Nú er komið í ljós að dómsmálaráðuneytið hefur vitað mjög lengi að netsala eins og hún fer fram hérlendis hafi verið ólögleg (bréf dómsmálaráðherra til Félags atvinnrekenda 8.október 2021). Eigi að síður hefur ráðherra ekkert gert árum saman til að sporna við ólöglegu athæfi. Slík vinnubrögð eru ámælisverð og tilefni þess að forvarnarsamtök senda Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis meðfylgjandi bréf. Nefndin hóf, af gefnu tilefni, í sumar frumkvæðisathugun vegna netsölu á áfengi. Ljóst er, að mati forvarnarsamtaka, að bæði stjórnsýslan og framkvæmdavaldið hefur brugðist mikilvægum skyldum sínum í þessum málum
Reykjavík 16. október 2024.
Erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna nýrra gagna sem sýna verklag framkvæmdavalds í tengslum við netsölu áfengis, sem nefndin hefur til skoðunar. Um tvennt er að ræða, annars vegar nýtt frumvarp um vefverslun á áfengi og hins vegar ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu um verklag í tengslum við ítrekaðar fyrirspurnir Félags atvinnurekenda.
Nýtt frumvarp
Þann 30. september 2024 var birt frumvarp til breytinga á áfengislögum – vefverslun, í samráðsgátt stjórnvalda. https://island.is/samradsgatt/mal/3834
Í frumvarpinu er fjallað um innlenda vefverslun sem geti bæði verið í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Í frumvarpinu er staðfest að sú netsala sem fer fram innanlands í dag, af lager sem er staðsettur á Íslandi, er smásala og hún er ólögleg. Hún er ólögleg þegar eigandi verslunar er erlendur lögaðili. Hún er einnig ólögleg þegar eigandi verslunar er innlendur lögaðili.
Í frumvarpinu segir m.a.
„Aftur á móti gerir löggjöfin ekki ráð fyrir að heimilt sé að starfrækja sambærilegar innlendar vefverslanir vegna þess einkaleyfisfyrirkomulags sem til staðar er. Þrátt fyrir það er starfræktur fjöldi innlendra vefverslana, ýmist í eigu innlendra eða erlendra lögaðila. Með frumvarpinu er stefnt að því að heimila sölu áfengis í gegnum innlenda vefverslun og marka fyrirkomulaginu lagalegan ramma, svo sem um hvernig staðið er að leyfisveitingu, hvernig eftirliti skuli háttað og um sölu og afhendingu áfengis sem keypt er.“
„Þrátt fyrir að gildandi áfengislöggjöf heimili ekki rekstur innlendra áfengisvefverslana hefur nokkur fjöldi slíkra vefverslana fest í sessi á síðast liðnum árum. Þessar innlendu áfengisverslanir eiga það sameiginlegt að vera með lager og starfsmenn á Íslandi, þó að eigandi verslananna sé eftir atvikum erlendur eða innlendur lögaðili.“
„Með því er ætlunin að bregðast við þeirri stöðu að fjöldi innlendra vefverslana selur áfengi til íslenskra neytenda í smásölu þrátt fyrir að ekki sé mælt fyrir um slíka starfsemi í áfengislöggjöf.“
„Frumvarpinu er ekki ætlað að stuðla að aukinni neyslu áfengis heldur að leggja til nýtt fyrirkomulag að lögum og þannig marka lagalegan ramma um það fyrirkomulag sem nú er til staðar án heimildar.“
„Frumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og felur ekki í sér beinar tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.“
Á einum stað í texta er farið með rangfærslu um óvissu að okkar mati miðað við annað innihald frumvarpsins (kannski gleymdist að taka þetta út úr eldri útgáfu).
„Verði ekkert aðhafst mun áfram ríkja óvissa um lögmæti innlendra vefverslana með áfengi sem hvorki má telja ásættanlega stöðu fyrir hið opinbera né hinn almenna borgara.“
Að mati forvarnarsamtakanna hefur dómsmálaráðuneytið vitað mjög lengi að netsala eins og hún fer fram hérlendis hafi verið ólögleg. Eigi að síður hefur ráðherra ekkert gert árum saman til að sporna við ólöglegu athæfi. Slík vinnubrögð eru ámælisverð.
Varðandi vitneskju ráðuneytis og tímaramma skal rifjað upp að árið 2015 má sjá merki um samskipti ráðuneytisins við aðila utan þess um netsölu áfengis. Í svarbréfi ráðuneytisins stílað á Lögmenn Lækjargötu ehf. frá 4. desember 2015, undirritað af Hermanni Sæmundssyni og Þórunni J. Hafstein, er vísað til minnisblaðs lögmanna Lækjargötu dags. 21. ágúst 2015 varðandi það álitaefni hvort vefverslun með áfengi, hvort heldur í smásölu, heildsölu og umboðssölu gangi gegn einkaleyfi ÁTVR til sölu og afhendingu áfengis.
Í svarbréfinu tekur ráðuneytið fram að ..„almennt verði að líta svo á að ákvæði laga nr. 75/1998 taki til verslunar með áfengi og tóbak, óháð því hvort um er að ræða vefverslun eða annað form verslunar.“ Þá er spurningum fyrirspyrjanda í öllum tilvikum svarað á þann hátt ..“að öðrum en ÁTVR er óheimilt að selja eða afhenda áfengi í smásölu.“ Í lok bréfs er hnykkt á þessu sbr. „Ef um er að ræða afhendingu áfengis í smásölu til neytenda þarf afhendingin að eiga sér stað fyrir tilstilli ÁTVR.“
Eins og rakið var í punktum sem fulltrúar forvarnarsamtaka afhentu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fundi þann 18. september 2024 og finna má á www.foreldrasamtok.is, þá eru spurnir af því að til séu álit, jafnvel nokkur, í dómsmálaráðuneyti og jafnvel fjármála- og efnahagsráðuneyti sem sýni að netsalan sem fer fram á Íslandi sé ólögleg. Gögn hafi jafnvel farið á milli ráðuneytanna, en setið sé á þeim. Við
teljum eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kalli eftir því hjá ráðuneytinu hvort slík gögn séu til. Því ef stjórnsýslan á til gögn samin innan ráðuneytis eða utan, þar sem færð eru rök fyrir því að netsalan sé ólögleg og lykilráðherrar hafi ekki brugðist við árum saman, eru það viðbótarrök um að vinnubrögð ráðherra hafi verið óeðlileg og óásættanleg í þessu máli.
Ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu um verklag
Okkur hafa borist ný gögn frá dómsmálaráðuneytinu sem við teljum að nefndinni beri að skoða. Þau bárust okkur þann 25. september 2024 í kjölfar kæru okkar til Úrskurðarnefndar um upplýsingmál þann 10. september 2024. Kæran var reist á svarleysi dómsmálaráðuneytis við fyrirspurnum okkar frá 10. maí 2024 og ítrekun frá 30. júlí 2024.
„Vísað er til erindis þíns, dags. 10. maí 2024, þar sem óskað er upplýsinga um hvort dómsmálaráðuneytinu hafi borist erindi eða fyrirspurnir frá Félagi atvinnurekenda um svör um lögmæti fyrirkomulags netsölu áfengis á Íslandi þar sem þremur mismunandi útfærslum er lýst, auk afrita af erindunum og svara ráðuneytisins við þeim.
Dómsmálaráðuneytinu hafa borist erindi frá Félagi atvinnurekenda um lögmæti fyrirkomulags netsölu áfengis á Íslandi þar sem þremur mismunandi útfærslum er lýst. Afrit af erindunum eru hér í viðhengi, auk svars ráðuneytisins til Félags atvinnurekenda.“
Gögnin, sem eru rakin hér neðar, varpa ljósi á samskipti Félags atvinnurekenda, fjármála- og efnahagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.
Þá er hér einnig vísað til annarra gagna sem mikilvæg eru þegar rakið er hvernig verklag og starfshætti ráðherrar hafa sýnt varðandi fyrirkomulag netsölu áfengis á Íslandi. Forvarnarsamtökin telja gögnin sýna að ráðherrarnir hafi sýnt ámælisvert athafnaleysi og tómlæti á sínu málasviði. Þeir hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og sýnt óeðlilega og óvandaða stjórnsýsluhætti í málinu.
Aðdragandi
Þann 20. mars 2024 óskuðu fulltrúar forvarnasamtaka eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tæki upp til skoðunar þá stöðu sem nú ríkir vegna svokallaðrar netsölu áfengis innanlands í ljósi þess að stjórnsýslan s.s. lykilráðherrar og lykilstofnanir hafi ekki brugðist við henni í áravís. Samtökin hafa leitað til fjölda aðila innan stjórnsýslunnar til að freista þess að fá málið skoðað án árangurs þar til okkur var bent á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis er sérstaklega ætlað að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá getur nefndin fjallað um málefni Stjórnarráðsins í heild.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kærði tvær netsölur 16. júní 2020 til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Málið hefur verið til skoðunar hjá embættinu í ríflega 4 ár og er enn í vinnslu.
Sökum viðbragðsleysis ráðherra um lögmæti netverslana hefur fjöldi netverslana hafið starfsemi og selt og afhent áfengi í smásölu beint til neytenda á nokkrum mínútum frá því að pöntun var gerð. Þessi staða hefði ekki komið til ef yfirvöld hefðu brugðist við. Nú síðast hóf öflug verslun með rótgróna stöðu á íslenskum matvörumarkaði, Hagkaup, áfengissölu innanlands. Stöðuna má kalla „villta vestrið“ svo gripið sé beint niður í erindi Félags atvinnurekenda til Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra, frá 15. desember 2021 og getið er hér neðar.
Að okkar mati er netsalan eins og hún fer nú fram á Íslandi á skjön við lög. Nýlegt frumvarp dómsmálaráðherra sem var birt í samráðsgátt 30. september 2024 staðfestir það mat. Við höfum samt skilning á því að nefndin nýti ekki tíma sinn til að skoða lagalega stöðu sjálfrar netsölunnar.
Við teljum, óháð lagalegri stöðu netsölunnar, rétt og nauðsynlegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði ákvarðanir og verklag fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra í ljósi þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu.
Ráðherrar bera ákveðnar skyldur á grunni þeirra laga sem undir þeirra málefnasvið heyrir s.s. um sölu áfengis. Ráðherrar hafa skyldur til að leiðbeina um réttaróvissu á sínu málefnasviði. Þeir hafa yfirstjórnar- og eftirlitsskyldur. Skoða verður hvort ákvarðanir og verklag ráðherranna, um að grípa ekki inn í ástandið heldur leyfa því að viðgangast og þannig skapa „villta vestrið“, hafi verið eðlilegt á þessum tíma m.a. í ljósi leiðbeiningar-, eftirlits- og yfirstjórnarskyldna.
Í stað þess að sinna skyldum sínum hafa ráðherrar ekkert gert. Þeir hafa ekki beitt því eftirliti sem þeim er unnt samkvæmt lögum að mati forvarnarsamtakanna. Þeir hafa ekki svarað fyrirspurnum um málið og er þar nærtækast að benda á ítrekaðar fyrirspurnir Félags atvinnurekenda árið 2021. Ráðherrar hafa þannig vikið sér undan leiðbeiningarskyldu sinni.
Teljum við að nefndinni beri að hafa til hliðsjónar lög um um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 sem tilgreina að ráðherrar beri ábyrgð á málefnasviðum sínum. Séu mál alvarleg þá megi samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963 krefja ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög.
Fjármála- og efnahagsráðherra
Fjármála- og efnahagsráðuneyti barst erindi Félags atvinnurekenda varðandi lögmæti netverslunar með áfengi og eyðingu óvissu í viðskiptum þar sem spurt er sérstaklega um lögmæti þriggja útfærslna á netverslun með áfengi. Erindið barst dags. 9. ágúst 2021og svo ítrekun dags. 25. ágúst 2021.
Erindi Félags atvinnurekenda dags. 9. ágúst 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis, stílað á Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra.
Ítrekunarerindi Félags atvinnurekenda dags 25. ágúst 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis, stílað á Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra.
Erindi dómsmálaráðuneytis 27. ágúst 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis (sent FA einnig)
Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins er málið fært yfir til dómsmálaráðuneytis á grunni 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún segir „Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.“
Forvarnarsamtök gera athugasemdir við að fjármála- og efnahagsráðuneyti vísi málinu alfarið frá sér yfir til annars ráðuneytis í ljósi þess að a) fjármála- og efnahagsráðherra fer með lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011 þar sem segir í 3. gr. „[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn á smásölu áfengis og heildsölu tóbaks og framkvæmd laga þessara.“
Og b) fjármála- og efnahagsráðherra fer með og hefur einnig eftirlitsheimildir á grunni skatta- og tolla á grunni áfengislaga nr. 75/1998 samkvæmt 4. gr. „Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum. … 2“
Fjármála- og efnahagsáðherra stöðvar málaferli ÁTVR og beitir ekki eftirlitsskyldu
Í máli þessu er stundum vitnað til þess er ÁTVR sótti mál gegn netsölum fyrir dóm á sínum tíma. Niðurstaða Héraðsdóms þann 18. mars 2022 var sú að málatilbúnaðurinn var haldinn annmörkum og var málinu því vísað frá.
Í kjölfarið ákvað fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson að stöðva málareksturinn með því að kveðast ekki sjá ástæðu til þess að áfrýja úrskurði Héraðsdóms til Landsréttar. Vísaði hann til dómsmálaráðuneytis varðandi skoðun á löggjöfinni í stað þess að grípa frekar inn í þessa atburðarrás.
https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2022/03/22/ser_ekki_astaedu_til_ad_kaera_i_malum_atvr
Í stað þess að standa með ÁTVR sem undir ráðherra heyrði kaus ráðherra að gera ÁTVR umboðslaust. Þannig stöðvaði ráðherra að láta á málið reyna fyrir Landsrétti. Vísaði því með almennum hætti til annars ráðherra, dómsmálaráðherra. Að mati forvarnarsamtaka sýndi ráðherra þannig tómlæti og vanrækslu gagnvart málaflokki sem undir hann heyrir.
Í svari dómsmálaráðuneytis til forvarnarsamtaka þann 22. apríl 2024 sem varða athafnaskyldu ráðherra er einmitt vísað til þessarar niðurstöðu á eftirfarandi hátt.
„Um sölu áfengis gilda bæði áfengislög nr. 75/1998 og lög 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Vegna þeirrar netsölu sem vísað er til í erindinu hefur áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðað dómsmál á hendur tveimur fyrirtækjum. Málunum var vísað frá héraðsdómi og hefur hvorki ÁTVR né fjármálaráðherra hafst frekar að, eftir því sem næst verður komist.“
Þá telja forvarnarsamtök að fjármála- og efnahagsráðherra hafi látið hjá líða að sinna eftirlitsskyldu sinni til marga ára því samkvæmt 4 gr. áfengislaga hefur hann eftirlitskyldu í gegnum tollgæslu og skattayfirvöld. „Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum. … 2)“
Ekki er að sjá að ráðherra hafi beitt því eftirliti sem undir hann fellur. Er það ámælisvert.
Dómsmálaráðherra
Eins og fyrr er rakið sendi Félag atvinnurekenda erindi um lögmæti netverslunar með áfengi til fjármála- og efnahagsráðherra 9. ágúst 2021, ítrekun 25. ágúst 2021 og fékk svar frá FJR um að ráðuneytið hefði framsent erindið til dómsmálaráðuneytis 27. ágúst „til þóknanlegrar meðferðar“.
Erindi Félags atvinnurekenda þann 5. október 2021, stílað á Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra.
Svar dómsmálaráðuneytis þann 8. október 2021 til Félags atvinnurekenda, stílað til Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA.
Erindi Félags atvinnurekenda til dómsmálaráðuneytis 12. október 2021, stílað á Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra.
Erindi Félags atvinnurekenda til dómsmálaráðuneytis 15. desember 2021, stílað á Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra.
Erindi Félagi atvinnurekenda til dómsmálaráðuneytis 15. desember 2021, stílað á Jón Gunnarsson innanríkisráðherra.
Árið 2022 kemur Félag atvinnurekenda inn á svarleysi dómsmálaráðuneytis í umsögn til Alþingis þann 22. mars 2022.
Í umsögninni segir:
„FA hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá dómsmálaráðuneytið til að svara spurningum um lögmæti þeirra þriggja mismunandi útfærslna á vefverzlun sem litið hafa dagsins ljós. Í fyrsta lagi er um að ræða fyrirtæki með heimilisfesti á Íslandi, í öðru lagi vefverzlanir með staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og í þriðja lagi vefverzlanir með staðfestu í ríkjum utan EES, til dæmis Bretlandi. Í öllum tilvikum eru starfrækt vöruhús á Íslandi, sem vörur eru afhentar úr. Svör ráðuneytisins hefur mátt skilja svo að innlend vefverzlun sé óheimil að óbreyttum lögum, en ekki hafa verið gefin skýr svör varðandi önnur rekstrarform.“
Stjórnvöld hundsa leiðbeiningarskyldu á sínu málasviði
Eins og sjá má hefur Félag atvinnurekenda margoft kallað eftir leiðbeiningum frá ráðuneytum og ráðherra. Beiðnirnar voru hundsaðar og svör ekki gefin. Þannig var sýnd vanræksla og tómlæti.
Hér eru raktar helstu samskipti hvað þetta varðar:
Úr erindi FA til fjármála- og efnahagsráðuneytis 9. ágúst 2021.
„Svara við þessum spurningum er óskað innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa, enda eru umtalsverðir hagsmunir í húfi. Telji fjármála- og efnahagsráðuneytið önnur ráðuneyti betur til þess fallin að svara þessum einföldu spurningum mælist FA eindregið til þess að erindi þetta verði áframsent með hraði og afgreitt fljótt og vel. Eins og áður segir hafa félagsmenn FA áhuga á að taka þátt í þeirri samkeppni sem hafin er í netverzlun með áfengi, en telja mikilvægt að hafa vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna og eigi ekki von á inngripum stjórnvalda.“
Úr erindi FA til fjármála- og efnahagsráðuneytis 25. ágúst 2021.
„Í þessu máli er sú afar sérkennilega staða uppi, eins og rakið var í fyrra erindi FA, að fjármála- og efnahagsráðherra segir að netverzlun með áfengi sé lögleg, en undirstofnun ráðuneytisins, Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, er á öðru máli og hefur kært netverzlanir til löggæzlu- og skattayfirvalda. Jafnt fyrir ný fyrirtæki, sem vilja hasla sér völl á þessum markaði, og fyrir núverandi innflytjendur og framleiðendur áfengis, sem telja sér ekki annað fært en að bregðast við nýrri samkeppni, er óvissa í þessum efnum bagaleg.
Hér skal fyrra erindi FA til ráðuneytisins ítrekað og farið fram á skýr svör við þeim spurningum, sem félagið hefur sett fram. Jafnframt er gerður sá fyrirvari, líkt og í fyrra erindi, að telji ráðuneytið sig einhverra hluta vegna ekki rétta stofnun innan stjórnsýslunnar til að svara þessum spurningum, geri það gangskör að því að áframsenda erindið og afla svara fljótt og vel til að tryggja öryggi og fyrirsjáanleika í viðskiptum. Ekki er úr vegi að minna ráðuneytið á 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, og 2. mgr. sömu greinar, um skyldu stjórnvalda til að áframsenda erindi svo fljótt sem unnt er.“
Úr erindi FA til dómsmálaráðuneytis 5. október 2021
„Hér skal þess getið til upprifjunar, að erindi FA til stjórnarráðsins fjallar um það sérkennilega óvissuástand, sem nú er uppi á áfengismarkaði. Brýnt er að ráðuneytið svari erindi í þágu öryggis og fyrirsjáanleika í viðskiptum.“
„Eins og bent hefur verið á í fyrri erindum til stjórnarráðsins er þetta óvissuástand óþolandi fyrir fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum eða horfa til þess að hasla sér þar völl.“
„Í upphaflegu erindi til fjármálaráðuneytisins 9. Ágúst var þess farið á leit að ráðuneytið svaraði spurningum FA um lögmæti netverzlunar með áfengi innan tveggja vikna, enda væru umtalsverðir hagsmunir í húfi. Dómsmálaráðuneytið hefur nú haft málið til meðferðar í fimm vikur án þess að nokkur svör hafi borizt. FA ítrekar að þetta ástand er afar bagalegt fyrir fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum eða hyggjast hefja netverzlun með áfengi. Að mati félagsins er útilokað að gefa þessum fyrirtækjum þau svör að þau verði að bíða niðurstöðu þeirra málaferla sem ÁTVR stendur nú fyrir, enda getað þau tekið einhver ár.
Ekki ætti að þurfa að minna ráðuneytið á þá ótvíræðu leiðbeiningarskyldu sem þar ber skv. 1. Mgr. 7. Gr. stjórnsýslulaga: „Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.“ „
„Svara við þessum spurningum er óskað innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa, enda eru umtalsverðir hagsmunir í húfi og áframhaldandi óvissa veldur hópi fyrirtækja æ meira tjóni. Eins og áður segir hafa félagsmenn FA áhuga á að taka þátt í þeirri samkeppni sem hafin er í netverzlun með áfengi, en telja mikilvægt að hafa vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna og eigi ekki von á inngripum stjórnvalda. Þeir eiga skýlausan rétt á leiðbeiningum ráðuneytisins.“
Úr erindi FA til dómsmálaráðuneytis 12. október 2021.
„Óvissan, sem þessi mál eru í, er einkar bagaleg fyrir félagsmenn FA, bæði þá sem hugsa sér til hreyfings á áfengismarkaðnum og þá sem hafa starfað þar um lengri tíma. Í því samhengi verður að ítreka leiðbeiningarskyldu stjórnvalda þegar að því kemur að aðstoða borgarana við að átta sig á þeim almennu leikreglum sem gilda í samfélaginu. Þá verður að undirstrika að hér er ekki um það að ræða að verið sé að biðja ráðuneytið að leysa úr ágreiningi eða úrskurða um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. Dæmi þess að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra eru fjölmörg enda er slíkt í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Að láta stórar atvinnugreinar vaða í reyk og svælu í lagalegri óvissu án þess að vísa þeim leið er hins vegar dæmi um hið gagnstæða.“
Úr erindi FA til dómsmálaráðuneytis 15. desember 2021.
„Óvissan, sem þessi mál eru í, er einkar bagaleg fyrir félagsmenn FA, bæði þá sem hugsa sér til hreyfings á áfengismarkaðnum og þá sem hafa starfað þar um lengri tíma. Í því samhengi verður að ítreka leiðbeiningarskyldu stjórnvalda þegar að því kemur að aðstoða borgarana við að átta sig á þeim almennu leikreglum sem gilda í samfélaginu. Þá verður að undirstrika að hér er ekki um það að ræða að verið sé að biðja ráðuneytið að leysa úr ágreiningi eða úrskurða um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. Dæmi þess að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra eru fjölmörg enda er slíkt í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Að láta stórar atvinnugreinar vaða í reyk og svælu í lagalegri óvissu án þess að vísa þeim leið er hins vegar dæmi um hið gagnstæða.“
Úr erindi FA til innanríkisráðherra Jóns Gunnarssonar 15. desember 2021.
„FA vísar jafnframt til svarbréfs síns frá 12. október sl., þar sem FA lýsti sig reiðubúið að taka þátt í slíkri heildarendurskoðun á lagarammanum um sölu, markaðsetningu og gjaldtöku af áfengi ásamt ráðuneytinu og öðrum hagsmunaaðilum. Ekki hafa borizt viðbrögð frá ráðuneytinu við því erindi.“
„Þrátt fyrir ítrekaðar kærur Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins (ÁTVR) hafa löggæzlu- og skattayfirvöld ekki gripið inn í þessa starfsemi.
Félagsmenn FA hafa sýnt því áhuga að starfrækja netverzlanir með áfengi. Sumir vegna þess að þeir telja nauðsynlegt að bregðast við þeirri samkeppni, sem felst í sölu áfengis á netinu, en aðrir hafa hug á að koma nýir inn á áfengismarkaðinn og sjá tækifæri í því að þurfa ekki að sæta flóknum reglum og skilmálum ÁTVR um hvernig koma megi vörum í sölu. Fyrirtækin hafa viljað fá vissu fyrir því að þau starfi innan ramma laga og reglna, ekki sízt vegna kæra og málshöfðana ÁTVR á hendur netverzlunum. FA sendi því fjármála- og dómsmálaráðuneyti ítrekaðar fyrirspurnir um lögmæti ofangreindra þriggja birtingarmynda netverzlunar (9. og 2. ágúst og 5. október sl.) en fékk einungis skýrt svar við einni spurningu í áðurnefndu bréfi ráðuneytisins frá 8. október; ráðuneytið telur samkvæmt því innlenda netverzlun ekki heimila að óbreyttum lögum.
Með áðurnefndu erindi 12. október sl. ítrekaði FA spurningar sínar og rökstuddi af hverju ráðuneytinu bæri skylda til að svara þeim, en hefur ekki fengið svör. „
„FA óskar eftir fundi með ráðherra hið fyrsta til að ræða þessi mál og hvernig ýta má úr vör vinnu við heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar. Félagið óskar jafnframt svars við þessari beiðni.“
Eina svarið sem Félag atvinnurekenda hefur fengið við margítrekuðum spurningum til ráðuneyta er svarbréf dómsmálaráðuneytis frá 8. október 2021. Þar segir m.a.
„Smásala áfengis er nú einungis heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hefur einkaleyfi til slíkrar starfsemi samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna og 1. mgr. 7 gr. laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Í síðastnefndum lögum er ítarlega fjallað um einkaleyfi Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins ásamt hlutverki og verkefnum verslunarinnar. Er enn fremur skýrt markmið laganna að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættir lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð.“
„Að lokum tekur ráðuneytið fram að leiðbeiningarskylda þess nær almennt ekki til lögskýringa í tengslum við öll þau lagalegu álitaefni sem kunna að rísa á grundvelli laga sem undir ráðuneytið keyrir. Séu uppi vafaatriði um túlkun laga við afgreiðslu einstaka mála, sem eftir atvikum geta verið til meðferðar hjá viðeigandi eftirlitsstjórnvöldum, verða þau stjórnvöld sem um þau fjalla að taka afstöðu til þeirra og að endingu er það dómstóla að skera úr um ágreining sem kann að vera uppi.“
Að mati forvarnarsamtaka getur stjórnvald ekki skýlt sér á bak við að kæra ÁTVR hafi legið hjá lögreglu á þessum tíma og þess vegna komið sér undan því að svara síendurteknum og réttmætum spurningum Félags atvinnurekenda um lögmætið. Kæra ÁTVR á hendur netsölum snerist ekki um málefni einstaklings eða stjórnarskrá, sem hefði ef til vill réttlætt svarleysi ráðuneyta, heldur um almenna lagaramma og almennar leikreglur. Forvarnarsamtök eru sammála Félagi atvinnurekenda um að ráðuneytum bar skylda til þess að veita leiðbeiningar varðandi lögmæti þriggja útfærslna á netverslun í samræmi við fyrirspurnir félagsins um almennan lagaramma og leikreglur fyrir stóra atvinnugrein. Það var ekki gert og er það ámælisvert.
Niðurlag
Forvarnarsamtökin vilja koma því á framfæri við nefndina að netsalan, eins og hún er stunduð á Íslandi, samræmist ekki þeim markmiðum sem sett voru í lýðheilsustefnu til ársins 2030 samþykkt á Alþingi 12. júní 2021, um að stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun og að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu. Netsalan er í andstöðu við markað lýðheilsustefnu og grefur undan þeim árangri sem Íslendingar hafa náð í forvörnum m.a. gagnvart börnum og ungmennum á síðustu árum. Þá er hún í andstöðu við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að einkasala ríkja á áfengi sé ein besta forvörnin og hvetur stofnunin þau ríki sem hafa ekki einkasölu til þess að taka hana upp.
Í ofangreindum gögnum hefur m.a. verklag dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, varðandi fyrirkomulag netsölu áfengis á Íslandi, verið rakið. Forvarnarsamtökin telja gögnin sýna að ráðherrarnir hafi algerlega brugðist í alvarlegu og mikilvægu lýðheilsu- og samfélagsmáli. Þeir hafi stundað óeðlilega og óvandaða stjórnarhætti.
Virðingarfyllst,
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri IOGT og Hildur Helga Gísladóttir, fulltrúi SAFF-Samstarfs félagasamtaka í forvörnum
Gögn (8 viðhengi):
Frumvarp dómsmálaráðherra í samráðsgátt 30.september 2024
https://samradapi.island.is/api/Documents/47800226-397f-ef11-9bc6-005056bcce7e
Bréf fengin frá dómsmálaráðuneyti á grunni aðkomu Úrskurðarnefndar um upplýsingamál (samtals 6 viðhengi)
Svarbréf innanríkisráðuneytis frá 4. desember 2015
Svar dómsmálaráðuneytis til forvarnarsamtaka um athafnaleysi ráðherra frá 22. apríl 2024