-Svör framboða til alþingiskosninga 2024 um nikótínpúða og ÁTVR.
Forvarnarsamtökum hafa borist svör við tveimur spurningum sem sendar voru í lok október til framboða sem bjóða fram á landsvísu til Alþingis þann 30. nóvember n.k. Spurningarnar tengjast mikilvægum lýðheilsumálum sem hafa verið áberandi í samfélagsumræðu síðustu mánaða og ára.
Spurt var:
Telur flokkur þinn rétt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna? Ef já, til hvaða aðgerða viltu að stjórnvöld grípi?
Vill flokkur þinn að ÁTVR verði lagt niður og áfengið selt í almennum verslunum?
Þrátt fyrir að þrotlausa vinnu forvarnarsamtaka og fleiri við að halda lýðheilsu á lofti er staðan sú að nikótínpúðanotkun ungmenna hefur stóraukist vegna aðgangshörku markaðsafla og takmarkaðra viðbragða stjórnvalda. Nú notar um þriðji hver ungur karlmaður nikótínpúða daglega, en nikótínnotkun getur haft neikvæð áhrif á þroska heilans, einkum á þau svæði sem stýra einbeitingu, skapi, hvatastjórnun o.fl.
Þá má líkja sölu áfengis hérlendis við villta vestrið þar sem nú er farið að selja áfengi í smásölu til neytenda í matvöruverslunum í gegnum netsölu, sem forvarnarsamtökin og fleiri telja ólöglega. ÁTVR kærði slíka netsölu til lögreglu fyrir rúmlega fjórum árum, þann 16. júní 2020. Lögreglan hefur ekki afgreitt kæruna með neinum hætti þrátt fyrir eftirrekstur ríkissaksóknaraembættisins. Er slíkt undrunarefni án hliðstæðu.
Þá sendi breiðfylking félaga heilbrigðisstétta og forvarnarsamtaka áskorun til alþingismanna og ráðherra 26. ágúst sl. um að bregðast við yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis. Í áskoruninni segir m.a. að „Félögin skora á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi.“ Viðbrögð yfirvalda við áskoruninni hafa verið lítil sem engin.
Vegna sorglegrar þróunar í nikótínpúða- og áfengismálum, sem eru bæði mikilvæg lýðheilsu- og samfélagsmál, telja forvarnarsamtök að almenningur eigi rétt á að vita afstöðu flokkanna til þessara mála nú þegar styttast fer í myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Forvarnarsamtök telja að svör flokkanna sýni samstöðu þeirra um að verja börn og ungmenni gegn nikótíni, en ósamstöðu um áfengissöluna. Mið- og vinstriflokkar vilja ekki leggja niður ÁTVR og selja áfengi í almennum verslunum vegna lýðheilsu- og samfélagsjónarmiða. Hægri flokkar vilja hins vegar leggja niður ÁTVR og selja áfengi í almennum verslunum til að auka frelsi í verslun.
Samstaðan um vörn gegn nikótíni gleður, en ósamstaðan um áfengissöluna er forvarnarsamtökum mikið áhyggjuefni.
Hér neðar eru töflur með einfaldri já-nei útgáfu af svörum framboða sem bjóða fram á landsvísu. Píratar og Lýðræðisflokkur svöruðu ekki (ekki innan tímamarkanna 11. nóvember, né yfirhöfuð þegar þessi fréttatilkynning er send).
Telur flokkur þinn rétt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna?
Vill flokkur þinn að ÁTVR verði lagt niður og áfengið selt í almennum verslunum?
Nú er komið í ljós að dómsmálaráðuneytið hefur vitað mjög lengi að netsala eins og hún fer fram hérlendis hafi verið ólögleg (bréf dómsmálaráðherra til Félags atvinnrekenda 8.október 2021). Eigi að síður hefur ráðherra ekkert gert árum saman til að sporna við ólöglegu athæfi. Slík vinnubrögð eru ámælisverð og tilefni þess að forvarnarsamtök senda Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis meðfylgjandi bréf. Nefndin hóf, af gefnu tilefni, í sumar frumkvæðisathugun vegna netsölu á áfengi. Ljóst er, að mati forvarnarsamtaka, að bæði stjórnsýslan og framkvæmdavaldið hefur brugðist mikilvægum skyldum sínum í þessum málum
Reykjavík 16. október 2024.
Erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna nýrra gagna sem sýna verklag framkvæmdavalds í tengslum við netsölu áfengis, sem nefndin hefur til skoðunar. Um tvennt er að ræða, annars vegar nýtt frumvarp um vefverslun á áfengi og hins vegar ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu um verklag í tengslum við ítrekaðar fyrirspurnir Félags atvinnurekenda.
Í frumvarpinu er fjallað um innlenda vefverslun sem geti bæði verið í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Í frumvarpinu er staðfest að sú netsala sem fer fram innanlands í dag, af lager sem er staðsettur á Íslandi, er smásala og hún er ólögleg. Hún er ólögleg þegar eigandi verslunar er erlendur lögaðili. Hún er einnig ólögleg þegar eigandi verslunar er innlendur lögaðili.
Í frumvarpinu segir m.a.
„Aftur á móti gerir löggjöfin ekki ráð fyrir að heimilt sé að starfrækja sambærilegar innlendar vefverslanir vegna þess einkaleyfisfyrirkomulags sem til staðar er. Þrátt fyrir það er starfræktur fjöldi innlendra vefverslana, ýmist í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Með frumvarpinu er stefnt að því að heimila sölu áfengis í gegnum innlenda vefverslun og marka fyrirkomulaginu lagalegan ramma, svo sem um hvernig staðið er að leyfisveitingu, hvernig eftirliti skuli háttað og um sölu og afhendingu áfengis sem keypt er.“
„Þrátt fyrir að gildandi áfengislöggjöf heimili ekki rekstur innlendra áfengisvefverslana hefur nokkur fjöldi slíkra vefverslana fest í sessi á síðast liðnum árum. Þessar innlendu áfengisverslanir eiga það sameiginlegt að vera með lager og starfsmenn á Íslandi, þó að eigandi verslananna sé eftir atvikum erlendur eða innlendur lögaðili.“
„Með því er ætlunin að bregðast við þeirri stöðu að fjöldi innlendra vefverslana selur áfengi til íslenskra neytenda í smásölu þrátt fyrir að ekki sé mælt fyrir um slíka starfsemi í áfengislöggjöf.“
„Frumvarpinu er ekki ætlað að stuðla að aukinni neyslu áfengis heldur að leggja til nýtt fyrirkomulag að lögum og þannig marka lagalegan ramma um það fyrirkomulag sem nú er til staðar án heimildar.“
„Frumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og felur ekki í sér beinar tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.“
Á einum stað í texta er farið með rangfærslu um óvissu að okkar mati miðað við annað innihald frumvarpsins (kannski gleymdist að taka þetta út úr eldri útgáfu).
„Verði ekkert aðhafst mun áfram ríkja óvissa um lögmæti innlendra vefverslana með áfengi sem hvorki má telja ásættanlega stöðu fyrir hið opinbera né hinn almenna borgara.“
Að mati forvarnarsamtakanna hefur dómsmálaráðuneytið vitað mjög lengi að netsala eins og hún fer fram hérlendis hafi verið ólögleg. Eigi að síður hefur ráðherra ekkert gert árum saman til að sporna við ólöglegu athæfi. Slík vinnubrögð eru ámælisverð.
Varðandi vitneskju ráðuneytis og tímaramma skal rifjað upp að árið 2015 má sjá merki um samskipti ráðuneytisins við aðila utan þess um netsölu áfengis. Í svarbréfi ráðuneytisins stílað á Lögmenn Lækjargötu ehf. frá 4. desember 2015, undirritað af Hermanni Sæmundssyni og Þórunni J. Hafstein, er vísað til minnisblaðs lögmanna Lækjargötu dags. 21. ágúst 2015 varðandi það álitaefni hvort vefverslun með áfengi, hvort heldur í smásölu, heildsölu og umboðssölu gangi gegn einkaleyfi ÁTVR til sölu og afhendingu áfengis.
Í svarbréfinu tekur ráðuneytið fram að ..„almennt verði að líta svo á að ákvæði laga nr. 75/1998 taki til verslunar með áfengi og tóbak, óháð því hvort um er að ræða vefverslun eða annað form verslunar.“ Þá er spurningum fyrirspyrjanda í öllum tilvikum svarað á þann hátt ..“að öðrum en ÁTVR er óheimilt að selja eða afhenda áfengi í smásölu.“ Í lok bréfs er hnykkt á þessu sbr. „Ef um er að ræða afhendingu áfengis í smásölu til neytenda þarf afhendingin að eiga sér stað fyrir tilstilli ÁTVR.“
Eins og rakið var í punktum sem fulltrúar forvarnarsamtaka afhentu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fundi þann 18. september 2024 og finna má á www.foreldrasamtok.is, þá eru spurnir af því að til séu álit, jafnvel nokkur, í dómsmálaráðuneyti og jafnvel fjármála- og efnahagsráðuneyti sem sýni að netsalan sem fer fram á Íslandi sé ólögleg. Gögn hafi jafnvel farið á milli ráðuneytanna, en setið sé á þeim. Við
teljum eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kalli eftir því hjá ráðuneytinu hvort slík gögn séu til. Því ef stjórnsýslan á til gögn samin innan ráðuneytis eða utan, þar sem færð eru rök fyrir því að netsalan sé ólögleg og lykilráðherrar hafi ekki brugðist við árum saman, eru það viðbótarrök um að vinnubrögð ráðherra hafi verið óeðlileg og óásættanleg í þessu máli.
Ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu um verklag
Okkur hafa borist ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu sem við teljum að nefndinni beri að skoða. Þau bárust okkur þann 25. september 2024 í kjölfar kæru okkar til Úrskurðarnefndar um upplýsingmál þann 10. september 2024. Kæran var reist á svarleysi dómsmálaráðuneytis við fyrirspurnum okkar frá 10. maí 2024 og ítrekun frá 30. júlí 2024.
„Vísað er til erindis þíns, dags. 10. maí 2024, þar sem óskað er upplýsinga um hvort dómsmálaráðuneytinu hafi borist erindi eða fyrirspurnir frá Félagi atvinnurekenda um svör um lögmæti fyrirkomulags netsölu áfengis á Íslandi þar sem þremur mismunandi útfærslum er lýst, auk afrita af erindunum og svara ráðuneytisins við þeim.
Dómsmálaráðuneytinu hafa borist erindi frá Félagi atvinnurekenda um lögmæti fyrirkomulags netsölu áfengis á Íslandi þar sem þremur mismunandi útfærslum er lýst. Afrit af erindunum eru hér í viðhengi, auk svars ráðuneytisins til Félags atvinnurekenda.“
Gögnin, sem eru rakin hér neðar, varpa ljósi á samskipti Félags atvinnurekenda, fjármála- og efnahagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.
Þá er hér einnig vísað til annarra gagna sem mikilvæg eru þegar rakið er hvernig verklag og starfshætti ráðherrar hafa sýnt varðandi fyrirkomulag netsölu áfengis á Íslandi. Forvarnarsamtökin telja gögnin sýna að ráðherrarnir hafi sýnt ámælisvert athafnaleysi og tómlæti á sínu málasviði. Þeir hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og sýnt óeðlilega og óvandaða stjórnsýsluhætti í málinu.
Aðdragandi
Þann 20. mars 2024 óskuðu fulltrúar forvarnasamtaka eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tæki upp til skoðunar þá stöðu sem nú ríkir vegna svokallaðrar netsölu áfengis innanlands í ljósi þess að stjórnsýslan s.s. lykilráðherrar og lykilstofnanir hafi ekki brugðist við henni í áravís. Samtökin hafa leitað til fjölda aðila innan stjórnsýslunnar til að freista þess að fá málið skoðað án árangurs þar til okkur var bent á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis er sérstaklega ætlað að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá getur nefndin fjallað um málefni Stjórnarráðsins í heild.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kærði tvær netsölur 16. júní 2020 til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Málið hefur verið til skoðunar hjá embættinu í ríflega 4 ár og er enn í vinnslu.
Sökum viðbragðsleysis ráðherra um lögmæti netverslana hefur fjöldi netverslana hafið starfsemi og selt og afhent áfengi í smásölu beint til neytenda á nokkrum mínútum frá því að pöntun var gerð. Þessi staða hefði ekki komið til ef yfirvöld hefðu brugðist við. Nú síðast hóf öflug verslun með rótgróna stöðu á íslenskum matvörumarkaði, Hagkaup, áfengissölu innanlands. Stöðuna má kalla „villta vestrið“ svo gripið sé beint niður í erindi Félags atvinnurekenda til Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra, frá 15. desember 2021 og getið er hér neðar.
Að okkar mati er netsalan eins og hún fer nú fram á Íslandi á skjön við lög. Nýlegt frumvarp dómsmálaráðherra sem var birt í samráðsgátt 30. september 2024 staðfestir það mat. Við höfum samt skilning á því að nefndin nýti ekki tíma sinn til að skoða lagalega stöðu sjálfrar netsölunnar.
Við teljum, óháð lagalegri stöðu netsölunnar, rétt og nauðsynlegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði ákvarðanir og verklag fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra í ljósi þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu.
Ráðherrar bera ákveðnar skyldur á grunni þeirra laga sem undir þeirra málefnasvið heyrir s.s. um sölu áfengis. Ráðherrar hafa skyldur til að leiðbeina um réttaróvissu á sínu málefnasviði. Þeir hafa yfirstjórnar- og eftirlitsskyldur. Skoða verður hvort ákvarðanir og verklag ráðherranna, um að grípa ekki inn í ástandið heldur leyfa því að viðgangast og þannig skapa „villta vestrið“, hafi verið eðlilegt á þessum tíma m.a. í ljósi leiðbeiningar-, eftirlits- og yfirstjórnarskyldna.
Í stað þess að sinna skyldum sínum hafa ráðherrar ekkert gert. Þeir hafa ekki beitt því eftirliti sem þeim er unnt samkvæmt lögum að mati forvarnarsamtakanna. Þeir hafa ekki svarað fyrirspurnum um málið og er þar nærtækast að benda á ítrekaðar fyrirspurnir Félags atvinnurekenda árið 2021. Ráðherrar hafa þannig vikið sér undan leiðbeiningarskyldu sinni.
Teljum við að nefndinni beri að hafa til hliðsjónar lög um um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 sem tilgreina að ráðherrar beri ábyrgð á málefnasviðum sínum. Séu mál alvarleg þá megi samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963 krefja ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög.
Fjármála- og efnahagsráðherra
Fjármála- og efnahagsráðuneyti barst erindi Félags atvinnurekenda varðandi lögmæti netverslunar með áfengi og eyðingu óvissu í viðskiptum þar sem spurt er sérstaklega um lögmæti þriggja útfærslna á netverslun með áfengi. Erindið barst dags. 9. ágúst 2021og svo ítrekun dags. 25. ágúst 2021.
Erindi Félags atvinnurekenda dags. 9. ágúst 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis, stílað á Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra.
Ítrekunarerindi Félags atvinnurekenda dags 25. ágúst 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis, stílað á Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra.
Erindi dómsmálaráðuneytis 27. ágúst 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis (sent FA einnig)
Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins er málið fært yfir til dómsmálaráðuneytis á grunni 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún segir „Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.“
Forvarnarsamtök gera athugasemdir við að fjármála- og efnahagsráðuneyti vísi málinu alfarið frá sér yfir til annars ráðuneytis í ljósi þess að a) fjármála- og efnahagsráðherra fer með lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011 þar sem segir í 3. gr. „[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn á smásölu áfengis og heildsölu tóbaks og framkvæmd laga þessara.“
Og b) fjármála- og efnahagsráðherra fer með og hefur einnig eftirlitsheimildir á grunni skatta- og tolla á grunni áfengislaga nr. 75/1998 samkvæmt 4. gr. „Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum. … 2“
Fjármála- og efnahagsáðherra stöðvar málaferli ÁTVR og beitir ekki eftirlitsskyldu
Í máli þessu er stundum vitnað til þess er ÁTVR sótti mál gegn netsölum fyrir dóm á sínum tíma. Niðurstaða Héraðsdóms þann 18. mars 2022 var sú að málatilbúnaðurinn var haldinn annmörkum og var málinu því vísað frá.
Í kjölfarið ákvað fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson að stöðva málareksturinn með því að kveðast ekki sjá ástæðu til þess að áfrýja úrskurði Héraðsdóms til Landsréttar. Vísaði hann til dómsmálaráðuneytis varðandi skoðun á löggjöfinni í stað þess að grípa frekar inn í þessa atburðarrás.
Í stað þess að standa með ÁTVR sem undir ráðherra heyrði kaus ráðherra að gera ÁTVR umboðslaust. Þannig stöðvaði ráðherra að láta á málið reyna fyrir Landsrétti. Vísaði því með almennum hætti til annars ráðherra, dómsmálaráðherra. Að mati forvarnarsamtaka sýndi ráðherra þannig tómlæti og vanrækslu gagnvart málaflokki sem undir hann heyrir.
Í svari dómsmálaráðuneytis til forvarnarsamtaka þann 22. apríl 2024 sem varða athafnaskyldu ráðherra er einmitt vísað til þessarar niðurstöðu á eftirfarandi hátt.
„Um sölu áfengis gilda bæði áfengislög nr. 75/1998 og lög 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Vegna þeirrar netsölu sem vísað er til í erindinu hefur áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðað dómsmál á hendur tveimur fyrirtækjum. Málunum var vísað frá héraðsdómi og hefur hvorki ÁTVR né fjármálaráðherra hafst frekar að, eftir því sem næst verður komist.“
Þá telja forvarnarsamtök að fjármála- og efnahagsráðherra hafi látið hjá líða að sinna eftirlitsskyldu sinni til marga ára því samkvæmt 4 gr. áfengislaga hefur hann eftirlitskyldu í gegnum tollgæslu og skattayfirvöld. „Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum. … 2)“
Ekki er að sjá að ráðherra hafi beitt því eftirliti sem undir hann fellur. Er það ámælisvert.
Dómsmálaráðherra
Eins og fyrr er rakið sendi Félag atvinnurekenda erindi um lögmæti netverslunar með áfengi til fjármála- og efnahagsráðherra 9. ágúst 2021, ítrekun 25. ágúst 2021 og fékk svar frá FJR um að ráðuneytið hefði framsent erindið til dómsmálaráðuneytis 27. ágúst „til þóknanlegrar meðferðar“.
Erindi Félags atvinnurekenda þann 5. október 2021, stílað á Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra.
Svar dómsmálaráðuneytis þann 8. október 2021 til Félags atvinnurekenda, stílað til Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA.
Erindi Félags atvinnurekenda til dómsmálaráðuneytis 12. október 2021, stílað á Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra.
Erindi Félags atvinnurekenda til dómsmálaráðuneytis 15. desember 2021, stílað á Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra.
Erindi Félagi atvinnurekenda til dómsmálaráðuneytis 15. desember 2021, stílað á Jón Gunnarsson innanríkisráðherra.
Árið 2022 kemur Félag atvinnurekenda inn á svarleysi dómsmálaráðuneytis í umsögn til Alþingis þann 22. mars 2022.
Í umsögninni segir:
„FA hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá dómsmálaráðuneytið til að svara spurningum um lögmæti þeirra þriggja mismunandi útfærslna á vefverzlun sem litið hafa dagsins ljós. Í fyrsta lagi er um að ræða fyrirtæki með heimilisfesti á Íslandi, í öðru lagi vefverzlanir með staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og í þriðja lagi vefverzlanir með staðfestu í ríkjum utan EES, til dæmis Bretlandi. Í öllum tilvikum eru starfrækt vöruhús á Íslandi, sem vörur eru afhentar úr. Svör ráðuneytisins hefur mátt skilja svo að innlend vefverzlun sé óheimil að óbreyttum lögum, en ekki hafa verið gefin skýr svör varðandi önnur rekstrarform.“
Stjórnvöld hundsa leiðbeiningarskyldu á sínu málasviði
Eins og sjá má hefur Félag atvinnurekenda margoft kallað eftir leiðbeiningum frá ráðuneytum og ráðherra. Beiðnirnar voru hundsaðar og svör ekki gefin. Þannig var sýnd vanræksla og tómlæti.
Hér eru raktar helstu samskipti hvað þetta varðar:
Úr erindi FA til fjármála- og efnahagsráðuneytis 9. ágúst 2021.
„Svara við þessum spurningum er óskað innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa, enda eru umtalsverðir hagsmunir í húfi. Telji fjármála- og efnahagsráðuneytið önnur ráðuneyti betur til þess fallin að svara þessum einföldu spurningum mælist FA eindregið til þess að erindi þetta verði áframsent með hraði og afgreitt fljótt og vel. Eins og áður segir hafa félagsmenn FA áhuga á að taka þátt í þeirri samkeppni sem hafin er í netverzlun með áfengi, en telja mikilvægt að hafa vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna og eigi ekki von á inngripum stjórnvalda.“
Úr erindi FA til fjármála- og efnahagsráðuneytis 25. ágúst 2021.
„Í þessu máli er sú afar sérkennilega staða uppi, eins og rakið var í fyrra erindi FA, að fjármála- og efnahagsráðherra segir að netverzlun með áfengi sé lögleg, en undirstofnun ráðuneytisins, Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, er á öðru máli og hefur kært netverzlanir til löggæzlu- og skattayfirvalda. Jafnt fyrir ný fyrirtæki, sem vilja hasla sér völl á þessum markaði, og fyrir núverandi innflytjendur og framleiðendur áfengis, sem telja sér ekki annað fært en að bregðast við nýrri samkeppni, er óvissa í þessum efnum bagaleg.
Hér skal fyrra erindi FA til ráðuneytisins ítrekað og farið fram á skýr svör við þeim spurningum, sem félagið hefur sett fram. Jafnframt er gerður sá fyrirvari, líkt og í fyrra erindi, að telji ráðuneytið sig einhverra hluta vegna ekki rétta stofnun innan stjórnsýslunnar til að svara þessum spurningum, geri það gangskör að því að áframsenda erindið og afla svara fljótt og vel til að tryggja öryggi og fyrirsjáanleika í viðskiptum. Ekki er úr vegi að minna ráðuneytið á 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, og 2. mgr. sömu greinar, um skyldu stjórnvalda til að áframsenda erindi svo fljótt sem unnt er.“
Úr erindi FA til dómsmálaráðuneytis 5. október 2021
„Hér skal þess getið til upprifjunar, að erindi FA til stjórnarráðsins fjallar um það sérkennilega óvissuástand, sem nú er uppi á áfengismarkaði. Brýnt er að ráðuneytið svari erindi í þágu öryggis og fyrirsjáanleika í viðskiptum.“
„Eins og bent hefur verið á í fyrri erindum til stjórnarráðsins er þetta óvissuástand óþolandi fyrir fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum eða horfa til þess að hasla sér þar völl.“
„Í upphaflegu erindi til fjármálaráðuneytisins 9. Ágúst var þess farið á leit að ráðuneytið svaraði spurningum FA um lögmæti netverzlunar með áfengi innan tveggja vikna, enda væru umtalsverðir hagsmunir í húfi. Dómsmálaráðuneytið hefur nú haft málið til meðferðar í fimm vikur án þess að nokkur svör hafi borizt. FA ítrekar að þetta ástand er afar bagalegt fyrir fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum eða hyggjast hefja netverzlun með áfengi. Að mati félagsins er útilokað að gefa þessum fyrirtækjum þau svör að þau verði að bíða niðurstöðu þeirra málaferla sem ÁTVR stendur nú fyrir, enda getað þau tekið einhver ár.
Ekki ætti að þurfa að minna ráðuneytið á þá ótvíræðu leiðbeiningarskyldu sem þar ber skv. 1. Mgr. 7. Gr. stjórnsýslulaga: „Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.“ „
„Svara við þessum spurningum er óskað innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa, enda eru umtalsverðir hagsmunir í húfi og áframhaldandi óvissa veldur hópi fyrirtækja æ meira tjóni. Eins og áður segir hafa félagsmenn FA áhuga á að taka þátt í þeirri samkeppni sem hafin er í netverzlun með áfengi, en telja mikilvægt að hafa vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna og eigi ekki von á inngripum stjórnvalda. Þeir eiga skýlausan rétt á leiðbeiningum ráðuneytisins.“
Úr erindi FA til dómsmálaráðuneytis 12. október 2021.
„Óvissan, sem þessi mál eru í, er einkar bagaleg fyrir félagsmenn FA, bæði þá sem hugsa sér til hreyfings á áfengismarkaðnum og þá sem hafa starfað þar um lengri tíma. Í því samhengi verður að ítreka leiðbeiningarskyldu stjórnvalda þegar að því kemur að aðstoða borgarana við að átta sig á þeim almennu leikreglum sem gilda í samfélaginu. Þá verður að undirstrika að hér er ekki um það að ræða að verið sé að biðja ráðuneytið að leysa úr ágreiningi eða úrskurða um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. Dæmi þess að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra eru fjölmörg enda er slíkt í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Að láta stórar atvinnugreinar vaða í reyk og svælu í lagalegri óvissu án þess að vísa þeim leið er hins vegar dæmi um hið gagnstæða.“
Úr erindi FA til dómsmálaráðuneytis 15. desember 2021.
„Óvissan, sem þessi mál eru í, er einkar bagaleg fyrir félagsmenn FA, bæði þá sem hugsa sér til hreyfings á áfengismarkaðnum og þá sem hafa starfað þar um lengri tíma. Í því samhengi verður að ítreka leiðbeiningarskyldu stjórnvalda þegar að því kemur að aðstoða borgarana við að átta sig á þeim almennu leikreglum sem gilda í samfélaginu. Þá verður að undirstrika að hér er ekki um það að ræða að verið sé að biðja ráðuneytið að leysa úr ágreiningi eða úrskurða um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. Dæmi þess að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra eru fjölmörg enda er slíkt í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Að láta stórar atvinnugreinar vaða í reyk og svælu í lagalegri óvissu án þess að vísa þeim leið er hins vegar dæmi um hið gagnstæða.“
Úr erindi FA til innanríkisráðherra Jóns Gunnarssonar 15. desember 2021.
„FA vísar jafnframt til svarbréfs síns frá 12. október sl., þar sem FA lýsti sig reiðubúið að taka þátt í slíkri heildarendurskoðun á lagarammanum um sölu, markaðsetningu og gjaldtöku af áfengi ásamt ráðuneytinu og öðrum hagsmunaaðilum. Ekki hafa borizt viðbrögð frá ráðuneytinu við því erindi.“
„Þrátt fyrir ítrekaðar kærur Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins (ÁTVR) hafa löggæzlu- og skattayfirvöld ekki gripið inn í þessa starfsemi.
Félagsmenn FA hafa sýnt því áhuga að starfrækja netverzlanir með áfengi. Sumir vegna þess að þeir telja nauðsynlegt að bregðast við þeirri samkeppni, sem felst í sölu áfengis á netinu, en aðrir hafa hug á að koma nýir inn á áfengismarkaðinn og sjá tækifæri í því að þurfa ekki að sæta flóknum reglum og skilmálum ÁTVR um hvernig koma megi vörum í sölu. Fyrirtækin hafa viljað fá vissu fyrir því að þau starfi innan ramma laga og reglna, ekki sízt vegna kæra og málshöfðana ÁTVR á hendur netverzlunum. FA sendi því fjármála- og dómsmálaráðuneyti ítrekaðar fyrirspurnir um lögmæti ofangreindra þriggja birtingarmynda netverzlunar (9. og 2. ágúst og 5. október sl.) en fékk einungis skýrt svar við einni spurningu í áðurnefndu bréfi ráðuneytisins frá 8. október; ráðuneytið telur samkvæmt því innlenda netverzlun ekki heimila að óbreyttum lögum.
Með áðurnefndu erindi 12. október sl. ítrekaði FA spurningar sínar og rökstuddi af hverju ráðuneytinu bæri skylda til að svara þeim, en hefur ekki fengið svör. „
„FA óskar eftir fundi með ráðherra hið fyrsta til að ræða þessi mál og hvernig ýta má úr vör vinnu við heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar. Félagið óskar jafnframt svars við þessari beiðni.“
Eina svarið sem Félag atvinnurekenda hefur fengið við margítrekuðum spurningum til ráðuneyta er svarbréf dómsmálaráðuneytis frá 8. október 2021. Þar segir m.a.
„Smásala áfengis er nú einungis heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hefur einkaleyfi til slíkrar starfsemi samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna og 1. mgr. 7 gr. laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Í síðastnefndum lögum er ítarlega fjallað um einkaleyfi Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins ásamt hlutverki og verkefnum verslunarinnar. Er enn fremur skýrt markmið laganna að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættir lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð.“
„Að lokum tekur ráðuneytið fram að leiðbeiningarskylda þess nær almennt ekki til lögskýringa í tengslum við öll þau lagalegu álitaefni sem kunna að rísa á grundvelli laga sem undir ráðuneytið keyrir. Séu uppi vafaatriði um túlkun laga við afgreiðslu einstaka mála, sem eftir atvikum geta verið til meðferðar hjá viðeigandi eftirlitsstjórnvöldum, verða þau stjórnvöld sem um þau fjalla að taka afstöðu til þeirra og að endingu er það dómstóla að skera úr um ágreining sem kann að vera uppi.“
Að mati forvarnarsamtaka getur stjórnvald ekki skýlt sér á bak við að kæra ÁTVR hafi legið hjá lögreglu á þessum tíma og þess vegna komið sér undan því að svara síendurteknum og réttmætum spurningum Félags atvinnurekenda um lögmætið. Kæra ÁTVR á hendur netsölum snerist ekki um málefni einstaklings eða stjórnarskrá, sem hefði ef til vill réttlætt svarleysi ráðuneyta, heldur um almenna lagaramma og almennar leikreglur. Forvarnarsamtök eru sammála Félagi atvinnurekenda um að ráðuneytum bar skylda til þess að veita leiðbeiningar varðandi lögmæti þriggja útfærslna á netverslun í samræmi við fyrirspurnir félagsins um almennan lagaramma og leikreglur fyrir stóra atvinnugrein. Það var ekki gert og er það ámælisvert.
Niðurlag
Forvarnarsamtökin vilja koma því á framfæri við nefndina að netsalan, eins og hún er stunduð á Íslandi, samræmist ekki þeim markmiðum sem sett voru í lýðheilsustefnu til ársins 2030 samþykkt á Alþingi 12. júní 2021, um að stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun og að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu. Netsalan er í andstöðu við markað lýðheilsustefnu og grefur undan þeim árangri sem Íslendingar hafa náð í forvörnum m.a. gagnvart börnum og ungmennum á síðustu árum. Þá er hún í andstöðu við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að einkasala ríkja á áfengi sé ein besta forvörnin og hvetur stofnunin þau ríki sem hafa ekki einkasölu til þess að taka hana upp.
Í ofangreindum gögnum hefur m.a. verklag dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, varðandi fyrirkomulag netsölu áfengis á Íslandi, verið rakið. Forvarnarsamtökin telja gögnin sýna að ráðherrarnir hafi algerlega brugðist í alvarlegu og mikilvægu lýðheilsu- og samfélagsmáli. Þeir hafi stundað óeðlilega og óvandaða stjórnarhætti.
Virðingarfyllst,
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri IOGT og Hildur Helga Gísladóttir, fulltrúi SAFF-Samstarfs félagasamtaka í forvörnum
Gögn (8 viðhengi):
Frumvarp dómsmálaráðherra í samráðsgátt 30.september 2024
Opinberir punktar fyrir fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, 18. september 2024
Mynd af vef Alþingis
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis
Við erum frá hópi fólks sem í eru forystumenn forvarnarsamtaka og fleira lýðheilsuþenkjandi fólk.
Í mars óskuðum við skriflega eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tæki málið til skoðunar. Þar röktum við af hverju við teljum netsöluna, eins og hún er stunduð á Íslandi, vera ólöglega.
Við höfum nýlega, ásamt fjölda heilbrigðisstétta, sent áskorun til yfirvalda þar sem félögin skora á yfirvöld að m.a. hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um um einkasölu ÁTVR á áfengi.
Félögin eru:
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Ljósmæðrafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands. Lyfjafræðingafélag Íslands, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.
Við teljum að með afskiptaleysi yfirvalda, bæði ráðuneyta og lögreglu, sé verið að mylja niður einkasölu áfengis á Íslandi. Mylja undan lögum sem byggja á lýðheilsu, rannsóknum og gagnreyndir þekkingu. Í stað þess að fara í málið að framanverðu, með umræðum um kosti og galla og eftir atvikum lagabreytingu, eigi að fara í málið að aftanverðu. Valdhafar leyfi ólöglegum netsölum að spretta upp, gera lítið sem ekkert í því, láta netsöluna þá hreiðra um sig og svo eigi að lögleiða þá stöðu. Eins og þið vitið er slík lögleiðing komin fram á þingmálaskrá vetrarins. Að okkar mati er þetta bæði lögbrot og algerlega siðlaust. Þetta er ekki heiðarleg og réttlætanleg aðferð. Aðferðin er þekkt innan m.a. tóbaks- og áfengisiðnaðarins, þeir spila á kerfið, play by the playbook.
Lögbrotið
Við viljum ekki nota mikið af dýrmætum tíma í umræður um lögbrotið sjálft. Bæði lög og stefnur eru skýrar. Í stuttu máli þá fer hér fram lögbrot því um smásölu er að ræða þegar varan er seld af lager innanlands á nokkrum mínútum til neytenda. Alveg eins og þegar pantaður er matur á netinu hjá Kentucky Fried Chicken og Tokyo Sushi og hann afhentur nokkrum mínútum seinna.
Ekki er um innflutning til eigin nota að ræða, þá væri lager sem selt er af ekki innanlands. Þá er salan á skjön við lýðheilsustefnuna sem allir þingmenn samþykktu fyrir ekki löngu. Ef salan væri lögleg þá þyrfti væntanlega dómsmálaráðherra ekki að flytja mál til að lögleiða söluna og ekkert slíkt mál væri á þingmálaskrá.
Stjórnsýslan
Við höfum áhuga á að ræða við ykkur um stjórnsýsluna og ráðherraábyrg. Skoða verði lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011 sem heyra að mestu undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðherra og áfengislög nr. 75/1998 sem heyra að mestu undir málefnasvið dómsmálaráðherra. Þessir ráðherra hafa eftirlitsskyldu gagnvart lögunum í gegnum lögregluna, skatt og toll.
Þá sé brýnt að kryfja lög um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 og lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963 í þessu samhengi. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 bera ráðherrar ábyrgð á málefnasviðum sínum. Ráðherrar bera athafnaskyldu gagnvart því að farið sé að lögum á málefnasviðum sem undir þá heyra. Þeim ber með öðrum orðum lagaleg skylda til viðbragða ef lögum er ekki framfylgt.
Í lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Þar segir að krefja megi ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög.
Fjármála- og efnahagsráðherrann
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur vanrækt skyldu sína með því að beita sér ekki á málasviði sínu í fjölmörg ár. Til dæmis þegar ÁTVR sótti mál gegn netsölum fyrir dóm á sínum tíma. Niðurstaða Héraðsdóms var sú að málatilbúnaðurinn var haldinn annmörkum og var málinu því vísað frá án efnislegrar niðurstöðu.
Fram kom að fjármála- og efnahagsráðherrann stöðvaði málareksturinn, kvaðst ekki sjá ástæðu til þess að grípa frekar inn í atburðarásina með því að t.d. kæra úrskurð Héraðsdóms til Landsréttar eða grípa til aðgerða með öðrum hætti. Í fjölmiðlum sagði ráðherra m.a. „Ég myndi frekar leggja áherslu á að ræða með dómsmálaráðuneytinu þörfina fyrir að skoða löggjöfina og skýra leikreglurnar heldur en að grípa frekar inn í þessa atburðarás.“
Þetta var alvarlegt í ljósi ábyrgðar ráðherra á málaflokknum og þess að almennt er ekki véfengt að netverslun með lager innanlands er ekki leyfileg, sbr. afdráttarlausan dóm innan EES. Ráðherrann stóð ekki með ÁTVR í málinu heldur vísaði á annan ráðherra, dómsmálaráðherra.
Héraðsdómur vísað málinu frá á grunni þess að ÁTVR væri ekki eftirlitsaðili í þessu máli. Dómsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti eru eftirlitsaðilar í gegnum lögreglu, toll og skatt samkvæmt lögunum. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ekki beitt sínum eftirlitsheimildum, svo vitað sé, hjá skatti og tolli eins og honum bar skylda til að gera.
Dómsmálaráðherra
Félag atvinnurekenda, FA, lagði fram fyrirspurnir til fjármála- og efnahagsráðuneytis um lögmæti þriggja útfærsla af netsölu 9. ágúst 2021.
1) Er netverzlun áfengisframleiðenda með staðfestu á Íslandi, líkt og fer fram á bjorland.is, í samræmi við lög? 2) Er netverzlun fyrirtækis með staðfestu í öðru EES-ríki, sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög? 3) Er netverzlun fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (t.d. Bretlandi) sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?
Fjármála- og efnhagsráðuneytið bað dómsmálaráðuneytið um að svara, sem það gerði ekki, samkvæmt upplýsingum FA því FA dregur fram, í umsögn til Alþingis 22. mars 2022, að dómsmálaráðuneytið hafi ekki svarað þeim neinu varðandi lögmætið þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir.
“FA hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá dómsmálaráðuneytið til að svara spurningum um lögmæti þeirra þriggja mismunandi útfærslna á vefverzlun sem litið hafa dagsins ljós. Í fyrsta lagi er um að ræða fyrirtæki með heimilisfesti á Íslandi, í öðru lagi vefverzlanir með staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og í þriðja lagi vefverzlanir með staðfestu í ríkjum utan EES, til dæmis Bretlandi. Í öllum tilvikum eru starfrækt vöruhús á Íslandi, sem vörur eru afhentar úr. Svör ráðuneytisins hefur mátt skilja svo að innlend vefverzlun sé óheimil að óbreyttum lögum, en ekki hafa verið gefin skýr svör varðandi önnur rekstrarform.“
Dómsmálaráðherra hefur því vanrækt skyldu sína ef rétt er að fyrirspurn í mikilvægu samfélags- og lýðheilsumáli hafi verið látin liggja án svara.
Við gefum FA líka falleinkunn, því okkur sýnist að þeir beittu sér ekkert frekar til að fá svör. Þeir kærðu t.d. ekki málið til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, fóru ekki með það til Umboðsmanns Alþingis svo við sjáum. Við höfum hins vegar kært til nefndarinnar og bað nefndin dómsmálaráðuneytið um að taka „ákvörðun um afgreiðslu hennar eins fljótt og við verður komið og ekki síðar en 25. september næstkomandi.“
Við sendum bæði dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra erindi þann 20. mars þar sem við óskuðum skriflegra skýringa á athafnaleysi ráðherra á málefnasviði sínu.
Dómsmálaráðherra svaraði og gaf boltann á fjármála- og efnahagsráðherra með þessum orðum „Vegna þeirrar netsölu sem vísað er til í erindinu hefur áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðað dómsmál á hendur tveimur fyrirtækjum. Málunum var vísað frá héraðsdómi og hefur hvorki ÁTVR né fjármálaráðherra hafst frekar að, eftir því sem næst verður komið.“
Eins og sjá má hafa dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra vísað hvor á annann í þessu máli í stað þess að taka á því.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ekki svarað fyrirspurninni okkar frá 20. mars. Við teljum að ykkar nefnd eigi að kryfja lögin um Stjórnarráð Íslands og lög um ráðherraábyrgð í þaula í þessu samhengi.
Þá viljum við benda á fleiri yfirvöld sem hafa brugðist.
ÁTVR kærði netsölur 16. júní 2020. Síðan eru liðin á fimmta ár. Eftir eftirrekstur brást Ríkissaksóknari loks við og er farinn að spyrja lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hvenær ljúka eigi málinu. Nú hefur komið fram opinberlega að tvö netsölumál eru fullrannsökuð og komin til ákærusvið. Því skal skotið að hér að þrátt fyrir þetta ákveður Hagkaup að hefja áfengissölu, vitandi að kæra ÁTVR er komin á ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og það styttist vonandi í niðurstöðu þar.
Við gefum lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur ekki komist að niðurstöðu í á fimmta ár, falleinkunn í þessu máli.
Að okkar mati er ekki hægt að útskýra þennan rannsóknartíma. Kannski hefði mátt útskýra nokkra mánuði, tæpast ár. En þessi tími er algerlega óeðlilegur.
Að lokum teljum við rétt að geta þess að þrátt fyrir að hafa reynt að rannsaka þetta mál um stund þá höfum við ekki séð neitt lögfræðiálit sem styður að netsalan eins og hún fer fram hér sé lögleg. Við höfum einungis séð álit sem renna stoðum undir að hún sé ólögleg s.s. álit Málþings (Bjarki Már Baxter) unnið fyrir ÁTVR og álit Magna lögmanna (Flóki Ásgeirsson) unnið fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í grein heilbrigðisráðherra „Lýðheilsuhugsjónin“ á visir.is 30. ágúst sl. segir: „Í lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra kemur skýrt fram að það fyrirkomulag netverslana sem þróast hefur hér á landi síðustu misseri sé í andstöðu við lög.“
Annað hvort er hér átt við Magna álitið eða eitthvað annað álit. Við höfum spurnir af því að til sé álit í dómsmálaráðuneyti og/eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem okkur skilst sýni að netsalan sem fer fram á Íslandi sé ólögleg. Ekki vitum við hvort heilbrigðisráðherra sé að vísa til þess. Álitið sé nokkurra ára, hafi farið á milli ráðuneyta, en setið sé á því. Við teljum að stjórnskipunar- og eftirlitnefnd þurfi að kalla eftir álitinu. Því ef ráðuneyti á til álit um að færa megi rök fyrir því að netsalan sé ólögleg og lykilráðherrar hafi ekki brugðist við árum saman, eru það sterk viðbótarrök við þau rök sem fyrr hafa verið rakin um að kryfja verið lög um ráðherraábyrgð og athafnaleysi til hlítar í þessu mikilvæga samfélags- og lýðheilsumáli.
Frumvarpum áfengisauglýsingar hefur verið lagt fram í sænska þinginu . Í frumvarpinu kemur fram að herða beri lög um áfengisauglýsingar. Hér verður greint frá nokkrum þeim helstu rökum fyrir breytingunni.
Rannsókn Evrópusambandsins (EU), Alcohol and Health Forum, leiddi í ljós að áfengisauglýsingar hafa áhrif á unglinga. Í ljós kom að þeir unglingar sem eru byrjaðir í neyslu áfengra drykkja auka neyslu sína á áfengi. Einnig eru skýr fylgni milli þess magns áfengisauglýsinga sem ungt fólks horfir á og hversu mikið þeir auka neyslu sína. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur kannað áhrif áfengisauglýsinga á neytendur. Stofnunnin dregur athyglinni sérstaklega að ungu fólki í því samhengi. Það má á engan hátt vanmeta þau áhrif sem áfengisauglýsingar hafa á ungt fólk. Alþjóða heilbrigðisstofnun mælir með banni á auglýsingum áfengis í stefnu sinni.
Nokkrir punktar úr skýrslunni, Building Capacity. Höfundur: Assembly of European Regions, 2010. Verkefnið var styrkt af EU – Public Health Programme.
Áfengisauglýsingar, markaðssetning og skaðsemi áfengis
Ýmsar rannsóknir benda á áfengisframleiðendur leitast eftir því að sýna jákvæða mynd af neysluvörunni. Horft er framhjá þeirri skaðsemi sem hún veldur einstaklingum og samfélaginu. Einnig hefur komið í ljós að bein tengsl eru á milli fjölda áfengisauglýsinga sem ungur einstaklingur horfir á og drykkjavenjur hans. Þannig að því fleiri áfengisauglýsingar sem ungur einstaklingur horfir á því líklegri er hann til þess að byrja fyrr að drekka áfengi. Einnig er líklegra að hann drekki meira (Farke, 2008).
Áfengisauglýsingum beint ungu fólki
Dýrum og vel gerðum áfengisauglýsingum er sérstaklega beint að ungu fólki og mikið lagt í sölurnar til þess að ná þeim sem kaupandahóp að vörunni. Þróun á nýjum vörum er til þess eins að selja þessum hóp kaupanda. Mikið er lagt í hönnun og það sem þykir höfða til ungs fólks. Áfengisframleiðendur leitast eftir því að auglýsa í tímaritum þar sem meirihluti lesanda er ungt fólk. Sjónvarpsauglýsingar sýna ungt fólk drekka áfengi yfirleitt undir mjög skemmtilegum kringumstæðum. Auglýsingar þar sem afleiðingar áfengis eru sýndar hafa aldrei verið birtar og verða það væntanlega aldrei – minnkar sölu. Hinir ýmsu íþrótta- og menningarviðburðir eru oft styrktir af áfengisiðnaðinum. Með tiltölulegum litlum kostnaði þá hefur áfengisiðnaðurinn hreiðrað um sig á samskiptasíðum svo sem Facebook og Twitter. Á þeim vettvangi hefur og á áfengisiðnaðurinn greiða leið að ungu fólki. En talið er að ungt fólk eyði mun meiri tíma á netinu en t.d. í sjónvarpsáhorf. Þetta veit áfengisiðnaðurinn og má segja með þessu að þeir séu svo sannarlega með á nótunum.
Ágæti þingmaður áskorun – Verndum æskuna – Já takk
Áfengisauglýsingar virka ekki, segja framleiðendur og heildsalar, en hafa þá einstöku sérstöðu, að hafa aðeins þau áhrif, að þeir sem þegar eru neytendur skipti um tegund? Viðkomandi auglýsa síðan hvað af tekur í miðlum sem höfða sérstaklega til barna og ungmenna? Samkvæmt þessu þá eru það yfirlýst markmið framleiðenda og innflytjenda að fá börn og ungmenni til að skipta um áfengistegund ?
Áfengisauglýsingar hafa enga sérstöðu og eins og aðrar auglýsingar þá virka þær vel. Annars væru viðkomandi ekki að auglýsa dag út og dag inn. Hagsmunaaðilar hafa haldið því fram að ekkert orsakasamhengi sé milli auglýsinga og aukinnar neyslu í samfélaginu, vitandi það að það er ekki hægt að meta áhrif auglýsinganna með slíkum aðferðum, eins og samfélagið sé lokuð,einangruð og dauðhreinsuð rannsóknarstofa sem byggir á klassískum rannsóknum um virkni lyfja versus lyfleysu. Slíkar aðferðir er ekki nýtilegar í þessum tilgangi. Hins vegar eru til rannsóknir þar sem kannað hefur verið hvaða þættir hafa áhrif á neyslu barna og ungmenna sem hafa lent illa í áfengisneyslu. Einn af þeim þáttum, sem þar hafa veruleg áhrif, eru áhrif áfengisauglýsinga, bæði hvað varðar aldur er neysla hefst, tegundir, magn og tíðni neyslu.
Önnur rök hagsmunaaðila eru þau að „allt má erlendis“ þegar að vitað er að í mörgum löndum er ströng löggjöf eða reglur um áfengisauglýsingar sem m.a byggja að velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna. Í Noregi er að mörgu leyti sambærileg löggjöf og hérlendis, í Frakklandi gilda ákveðin lög t.d. um algert auglýsingabann á íþróttaleikvöngum, Bretar eru að velta fyrir sér breytingum m.a vegna óhóflegrar áfengisneyslu ungmenna, sama á við um í Danmörku, sem státar af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Svíar eru á ný að endurskoða sína löggjöf í ljósi afar misheppnaðra breytinga fyrir nokkrum árum, markmiðið að færa til fyrra horfs sem er í ætt við norsku löggjöfina. Á vettvangi Evrópusambandsins er umræða um verulega aukið aðhald bæði út frá heilbrigðisjónarmiðum og ekki síður út frá velferðarsjónarmiðum barna og ungmenna og svona mætti lengi telja. Fullyrðingar um að „allt megi erlendis“ eru því fyrst og fremst byggðar á óskhyggju hagsmunaaðila í áfengisbransanum og sem slíkar með öllu óbrúklegar við uppeldi æskunnar og eða sem siðferðisviðmið í samfélaginu almennt.
Nýlegar rannsóknir Rannsóknar og greiningar um áfengis – og vímuefnaneyslu framhaldsskólanema sýna að ástand er með ágætum en ef bætt er við niðurstöðum er ná til sama aldurshóps sem eru utan skóla þá gjörbreytast niðurstöður til hins verra svo um munar. Að meta drykkju unglinga á tilteknum tímapunkti/um þarf ekki að segja allt m.a. vegna þess að unglingar lenda almennt ekki í vanda við fyrsta sopa og forsagan þeirra sem neytenda er stutt. Neysla og neyslumynstur er ferli. Hlutfallslega meiri fjöldi ungs fólks (20+) í meðferð hjá SÁA gæti hugsanlega átt rætur sínar að rekja til „vel heppnaðra“ áfengisauglýsinga fyrri ára.
Kjarni málsins er sá að áfengisauglýsingar eru bannaðar samkvæmt 20. grein áfengislaga. Hinn siðferðilegi boðskapur laganna er afar skýr. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum úr lögum eru þau brotin margsinnis dag hvern. Hagsmunaaðilar sýna í verki afar einbeittan og einlægan brotavilja sem þeir komast upp með tiltölulega óáreittir af hálfu yfirvalda . Það vekur athygli að síðasti dómur vegna brot á 20. gr áfengislaga er frá 12. júní 2009 sem verður að teljast með ólíkindum og ber ákæruvaldinu dapurt vitni. (Sjá dómasafn www.foreldrasamtok.is og eða dómasafn www.domstolar.is ).
Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga sem þau eiga fullan og lögvarðann rétt á að vera laus við. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um. Ýtrustu viðskiptahagsmunir áfengisbransans um frelsi til þess að beina markvissum áfengisáróðri að börnum og ungmennum eru í hróplegu ósamræmi við það. Sorglegt að fólk skuli í opinberri umræðu nefna slíkt sé dæmi um að „fjandskapur núverandi stjórnvalda gagnvart íslensku atvinnulífi og störfum fyrir vinnufúsar hendur eigi sér engin takmörk“.
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á þig ágæti þingmaður að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á áfengislögum sem snúast fyrst og fremst um velferðarsjónarmið, um vernd barna og ungmenna og rétt þeirra til þess að vera laus við þann einhliða og kostaða áróður sem áfengisauglýsingar eru. Að stuðla slíku er bæði gott og göfugt markmið.
Það vakti athygli fyrir nokkru þegar að ógæfumaður var dæmdur til fangelsisvistar eftir að hann varð uppvís að því að stela nokkrum bjórum í ríkinu. Að vísu átti hann einhver önnur afbrot af svipuðum toga óuppgerð en var eðli málsins settur í steininn. Lögbrot er lögbrot og umfangið sem slíkt skiptir ekki máli – eða hvað? Lögbrot sem slíkt er nákvæmlega sama hvort það er stórt eða lítið. Í siðuðu samfélagi skiptir ekki máli hvort menn stela einu súkkulaðistykki eða 100 allt eru þetta glæpir
Þetta vekur mig til umhugsunar um ákveðið misræmi hvað varðar önnur lögbrot t..d. eins og brot á 20. gr áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Í þeim efnum hafa “vettlingatök” verið viðhöfð. Þó að dómum fjölgi þá er það umhugsunarvert að í nýlegum Hæstaréttardómi þar sem ritstjóri Mannlífs var dæmdur til sektar þá skilar einn dómari séráliti þess efnis að þar sem brot séu svo mörg að hinn seki ætti ekki gjalda þess að vera einn kærður. Jafnræði fælist í því að þessi eini ætti að sleppa? í stað þess þá væntanlega að vinda sér í kæra þá sem lögbrot hafa framið. Þess má geta að ritstjórinn sakfelldi lagði fram sér til “málsbóta” fjórar möppur er innihéldu 999 áfengisauglýsingar sem ekki hefðu verið kærðar?
Þetta vekur mig til umhugsnar um hve gríðarlegt virðingarleysi viðkomandi aðilar sýna lögum landsins. Áfengisframleiðendum og innflytjendum áfengis flestum hverjum virðist vera algerlega sama um lög landsins sniðganga þau, brjóta og sýna af sér markvissan og einlægan brotavilja. Dómar þ.e.a.s. fyrir utan það að einn og annar forstjórinn eða ritstjóri lendir á sakaskrá, eru svo vægir að greiðsla sektar er aðeins brotabrot af auglýsingakostnaði og dómar miðað við fjölda brota eru allt of fáir.
Þetta vekur mig til umhugsunar um 20. grein áfengislaga sem fyrst og fremst er sett fram sem líður í vernd barna og ungmenna. Það er skynsamlegt enda áfengi engin venjuleg “matavara” . Íslendingar drekka ekki rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum eins og óskhyggja einhverra þingmanna sem vilja leyfa sölu á áfengi í stórmörkuðum, en eins og kunnugt er þá er verulegur fjöldi starfsmanna unglingar og í einhverjum tilfellum allt niður í 12 ára börn! Áfengi er viðkvæm vara eins og t.d. lyf og tóbak og lýtur því að sjálfsögðu öðrum lögmálum en vörur almennt. Börn og unglingar eiga því lagalega og ótvíræðan rétt á því að vera laus við þennan einhliða áróður sem áfengisauglýsingar eru. Bann við áfengisauglýsingum er ekki skerðing á tjáningarfrelsi eins einhverjir brennivínsbransans menn hafa haldið fram. Samkvæmt skýrum niðurstöðum Hæstaréttar um það atriði þá er um keyptan einhliða áróður að ræða sem ekkert á skylt við tjáningarfrelsi. Hitt er svo annað mál að það er teljandi á fingrum annarar handar þau tilefni sem fulltrúar áfengisbransans hafa tekið þátt í almennum tjáskiptum – t.d. í fjölmiðlum eða örðum opinberum vettvangi. Því þora menn ekki og kjósa að höndla í samræmi við eigin skoðanir um “tjáningarfrelsi” þ.e. með fleiri áfengisauglýsingum.
Þetta vekur mig til umhugsunar um hve lágt menn leggjast í þessum málum. Ég sagði eitt sinn á fræðslufundi í ónefndu foreldrafélagi að það væru engin mörk og nefndi það að sennilega myndu menn auglýsa bjór á fæðingardeildinni ef menn kæmust upp með það. Var þá að ýja að því hvernig áfengisbransinn beinir auglýsingum markvisst að börnum og unglingum. Fékk skömm í hattinn fyrir þessi ummæli en viti menn ekki löngu síðar barst mér myndband þar sem hinir dönsku “Gunni og Felix” léku í bjórauglýsingu. Nær fæðingardeildinni verður vart komist.
Þetta vekur mig til umhugsunar um þá lágkúru þegar að settar voru áfengisauglýsingar inn á bloggsíður barna; eða þegar að Ölgerð Egils Skallagrímssonar lét koma fyrir áfengisauglýsingum í strætóskýlum á stór Reykjavíkursvæðinu í aðdraganda grunnskólaprófa og að stjórn Strætó b.s. skyldi sýna sínum helstu kúnnum, börnum og unglingum slíka vanvirðu; eða þegar að íþróttafélag gerir fullann Lunda með bjór í hönd að einkennismerki útihátíðar; eða þegar RÚV birti áfengisauglýsingum í kjölfar þess að forseti Íslands veitti íslensku forvarnarverðlaunin og eins í kjölfar þess þegar að liðsmönnum íslenska handknattleikslandsliðsins voru veittar orður; eða þegar börn eru notuð í áfengisauglýsingar eins og fyrirtækið Vífilfell gerir; eða þegar að útvarpstöðvar sem ætlaðar eru börnum og unglingum útvarpa áfengisauglýsingum; eða þegar að auglýst að ekki sé hægt að horfa á enska boltann nema verða ölvaður; eða þegar að áfengisbransinn segist vera hluti af íþróttaleikum; eða þegar ungt fólk eignast ekki vini fyrr en það hefur drukkið 12 bjóra.? Svona mætti lengi telja og ljóst að virðing fyrir réttindum barna og unglinga er engin.
Þetta vekur mig til umhugsunar um það að áfengisauglýsingar virka. Hagsmunaaðilar hafa haldið hinu gagnstæða fram og nefnt í því samhengi að ekki sé hægt að finna fylgni milli auglýsinga og aukinnar drykkju t.d. ungmenna. Þetta er útúrsnúningur og ætla sér að nýta rannsóknaraðferð sem einungis er nýtt á tilraunstofum í lokuðu eða tilbúnu umhverfi eins t.d. við lyfjarannsóknir virka einfaldlega ekki sem mælitæki hvorki hvað varðar áfengisauglýsingar eða annað í þeim dúr. Slíkt er ekki hægt að mæla í margþættu samfélagi þar sem að óteljandi atriði hafa áhrif sem ekki er hægt að einangra sem gera það að verkum að ekki fæst marktæk fylgni. Þetta vita allir sem fást við rannsóknir. Grundvallar spurningin er því sú ef auglýsingar virka ekki hvers vegna er þá verið að auglýsa? Auglýsingar virka og því til sönnunar má nefna að Bandaríkjamenn gerðu könnun sem fólst í því að rannsaka ungmenni sem lent höfðu í áfengis- og vímuefnaneyslu og þar kom greinilega í ljós að gagnvart þessum hópi höfðu áfengisauglýsingar haft veruleg áhrif. ( Journal of Public Health Policy (2005) 26, 296-311)
Þetta vekur mig til umhugsunar um alla þá vinnu sem foreldrasamfélagið og allir þeir aðilar sem vinna með börnum og unglingum hafa lagt á sig í forvarnaskyni. Á sjöunda og áttunda áratug síðust aldar voru skólaskemmtanir í unglingadeildum fjarri því að vera áfengislausar og í einhverjum tilfellum þurfti afskipti lögreglu vegna ölvunar. Sem betur fer heyrir þetta fortíðinni til og með sífellt betri samstarfi foreldra með tilkomu foreldrafélagana og síðar víðtæku samstarfi þeirra aðila sem vinna með börnum og unglingum breytist ástandið hægt og sígandi til hins betra. Markmið foreldrasamfélagsins um vímuefnalausan grunnskóla er raunhæft og með samstilltu átaki allrar þeirra sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti það hefur margt áunnist þrátt fyrir gegndarlausan áfengisáróður sem beint hefur verið sérstaklega að börnum og unglingum. Sá sem þetta ritar veit að árangur hefði án alls efna verið betri ef áfengisbransinn léti börn og unglinga í friði. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga sem þau eiga lögvarðann rétt til þess að vera laus við og ganga þvert á öll uppeldismarkmið foreldrasamfélagsins .
Þetta vekur mig til umhugsunar um siðferði eða viðskiptasiðferði. Þegar að grjótharðir viðskiptahagsmunir einir ráða algerlega för án nokkurs tillits til laga eða almenns siðferðis vaknar sú áleitna spurning hvort slíkt eigi ekki við alla aðra starfsþætti viðkomandi fyrirtækis? Getur verið að sá hroki sem viðkomandi fyritæki sýnir réttindum barna og unglinga sé fyrirtækið í hnotskurn?
Þetta vekur mig til umhugsunar um hvort ekki sé óviðeigandi að eiga viðskipti við slík fyrirtæki. Er forsvaranlegt að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem ota áfengi á börnum manns? Að mati þess sem þetta ritar er engin spurning um að sniðganga auglýstar áfengistegundir. Myndir þú versla við kaupamann sem ýtti tóbaki að börnunum þínum. Held ekki – og því auðvitað sjálfgefið að slíkt gildi einnig við þá aðila sem ota áfengi að börnum og unglingum.
Þetta vekur mig til umhugsunar um hvers vegna við all margir foreldrar og fólk sem ber velferð æskunnar fyrir brjósti stofnuðum Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum (www.foreldrasamtok.is ). Í meira lagi undarlegt að stofna hafi þurft sérstök samtök í þeim eina tilgangi að freista þess til að farið sé að lögum? Er sennilega einstætt i hinum vestræna heimi og í raun sorglegt dæmi um lágt viðskiptasiðferði og virðingarleysi gagnvart börnum og unglingum . Bendi fólki á síðu samtakanna (www.foreldrasamtok.is )þar sem koma má á framfæri með rafrænum hætti ábendingum um brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum.
Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir – sýnum ábyrgð og tilkynnum um brot.
Árni Guðmundsson – Formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum
Breska dagblaðið The Guardian fjallar um athyglisverða könnun um viðhorf breskrar unglinga til áfengisauglýsinga
Young people want more protection from alcohol advertising, survey says
Alcohol Concern’s survey of 2,300 young adults finds many urging more regulation to protect those under drinking age
Most young people would like more protection from alcohol advertising, but under-18s do not recognise that drink logos on football shirts are a form of marketing, according to a survey.
Alcohol Concern, which surveyed 2,300 children and young adults, says it sought their views because they are usually excluded from the discussion.
The survey found that most wanted more regulation than at present to safeguard those who are under the drinking age from alcohol marketing. Most – 60% – wanted alcohol adverts in the cinema restricted to 18-certificate films while 58% said alcohol adverts should only be allowed on television after the 9pm watershed. Alcohol promotion, said 59%, should be limited only to the areas of supermarkets and off-licences selling alcohol.
About half did not recognise “below the line” marketing strategies, such as sponsorship of football shirts, festivals and branded pages on social networking sites.
Many thought the present internet safeguards on under-18s accessing alcohol-brand websites were inadequate, however – on social media sites, those who are under-18 and have given details of their age or date of birth are blocked.
Most young women – 70% – said they wanted clear labels with information about health risks on all alcoholic drink bottles and cans.
Alcohol Concern says that the government needs to reduce the “cumulative exposure” of young people to “positive drinking messages”.
“If one of the aims of alcohol marketing regulations is to protect children and young people from exposure to advertising then government needs to ask itself whether the current framework is fit for purpose,” said Don Shenker, chief executive of Alcohol Concern.
“Clearly young people don’t believe it is, and their preference for stronger protection deserves to be heard. There are simple changes the government could make to better protect children. Hopefully they will listen to their views.”
He was supported by the Conservative MP Dr Sarah Wollaston, who said: “The most compelling quote in this hard-hitting report comes from one 15-year-old: ‘Both my parents are alcoholics, you should put them in an ad so no one would drink.’
“Instead of this, however, young people are bombarded with positive images of alcohol which encourages them to start drinking earlier and to drink more when they do. It is time to protect children from this, and to take action against the growing influence of ‘below the line’ marketing through social media, brand merchandising and sponsorship.”
Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/breskri-unglingar-vilja-vernd-gegn-afengisauglysingum/
Réttur barna á Íslandi til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu
Vika 43, vímuvarnavikan, verður 23. – 30. október í ár en þetta er 8. árið sem þessi vika er tileinkuð vímuvörnum. Vika 43 er vettvangur félagasamtaka sem hafa forvarnir að markmiði starfs síns eða vilja leggja vímuvörnum lið, til þess að vekja athygli á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum; varpa ljósi á viðfangsefni forvarna og kynna sérstaklega starf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka; vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnum og unglingum og; virkja þekkingu, styrk og samstöðu grasrótarsamstarfs til eflingar forvarnastarfs.
Að þessu sinni er í viku 43 athygli beint að rétti barna og ungmenna til vímulauss lífs og verndun þeirra gegn neikvæðum áhrifum neyslu áfengis og annarra vímuefna, eins og mælst er til í yfirlýsingu aðildarríkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2001(1) og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (2). Þennan rétt barna þarf að verja með ýmsum hætti og í vikunni verður kastljósi beint að því í hverju þessi réttur felst og hvernig Íslendingar standa sig hvað þetta varðar.
Dagskrá vímuvarnaviku 2011:
Vikuna 23. til 29. október verður vakið með ýmsum hætti athygli á því hvernig við getum verndað rétt barna fyrir vandamálum vímuefnaneyslu. Umræðum, greinaskrifum, áskorunum, fundum og auglýsingum verður komið á framfæri með ýmsum hætti í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum og netmiðlum.
Undirritun yfirlýsingar Viku 43 fer fram í sal KFUM við Holtaveg föstudaginn 28. október nk. kl. 15.00. Þangað er fulltrúum félagasamtaka í verkefninu Vika 43 boðið að koma og undirrita yfirlýsingu Viku 43 en að auki munu skrifa nafn sitt á hana við þetta tækifæri velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson og umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir.
Yfirlýsingunni verður í framhaldi dreift til fjölmargra aðila sem fara með málefni forvarna á Íslandi; skóla, stofnana, stjórnenda, heimila, fagaðila og samtaka til hvatningar og upplýsingar um þennan mikilvæga rétt barna til lífs án áreitis neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu.
Þessi vefsíða notar "vafrakökur" til að auðvelda aðgengi að vefnum. Við reiknum með að þú sért sammála því en þú getur afþakkað þáttöku ef þú vilt. Vafraköku stillingarÍ lagi
Vafraköku skilmálar
Vafrakökur
Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína við að skoða vefsíðu okkar. Af þessum vefkökum eru vefkökur sem eru taldar nauðsynlegar vistaðar af vafranum þínum og eru til að síðan virki eins og hún þarf. Við notum líka aðrar kökur sem hjálpa okkur að greina og skilja hvernig þú notar vefinn. Þær eru vistaðar aðeins með þínu leyfi. Þú getur skráð þig út úr notkun á þeim vefkökum. Með því að leyfa ekki notkun á sumum þessum vefkökum þá getur þín upplifun af notkun vefsins breyst .
Sumar vefkökur eru nauðsynlegar fyrir þig fyrir til að nota alla eiginleiga síðunnar. Þær gera mögulegt að fylgjast með öryggis ógnum. Þær skrá engar persónulegar upplýsingar.
Þessar vefkökur vista upplýsingar um fjölda heimsókna, fjölda einstakra notenda, hvaða síður hver og einn skoðar og hvaða notandi kemur. Þessar upplýsignar hjálpa okkur til að skilja og greina hve vel síðan virkar og hvað er hægt að lagfæra. Okkar vefsíða sýnir ekki auglýsingar eða skráir vefkökur tengdar auglýsingum.
Virkni: Þetta eru vafrakökur sem hjálpa ákveðinni virkni sem ekki er nauðsynleg á vefsíðu okkar. Þessir virkni fela í sér að fella inn efni eins og myndskeið eða deila efni vefsíðunnar á samfélagsmiðla.
Afkasta vafrakökur eru notaðar til að skilja og greina helstu árangurstölur vefsíðunnar sem hjálpa til við að skila betri notendaupplifun fyrir gestina.
Tölfræði: Þessar vafrakökur vista upplýsingar eins og fjölda heimsókna, fjölda einstakra gesta, hvaða síður eru skoðaðar, hvaðan gesturinn kemur og fleira. Þessar upplýsingar hjálpa okkur að skilja og greina hversu vel vefsíðan stendur sig og hvað þarf að bæta .