslegra vandamála. Þetta frumvarp stefnir því í þveröfuga átt eftir að náðst hefur mikilvægur árangur í forvörnum gegn notkun áfengis og annarra vímuefna, með markvissri vinnu í Hafnarfirði og víðar.  Einnig er vakin athygli á að ekki hefur verið leitað formlegrar umsagnar þeirra aðila sem skv. frumvarpinu munu bera ábyrgð á framkvæmdinni.”

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þessi ályktun á fundi sínum með tíu atkvæðum gegn einu en viðkomandi bæjarfulltrúi sem var á móti er Rósa Guðbjartsdóttir formaður knattspyrnudeildar Hauka ogvaraþingmaður , sem jafnframt er einn að flutningmönnum frumvarpsins á þing.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sýnir með þessari bókun jákvæðan hug sinni í verki gagnvart málefnum æskunnar. Bókun þessi er einnig afar mikilvægt fordæmi sem vonandi verður öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni.

Í Hafnarfirði hefur náðst góður árangur í forvarnarmálum og heilsueflingu með víðtæku samstarfi fjölmargra aðila. Eftir þessum árangri hefur verið tekið víða um land og hugmyndfræði okkar er fyrirmynd margra annarra á þessu sviði. Þessum góða árangri verður stefnt í voða ef sala vímuefna verður færð inn í matvörubúðir. Áfengi er engin venjuleg neysluvara.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/b%c3%a6jarstjorn-hafnarfjar%c3%b0ar-tekur-afsto%c3%b0u-me%c3%b0-bornum-og-unglingum/

Löghlýðin þjóð ?

Láttu aðra vita

Auðvitað erum við Íslendingar löghlýðin þjóð. Það væri nú annaðhvort. En við erum líka býsna slyng að fara í kringum lögin, þegar okkur ekki líkar efni laganna. Það er bannað að auglýsa áfengi.

Daglega dynja á okkur bæði í blöðum og sjónvarpi bjórauglýsingar með tælandi texta og myndum sem lofa ágæti bjórs.Okkar fremsti leikari les textann,sem eykur enn áhrifin. En til þess að allir viti að ekki verið er að auglýsa áfengan bjór birtist orðið “léttöl” í 2 eða 3 sekúndur með örsmáu letri í einu skjáhorninu.

Löglegt? Efamál. Það er líka bannað að setja upp auglýsingaskilti við þjóðvegi landsins. Fyrirtæki fara í kringum þetta bann með því að leggja merktum bílum sínum með máluðum auglýsingaskiltum á hliðum við fjölförnustu þjóðvegi til og frá höfuðborginni og raunar víðar. Löglegt? Efamál. Það er líka bannað að tala í síma í akstri. Það er ekkert hægt að fara í kring um það. Ótrúlega margir ökumenn láta samt eins og þetta lagaboð,þessi mikilvæga öryggisregla eigi ekki við í þeirra tilviki og blaðra í bílsíma með hálfan huga við aksturinn. Nú er til ágætis handfrjáls búnaður sem ekkert er að því að nota og ýmsir vissulega notfæra sér. En það er svolítið sérkennilegt að horfa á menn og konur aka um götur borgarinnar 16 milljón króna jeppum sem greinilega haf ekki haft ráð á því að kaupa handfrjálsan búnað. Lögreglan er of lin við að taka á þessum lögbrotum.

Eiður Svanberg Guðnason

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/loghly%c3%b0in-%c3%bejo%c3%b0/

Góð ráð fyrir þingmenn

Láttu aðra vita

Okkur barst þessi umfjöllun af Skaganum – umræður sem urðu í bæjarstjórn æskunnar árið 2003:

“Una Harðardóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um lög um auglýsingar á vímuefnum. Í máli Unu kom fram að á Íslandi væru lög sem segja að ekki megi auglýsa áfengi opinberlega. Samt sjáum við næstum á hverjum degi bjórauglýsingar í sjónvarpi og í blöðum og menn reyna alltaf að ganga aðeins lengra. Það eru meira að segja farnar að sjást auglýsingar í tímaritum um svokallaða áfenga gosdrykki. Una sagði að unglingar og ungt fólk væru augljóslega markhópur þeirra sem eru að  auglýsa áfengi. Flestar eru auglýsingar þessar hressilegar, fyndnar og með myndum af ungu fólki sem skemmtir sér vel. Þar að auki er þeim oft komið fyrir í dagskrá og efni sem ætlað er ungum notendum. Það er greinilega verið að höfða til ungs fólks og að laða að nýja viðskiptavini sagði Una. Þessir svokölluðu áfengu gosdrykkir eru gott dæmi um það hvaða aðferðum menn eru tilbúnir að beita til að fá unglinga til að drekka. Áfengi er dulbúið í þessum drykkjum. Una sagði að með því að blanda því saman við sæta gosdrykki með allskonar ávaxtabragði og til að toppa þetta allt er þessu skellt í ótrúlega flottar og litríkar flöskur. Samkeppnin í því hver sýnir flottustu flöskuna er ekkert smá hörð. Sætasta gosið í flottustu flöskunni laðar náttúrulega að flesta unglingana og vinnur þar með samkeppnina. Það er náttúrulega alveg augljóst að þessir drykkir eru ekki framleiddir fyrir fimmtugt fólk sem er kannski búið að drekka af og til í tugi ára. Þessir drykkir eru einfaldlega framleiddir til að fá ungt fólk til að drekka og helst alltaf yngra og yngra fólk sagði Una. Áður fyrr þurftu unglingar sem voru að prófa í fyrsta sinn að drekka að pína ofan í sig íslensku brennivíni í volgu kóki sem yfirleitt endaði með því að allt kom upp aftur. Áfengisframleiðendur eru svo sannarlega búnir að finna ráðið við þessum vanda og tappa því á flöskur. Una sagði að nú reddi unglingar sér bara sætu og bragðgóðu gosi í litríkum flöskum og drekka eins og ekkert sé. Síðan er lítið mál að skipta yfir í bjórinn og auglýsingarnar í fjölmiðlum láta okkur reglulega vita af því hvaða bjór sé flottast að kaupa í dag.

Eins og fram kom í máli Unu í upphafi þá eru áfengisauglýsingar ólöglegar á Íslandi eða hvað spurði Una? Þessi lög virðast ekki nógu skýr því einhvern vegin tekst mönnum að fá svoleiðis auglýsingar birtar í fjölmiðlum. Það er greinilega mjög auðvelt að fara á svig við þessi lög og örugglega er það meiriháttar mál að kæra menn og draga þá fyrir dómstóla. Það kom fram í máli Unu að Þorgerður Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri áfengis og vímuvarnarráðs segði viðurlögin við brotum á þessum lögum vera ekki harðari en svo að auglýsendur líta bara á þau sem viðunandi fórnarkostnað fyrir vel heppnaða auglýsingu. Markaðurinn skilar fórnarkostnaðinum til baka. Una sagðist vilja leggja það til að bæjaryfirvöld á Akranesi skori á þingmenn kjördæmisins og á Alþingi allt í nafni forvarna að þeir taki þessi lög til endurskoðunar með það að markmiði að þeir geri þau skýrari og skilvirkari. Það er augljóst að þessi lög virka ekki í dag og því þarf að breyta. Hvað barnavínið og áfengu gosdrykkina varðar er kannski erfiðara að gera eitthvað sagði Una. Við getum auðvitað ekki stjórnað því hvað þau í ÁTVR hafa í hillunum hjá sér. Við getum hins vegar sent bréf til stjórnenda ÁTVR og sagt þeim að við höfum áhyggjur af þróun mála og hvatt þá til að passa vel upp á það að ekki sé  verið að kaupa áfengi til að afhenda unglingum. Lögreglan ætti að geta fylgst vel með þessu þeir eru jú í sama húsi sagði Una.”

Vel mælt hjá þessari ungu konu og þarft umhugsunarefni fyrir þá þingmenn sem berjast fyrir því að lögleiða áfengisauglýsingar. Er Það í þágu unglinga – nei það er gegn unglingum eins og skrif Unu bera með sér.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/go%c3%b0-ra%c3%b0-fyrir-%c3%beingmenn/

Áfengisauglýsingar beinast jafnvel að ungum börnum

Láttu aðra vita

Þegar vara er auglýst þá er tilgangurinn vanalega sá að fá fólk til að muna eftir og langa í vöruna – sem leiðir svo gjarnan til þess að varan er keypt. Auglýsingar hafa sterk áhrif á börn og ungt fólk og því er auglýsingum gjarnan beint að þeim. Þetta gildir t.d. mjög um áfengisauglýsingar, þar sem áfengi og ,,skemmtilegar” stundir er gjarnan sýnt saman. Bannað er með lögum að auglýsa áfengi á Íslandi en ótal dæmi sýna hvernig farið er í kringum þessi lög – nægir að nefna ýmsar verslunarmannahelgarauglýsingar nú í ár. Og nú er meira að segja svo langt gengið að hægt er að kaupa barnaleikföng með áfengisauglýsingum.

Leikfangið sem um ræðir (sjá mynd) var nýlega keypt í leikfangaverslun í Reykjavík og jafnvel þó að tilgangurinn hafi ekki verið að hvetja börn til að drekka bjór þá er þarna bjórauglýsing fyrir augunum á litlum börnum. Það hefur svo vart farið fram hjá landsmönnum að þótt bannað sé með lögum að auglýsa áfengi á Íslandi þá eru áfengisauglýsingar áberandi í flestum fjölmiðlum landsins. Miklu virðist vera til kostað að koma vörunni á framfæri og oftar en ekki virðast auglýsingarnar beinast að ungu fólki.

Til að skoða málið nánar má benda á erlendar kannanir á markaðssetningu áfengis sem beint er að ungu fólki. Í júlíhefti The Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine 2004 kemur fram að árið 2002 sáu unglingar í Bandaríkjunum t.a.m. fleiri áfengisauglýsingar en fullorðnir í blöðum og tímaritum. Þar kemur auk þess fram að stúlkur eru berskjaldaðri en drengir hvað varðar áfengisauglýsingar. Áfengisiðnaðurinn í Bandaríkjunum varði árið 2002 1,9 milljörðum dollara í markaðssetningu áfengis með ýmsum hætti. Í áfengiaauglýsingar í tímaritum var t.d. varið 590,4 milljónum dollurum.

Auglýsingunum gjarnan beint að ungum stúlkum

Rannsakendur könnuðu hversu mikið af áfengisauglýsingum er beint að ungu fólki og eftir að hafa farið í gegnum 103 bandarísk tímarit á árunum 2001-2002 fundu þeir alls 6,239 áfengisauglýsingar. Helstu niðurstöður voru þær að á milli áranna sá ungt fólk 45% meira af bjórauglýsingum,og 65% meira af auglýsingum um áfengt gos en 69% minna af vínauglýsingum heldur en fullorðnir. Stúlkur á aldrinum 12-20 eru líklegri til að sjá bjór og áfengt gos auglýst heldur en konur í aldurshópnum 21-34 ára. Greinahöfundar benda á að áfengisauglýsingum sé í miklum mæli beint að ungum stúlkum og að áreitið aukist sífellt.

Samantekt niðurstaðna úr rannsókn á vegum Bandarísku læknasamtakanna (AMA), sem birt var á heimasíðu þeirra (http://www.ama-assn.org/ama/pub/category/14425.html), sýnir að 31% unglingsstúlkna hafi drukkið áfengt gos síðastliðna sex mánuði samanborið við 19% drengja. Helmingur stúlknanna sagðist hafa séð auglýsingar um áfengt gos. Þar kemur einnig fram að ein af hverjum fjórum stúlkum hafa ekið bíl eftir að hafa drukkið áfengi eða verið í bíl þar sem bílstjórinn hefur neytt áfengis. Þá hefur ein af hverjum fimm kastað upp eða fallið í yfirlið eftir áfengisneyslu. Höfundar skýrslunnar telja að áfengisframleiðendur markaðssetji áfengt gos fyrir ungar stúlkur. Talsmaður framleiðenda segir aftur á móti að auglýsingunum sé beint að fullorðum og að þeir deili áhyggjum af ólöglegri unglingadrykkju.

Í samantekt rannsókna sem birtist í Journal of Public Health Policy, vol.26 no 3, komast greinahöfundar að þeirri niðurstöðu að umdeilanlegt hafi verið að alhæfa um áhrif auglýsinga á áfengisneyslu en að nýjustu niðurstöður rannsókna gefi til kynna að áfengisauglýsingar hafi áhrif á áfengisneyslu ungs fólks. Þessu til stuðnings hafa nýverið verið birtar niðurstöður úr bandarískri rannsókn sem styrkir enn frekar þá kenningu að áfengisauglýsingar hafa langtímaáhrif á drykkju ungs fólks. Niðurstöðurnar sýna að bein tengsl eru á milli drykkju og framboðs auglýsinga, þ.e. að sá hópur ungs fólks sem sá meira af áfengisauglýsingum drakk meira en sá hópur sem sá minna af þeim (The Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine, janúar 2006).

Íslenskur veruleiki

Hér á landi hefur orðið umtalsverð aukning á áfengisauglýsingum og áfengisumfjöllunum – kynningum- í blöðum, tímaritum og ljósvakamiðlum. Má benda á að samkvæmt niðurstöðum samantektar, sem Lýðheilsustöð fól Háskólanum á Akureyri og Fjölmiðlavaktinni að gera, hefur tíðni áfengisauglýsinga þrefaldast á síðust tíu árum. Oft eru þessar auglýsingar með þeim hætti að þær vekja ákveðnar væntingar til neyslu áfengis; ,,það er gott og gaman” ,,ég á það skilið” og ,,það hjálpar til” eru skilaboð sem fylgja gjarnan þessum auglýsingum. Má því leiða að því getum að þær hafi jákvæð áhrif á væntingar ungs fólks til neyslu áfengis sem getur því leitt til þess að það drekki frekar en ekki.

Því seinna sem byrjað er að drekka því betra – heilans vegna

Nýlegar sem og eldri rannsóknir á áhrifum áfengis á þroska ungs fólks benda m.a. til þess að við neyslu áfengis geti hlotist varanlegur skaði á ákveðnum hluta heilans. Sem dæmi um afleiðingar má nefna skert vinnsluminni, skert sjónsvið og skertan hæfileika til úrlausnar ýmissa vandamála. Þetta kemur meðal annar fram í niðurstöðum bandarískrar rannsóknar (The neurocognitive effects of alcohol on adolescent and college students, í Preventive Medicine 40 (2005)). Niðurstöður sýna að virkni í heilaberki er minni hjá unglingum sem drekka áfengi en þessi hluti heilans er mikilvægur fyrir hugsun, skipulagningu, hömlur og stýringu tilfinninga.

VERNDUM HEILANN

Rík ástæða er til að brýna fyrir ungu fólki – sem og foreldrum og öðrum fullorðnum – að heilinn er að vaxa og þroskast til tvítugs – og í raun aðeins lengur – og hversu mikilvægt sé að skaða hann ekki með áfengisneyslu á þessu þroskaferli: skaðinn er varanlegur sem þýðir að hann er ekki hægt að bæta.

Í ljósi þessa hlýtur að verða að beita öllum tiltækum ráðum til að seinka sem mest því að ungt fólk drekki áfengi. Ein af þeim leiðum hlýtur að vera að draga úr væntingum ungs fólks til áfengis með því að hindra að áfengisauglýsingar nái til þess.

Hagur og heilsa landsmanna að veði

Öllum sem vilja vita er ljóst að aukið aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar neyslu þess. Fjölmargar rannsóknir, bæði frá Norðurlöndunum og Bandaríkjunum, gefa til kynna að lækkun áfengiskaupaaldurs, að selja áfengi í almennum verslunum og aukið frelsi til markaðssetningar áfengis leiðir til aukinnar neyslu áfengis. Um leið eykst sá skaði sem fylgir áfengisneyslunni. Það er því hagur og heilsa landsmanna að aðgengi að áfengi sé ekki aukið.

Höfundur:

Rafn M. Jónsson,

verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna Lýðheilsustöð

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-beinast-jafnvel-a%c3%b0-ungum-bornum/

Ákæra ber ritstjóra fyrir ómerktar áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum

Láttu aðra vita

Ákæra ber ritstjóra fyrir ómerktar áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum

Í greiningu sinni á ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum í talhorninu í gær kemst talsmaður neytenda að þeirri niðurstöðu að skýrt sé hver beri ábyrgðina: Nafngreindur auglýsandi – en ritstjóri ella.

Í talhorninu að þessu sinni fjallaði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um ábyrgð – einkum refsiábyrgð en einnig meðábyrgð fjölmiðla – á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:

  • í prentmiðlum,
  • ljósvakamiðlum og
  • öðrum miðlum.

Farið er yfir ábyrgðarröðina í prentlögum sem tryggi að ávallt beri einhver ábyrgð á efni dagblaða, þ.e.

  • höfundur ef hann er nafngreindur en annars
  • útgefandi eða ritstjóri ef hann er tilgreindur en annars
  • sölu- eða dreifingaraðili (ef í hann næst) en annars
  • prentsmiðjan.

Í pistlinum kemur fram að frá 1963 hafi sú túlkun legið fyrir frá Hæstarétti (H 1963:1) að ef fyrirtæki, sem auglýsir áfengi, sé nafngreint þá beri framkvæmdarstjóri þess ábyrgð sem  höfundur þess efnis sem í auglýsingu felist. Nafngreiningu auglýsanda hafi hins vegar ekki verið til að dreifa í nýjasta dómi Hæstaréttar frá 8. febrúar 2007 þar sem framkvæmdarstjóri íslensks innflutnings- eða umboðsfyrirtækis erlends bjórs var sýknaður þar sem engin nafngreining lá fyrir á umboðsfyrirtækinu – auglýsandanum. Í pistlinum segir: “Þarna hefði verið öruggara og réttara miðað við fordæmi Hæstaréttar frá 1963 að ákæra ritstjóra dagblaðsins en skilja má dóminn þannig að hann hefði þá verið dæmdur sekur fyrir brot gegn auglýsingabanni áfengislaga.”

Þá segir:

“Segja má að Hæstiréttur hafi í dómi sínum 8. febrúar 2007 fengið bakþanka með því að telja nú að ekki sé nóg að nafngreina vöru eins og látið var duga 1999 en þá vísaði nafn bjórsins aðeins óbeint á framleiðandann, auglýsandann. Niðurstaðan er því skýr – eins og hún hefur í raun verið frá því að fyrst reyndi að þessu leyti á prentlögin í Hæstarétti 1963:

Auglýsandi ber ábyrgð á áfengisauglýsingu ef hann er nafngreindur í auglýsingunni. Refsiábyrgðina ber framkvæmdarstjóri eða annar fyrirsvarsmaður fyrirtækis sem er bær til þess að samþykkja auglýsinguna. Ef auglýsandi er ekki nafngreindur ber ritstjóri ábyrgðina (og svo koll af kolli samkvæmtprentlögum).”

Í dómi sínum 8. febrúar 2007 segir Hæstiréttur um bjórauglýsingar í fylgiblaði með dagblaði að birting þeirra hafi brotið í bága við áfengislög. Um það segir í pistlinum: “Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits.” Í pistlinum segir einnig að sú niðurstaða hljóti að leiða til breytts verklags á dagblöðum – svo tryggt verði að auglýsandi verði nafngreindur. “Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögummiðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.”

Gísli Tryggvason Talsmaður neytenda

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ak%c3%a6ra-ber-ritstjora-fyrir-omerktar-afengisauglysingar-i-blo%c3%b0um-og-timaritum/

Ritstjórar prentmiðla eru ábyrgir fyrir ómerktum áfengisauglýsingum

Láttu aðra vita

Ritstjórar prentmiðla eru ábyrgir fyrir ómerktum áfengisauglýsingum

Að gefnu tilefni áréttar talsmaður neytenda lagareglur og fordæmi sem leiða til þess að ritstjórar prentmiðla séu ábyrgir fyrir auglýsingum sem brjóta í bága við bann við áfengisauglýsingum – þ.e. ef auglýsandi er ekki nafngreindur í auglýsingu.

Að gefnu tilefni vill talsmaður neytenda árétta að af nýlegum dómi Hæstaréttar má ráða að svarið við spurningunni hvort einhver beri ábyrgð á áfengisauglýsingum er jákvætt eins og rakið var í talhorninu fyrr á árinu. Svarið er enn fremur að ritstjórar prentmiðla bera ábyrgð á ómerktum áfengisauglýsingum eins og bent var á í frétt á heimasíðu talsmanns neytenda næsta dag.

Brot á lögum en sýknað þar sem auglýsandi var ekki nafngreindur

Í nefndum hæstaréttardómi segir m.a.

„Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fram komið að birting auglýsinga þeirra sem um getur í ákæru var andstæð ákvæðum 20. gr. áfengislaga. Hins vegar var ákærði hvorki nafngreindur né vísað til fyrirtækis þess, sem hann veitir forstöðu, í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt við birtingu auglýsinga samkvæmt 1. til 3. og 5. tölulið ákæru og ber hann því ekki refsiábyrgð á efni þeirra. Ber samkvæmt kröfu ákæruvaldsins að sýkna hann af ákæru samkvæmt þeim liðum.“

Þá er ritstjóri ábyrgur

M.ö.o. fólu auglýsingarnar í sér brot á refsiákvæðum áfengislaga en auglýsandinn var aðeins sakfelldur fyrir sumar auglýsingar en ekki aðrar þar sem tilvísun í nafn hans var ekki á öðrum auglýsingum. Þá er ritstjóri hins vegar ábyrgur og ber að ákæra hann eins og rökstutt hefur verið áður í tilvitnaðri frétt þar sem segir m.a.:

„Í greiningu sinni á ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum í talhorninu í gær kemst talsmaður neytenda að þeirri niðurstöðu að skýrt sé hver beri ábyrgðina: Nafngreindur auglýsandi – en ritstjóri ella.

Í talhorninu að þessu sinni fjallaði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um ábyrgð – einkum refsiábyrgð en einnig meðábyrgð fjölmiðla – á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:

í prentmiðlum,

ljósvakamiðlum og

öðrum miðlum.“

Í pistlinum segir um áhrif dómanna:

„Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits.“

Í pistlinum segir einnig að sú niðurstaða hljóti að leiða til breytts verklags á dagblöðum – svo tryggt verði að auglýsandi verði nafngreindur.

„Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögum miðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.“

Betur er farið yfir réttarstöðuna í tilvitnuðum pistli talhorninu og bent á að þessi túlkun hafi legið fyrir frá árinu 1963.

Reyna þarf á léttölsfyrirvara

Í áfengislögum segir:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. […] – Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti […]. – […] Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Ekki er að mati talsmanns neytenda nægilegt að fram komi með smáum stöfum orðið „LÉTTÖL“ til að forðast refsiábyrgð en á það hefur líklega ekki reynt nægilega. Um það sagði í nefndum pistli að vonandi reyndi brátt á ábyrgðarreglur útvarpslaga fyrir dómi enda væri bann við áfengisauglýsingum að mati talsmanns neytenda þverbrotið á hverjum degi þegar í lok bjórauglýsinga birtist í vinstra horni neðst með daufum og smáum stöfum, líklega í um eina sekúndu: „Léttöl.“ Þetta stæðist að mati talsmanns neytenda ekki skýrt bann áfengislaga.

Til verndar ungum neytendum og af virðingu við lög í landinu

Ábendingar þessar eru gerðar þar sem hugsanlegt er að brugðist verði við með skipulögðum hætti ef brotið er gegn áfengislögum – einkum ef auglýsingar beinast að ungum neytendum og verður það þá gert í tengslum við samstarfsverkefni með umboðsmanni barna við að leitast við að semja um frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum en þar er slík opinber og almenn kærustefna nefnd meðal hugsanlegraúrræða. Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur ekki almenna skoðun á áfengisneyslu fullorðinna neytenda en vill sporna gegn auglýsingum sem beinast að börnum á óhollri vöru – einkum ef refsivert er að auglýsa hana. Þá grefur það undan virðingu við lög sem eiga öðrum þræði að vernda unga neytendur ef slíkt skýrt bann í lögum er hunsað endurtekið. Við það verður ekki unað

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ritstjorar-prentmi%c3%b0la-eru-abyrgir-fyrir-omerktum-afengisauglysingum/

Load more