Previous Next

Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Láttu aðra vita

„Held áfram á meðan að dómarinn flautar ekki“ sagði ungur verðbréfasali eitt sinn aðspurður um hvort tiltekin afar vafasamur viðskiptamáti stæðist lög. Ekki man ég hvort dómarinn „flautaði“ að lokum en veit það eitt að dómarinn flautar lítið ef nokkuð í sumum málum. Eitt af þeim málum er einlæg og sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum á lögum, sem með skýrum hætti banna auglýsingar af þessum toga, eru lögin brotin margsinnis dag hvern. Áfengisauglýsingar eru boðflenna í tilveru unglinga sem þau eiga fullan rétt á að vera laus við.

Hin siðferðilegi boðskapur laganna sem og innhald er afar skýrt. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um.

Það er eins og engin sé ábyrgur? Áfengisinnflytjendur eða framleiðendur auglýsa hvað af tekur og eyða til þess gríðarlegum fjárhæðum; flestir fjölmiðlar birta þessar auglýsingar átölulaust; auglýsingastofur framleiða þær? Þrátt fyrir einlægan síbrotavilja þessara aðila þá „flautar dómarinn ekki“. Ungt fólk virðist ekki búa við sama rétt og aðrir þegnar þessa lands. Þrengstu viðskiptahagsmunir eru teknir fram fyrir velferð barna og ungmenna..

Núna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram, óháð lögum og almennu siðferði.

Við foreldrar, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það er ekki við hæfi.

Foreldrar – forráðamenn og allir þeir aðilar sem hafa velferð æskunnar að leiðarljósi – Sýnum hug okkar í verki – Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Árni Guðmundsson

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/sni%c3%b0gongum-auglystar-afengistegundir/

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi

Láttu aðra vita

Fréttatilkynning frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi Hæstaréttar frá 23. október 2008 þar sem ritstjóri Blaðsins var dæmur til greiðslu 1.000.000 króna sektar vegna brota á lögum um banni við áfengisauglýsingum sbr. 20. gr áfengislaga. Samtökin vekja einnig athygli á að samkvæmt séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar Hæstaréttardómara kemur fram að ákærði lagði fram í Héraðsdómi fjórar möppur frá Fjölmiðlavaktinni og benti á 999 sambærileg brot á tímabilinu 1. maí 2005 til 1. júní 2006.Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetur yfirvöld til þess að gæta jafnræðis gangvart þeim aðilum sem brjóta með markvissum og einbeittum brotavilja gegn lögum þessum. Það verður einungis gert með fleiri ákærum eins og fyllst tilefni er til og málsgögn þessa máls sýna. Það er með öllu óásættalegt að einungis 0.001% af brotum komi til kasta dómskerfisins.

Dómur Hæstaréttar frá 23. október 2008

K (Karl Garðarsson) var sakfelldur fyrir að hafa sem ritstjóri B (Blaðsins) á árinu 2005 birt í blaðinu fjórar auglýsingar á áfengi og með því brotið gegn 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Ekki var talið að 20. gr. áfengislaga bryti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en slíkum vörnum hafði áður verið hafnað í dómum Hæstaréttar. Þá byggði K á því að undantekning frá banni við áfengisauglýsingum í 20. gr. áfengislaganna, er lýtur að auglýsingum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í máli nr. 220/2005 hefði verið talið að hliðstætt ákvæði tóbaksvarnarlaga nr. 6/2002 bryti ekki gegn jafnræðisreglu. Að því virtu sem og röksemdum ákæruvaldsins var ekki fallist á að ákvæði 20. gr. áfengislaga bryti gegn áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá var ekki fallist á það með K að rannsókn lögreglu hefði verið ábótavant. Þar sem höfundur auglýsinganna hafði ekki nafngreint sig bar K ábyrgð á birtingu auglýsinganna samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu K og hann dæmdur til greiðslu 1.000.000 króna sektar. (Heimsíða Hæstaréttar)

Dómur Hæstaréttar.

“Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.

Í ákæru er varðandi heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða, auk tilvísana til ákvæða áfengislaga, vísað til 15. gr. laga nr. 57/1956. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber höfundur efnis, sem birtist í blöðum, refsiábyrgð á efninu ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að höfundur auglýsinganna hafi ekki nafngreint sig í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Verður fallist á þá niðurstöðu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 165/2006, sem kveðinn var upp 8. febrúar 2007. Samkvæmt lagaákvæðinu ber ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna, en samkvæmt því var heimilt að beina málsókn hvort heldur að útgefanda rits eða ritstjóra. Að því virtu, sem rakið er að framan, verður sakfelling ákærða í málinu staðfest. Refsing hans er hæfilega ákveðin í héraðsdómi, sem verður staðfestur með þeim hætti, sem segir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Karl Garðarsson, greiði 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 475.418 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.” (Heimsíða Hæstaréttar)

Í séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara kemur eftirfarandi fram “Við meðferð málsins í héraði lagði ákærði fram fjórar möppur sem hafa að geyma samantekt Fjölmiðlavaktarinnar ehf. á ætluðum áfengisauglýsingum í innlendum blöðum og tímaritum. Í athugasemd Fjölmiðlavaktarinnar ehf. sem fylgir möppunum segir meðal annars: „Samantekt þessi er afrit af þeim áfengisauglýsingum sem birst hafa í prentmiðlum að Blaðinu undanskildu. Tímabilið miðast við 1. maí 2005 – 2. júní 2006.“ Auglýsingarnar sem ákæran tekur til voru allar birtar á þessu tímabili. Tilvikin, sem samantektin tekur til, eru hvorki fleiri né færri en 999 talsins. Við athugun á þessum gögnum verður ljóst að um er að ræða blaðaefni, sambærilegt við þær auglýsingar sem meirihluti Hæstaréttar sakfellir nú ákærða fyrir að birta.” (Heimsíða Hæstaréttar)

Sjá dóminn í heild HÉR

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldrasamtok-gegn-afengisauglysingum-fagna-domi/

Rætt um áfengisauglýsingabann á Alþingi -afdráttalaus dómur

Láttu aðra vita

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, telur óþarft að herða reglur um bann við áfengisauglýsingum eftir nýlegan dóm Hæstaréttar sem hann segir marka þáttaskil í meðferð þessara mála. Hann væri bæði skýr og afdráttarlaus og niðurstaða Hæstaréttar um túlkun laganna því skýr. Þingmenn vilja að lögunum verði fylgt betur eftir.
Hæstiréttur sakfelldi fyrrverandi ritstjóra Blaðsins í síðustu viku fyrir að hafa birt fjórar áfengisauglýsingar í blaðinu og þannig brotið gegn ákvæðum laga um bann við áfengisauglýsingum. Ekki var fallist á það fyrir Hæstarétti að auglýsingabann bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/r%c3%a6tt-um-afengisauglysingabann-a-al%c3%beingi-afdrattalaus-domur/

Að tilefni viku 43

Láttu aðra vita

Áfengisauglýsingar eru boðflennur í lífi barna og unglinga

Það er  auðvitað með eindæmum að stofna hafi þurft  sértök samtök til þess eins að berjast fyrir því að farið sé eftir gildandi lögum í landinu? Í þessu tilfelli lögum um banni við áfengisauglýsingum. Markmið samtakanna er einfalt eða eins og fram kemur í 5.gr stofnsamþykktar: “Markmið samtakana er að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstakri áherslu á vernd barna og unglinga”

Íþróttahreyfingin nýtur gríðarlegar aðstoðar og velvildar samfélagsins. Bæjarfélög styrkja íþróttahreyfinguna með verulegum fjármunum í formi rekstrarstyrkja og til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum. Hreyfingin hefur því ríkum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu sem m.a. felast í því að boða heilbrigðan lífstíl .Það er auðvitað ekki gert í samvinnu við bjórbransann nema síður sé. Áfengisauglýsingar í íþróttahúsum eða á íþróttaleikvöngum eru ekki viðhæfi en um slíkt eru því miður nokkur dæmi um.  Það verður ekki bæði haldið eða sleppt í þessum efnum. Áfengisauglýsingar og  forvarnir? Eitthvað lætur undan að lokum og eflaust verður það trúverðugleiki viðkomandi félaga. Áfengisauglýsingar á íþróttaleikvöngum eiga ekki að sjást. Íþróttahreyfingin á undantekningalaust að sýna gott fordæmi og gerir það í lang flestum tilfellum.

Auglýsingar á heimasíðum barna. Halda menn að það sé almennur vilji forráðamanna barna að þau auglýsi áfengi á ágætum heimasíðum sínum ? Held nú síður – Þetta er bara “hágæða” lákúra sem að varðar ekki bara við lög um bann við áfengisauglýsingum, heldur einnig vaflítið réttindi viðkomandi barna sem hafa verið þverbrotin með misnotkun af þessu tagi.
Þetta dæmi sýnir að það eru  hvorki siðleg né lagalega takmörk  fyrir því hve lágt er lagst í áfengisauglýsingum. Gríðarlegur fjöldi barna heldur úti bloggsíðum sem að öllu jöfnu er hið besta mál.  Hvernig heilvita fólki dettur í hug að setja inn áfengisauglýsingar á bloggsíður barna eins og gert var hjáwww.blog.central.is er ráðgáta.

Áfengisauglýsingar í strætóskýlum.  Áfengisauglýsingaherferð Egils Skallgrímsonar   s.l. vor var sem endranær beint  að börnum og unglingum sérstaklega. Af því tilefni voru strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu þakin áfengisauglýsingum við lok grunnskólaprófa! Fullkomin lágkúra og algert virðingarleysi við börn og unglinga, sem eru eins og kunnugt er helstu viðskiptavinar Strætó. Það er einnig með eindæmum að Strætó bs skuli taka þátt í þessu með því að legga biðskýli fyrirtækisins undir ólöglegar áfengisauglýsingar og gefa þar með sínum helstu viðskiptavinum börnum og unglingum langt nef.

Það eru foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum mikil vonbrigði að RÚV skuli með kerfisbundnum birtingum áfengisauglýsinga virða réttindi barna og unglinga í landinu að vettugi og brjóta á lögvörðum rétti þeirra til þess að vera laus við áfengisáróður sbr lög þar um. Samtökin hafa margsinnis skorað  á stjórn RÚV ohf að stöðva allar þessar beinu og óbeinu áfengisauglýsingar sem allar eiga það sannmerkt að vera ólöglegar og langt fyrir neðan virðingu fyrirtækisins. Telji fyrirtækið minsta vafa hvað varðar “lögmæti” þessara áfengisauglýsinga þá ber því hlutverki sínu samkvæmt að láta börn og unglinga í landinu njóta þess vafa. Því  fer fjarri

Það var með eindæmum að eftir skemmtilega Kastljósútsendingu frá Bessastöðum  þar sem okkar bestu synir, handknattleikslandsliðið, og fyrirmyndir æsku þessa lands voru heiðraðir, þá hafi RÚV fundist það viðeigandi að birta langa og ákaflega asnalega áfengisauglýsingu frá Vífilfelli í kjölfarið? Er reyndar ekki í fyrsta sinn sem RUV fer langt yfir strikið og verður sér til skammar í þessum efnum. Marga rekur minni til þess þegar að forseti Íslands veitti í Íslensku forvarnarverðlaunin fyrir nokkrum árum þá var birt enn ein áfengisauglýsingin í kjölfarið og viðhöfninni ,forsetanum og fólkinu í landinu með því sýndur fádæma dónaskapur.

Þetta eru bara nokkur dæmi, nánast af handahófi, um hve illa málum er komið og í þessum efnum hægt væri að nefna mýmörg önnur dæmi. Hér hefur ekki verið fjallað um áfengisauglýsingarútvarpsstöðva sem höfða í dagskrá sinni til barna og unglinga.

Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin í þessum efnum og ítrustu viðskiptahagsmunir teknir fram fyrir sjálfsagðan og ótvíræðan rétt æskunnar. Einbeittur brotavilji og síbrot forsvarsmanna fyrirtækja látin nánast átölulaus enda verða brotin sífellt grófari. Sorglegt að slíkt sé látið átölulaust og ekki boðlegt í siðuðu samfélagi. Sýnum börnum og unglingum fordæmi – förum að lögum.

Árni Guðmundsson
Uppeldis- og menntunarfræðingur
Formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/a%c3%b0-tilefni-viku-43/

Vika 43

Láttu aðra vita

Vika 43 – vímuvarnavika 2008. Vímuvarnavika 2008 verður haldin fimmta árið í röð og stendur yfir dagana 19. – 25. október nk. eða í viku 43. Framvegis verður þessi 43. vika ársins notuð til að kynna málefni vímuvarna á Íslandi og heitir þá verkefnið framvegis „VIKA 43″. Vika 43 er vettvangur 20 félagasamtaka sem vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns, til þess að vekja athylgi á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum:

Skapa vettvang fyrir samstarf félagasamtaka um að vekja athygli á stefnumörkun í áfengis- og vímuefnamálum, einkum forvörnum.

Varpa ljósi á viðfangsefni forvarna og það starf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka.

Vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnum og unglingum.

Virkja þekkingu, styrk og samstöðu grasrótarsamstarfs til eflingar forvarnastarfs.Hvers vegna

Neysla áfengis og annarra vímuefna raskar uppvexti og ógnar velferð margra barna. Sum bíða ævarandi tjón. Það er bitur reynsla foreldra og annarra aðstandenda að sjá barn sitt lenda í fjötrum vímuefnaneyslu og villast á brautir glæpa og ofbeldis. Það er átakanleg fórn sem snertir okkur öll.

Forvarnstarf gegn áfengis- og vímuefnaneyslu er liður í að skapa börnum þroskavænleg skilyrði. Með því að styðja börn og ungmenni í að hafna neyslu áfengis og annarra vímuefna er stuðlað að velferð þeirra og lífshamingju.

Í forvarnastarfi er lögð höfuðáhersla á að ná til barna og unglinga í ljósi þess að í æsku er lagður grunnur að framtíð hvers einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Ungt fólk er veikara fyrir gagnvart neyslu vímuefna en fullorðnir og rannsóknir sýna að því seinna sem ungt fólk byrjar neyslu áfengis og tóbaks því minni líkur eru á að það leiðist í neyslu vímuefna, hætti í skóla eða lendi í öðrum erfiðleikum. Þá verður að hafa í huga að börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir áróðri og hvatningu til neyslu áfengis og annarra vímuefna. Með fræðslu, upplýsingastarfi og hvatningu til heilbrigðra lífshátta er leitast við að sporna gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.Vika 43 árið 2008

Beinir sjónum að opinberri stefnumörkun í forvörnum. Opinber stefna er miklivægur rammi, samkomulag um hvert ber að stefna.

Hvetja stjórnvöld til þess að:

– lækka ekki aldursmörk til áfengiskaupa

– skerpa á reglum um áfengisauglýsingar

– standa gegn sölu áfengis í almennum verslunum

Vika 43 verður kynnt í fjölmiðlum þegar nær dregur en auk þessara áhersluatriða vikunnar í ár verður vakin athygli á framlagi félagasamtaka, skóla og annara aðila í vímuvörnum.Aðildarsamtök að Viku 43:

Bandalag Íslenskra skáta, Biskupstofa, Brautin – bindindisfélag ökumanna,FÍÆT – félag Íslenskra æskulýðs- og tómstundafulltrúa, FRÆ, Heimili og skóli, IOGT á Íslandi, ÍSÍ, ÍUT-forvarnir, KFUM-K, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Kvenfélagasamband Íslands, LIONS hreyfingin, Samstarf um forvarnir SAMFO, SAMFÉS, Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum, Samtök skólamanna um bindindisfræðslu SSB, UMFÍ, VÍMULAUS ÆSKA – Foreldrahús, Vernd – fangahjálp

Aðsetur Viku 43 er í Brautarholti 4a í Reykjavík, s. 511 1588.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/vika-43/

Load more