20. grein áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum er skýr. Með fyrirliggjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar, um breytingar á þessari grein, er komið í veg fyrir útúrsnúninga á mjög skýrum siðferðilegum markmiðum núgildandi laga. Börn og ungmenni eiga bæði lög- og siðferðilegan rétt til þess að vera laus við áfengisáróður.
Auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins um áfengisauglýsingar, sem kostar fleiri ef ekki tugi milljóna , þar sem ekkert er til sparað, er af sama meiði og útúrsnúningar þessara sömu aðila á núgildandi 20.gr áfengislaga. Rándýr auglýsingaherferð, sem unnin er af færustu auglýsinga- og ímyndarsérfræðingum landins, gerir ekki málstaðinn betri en sýnir í hnotskurn hve langt áfengisframleiðendur og innflytjendur áfengis er tilbúnir að ganga í þágu sinna ítrustu sérhagsmuna.
Auglýsingar eru keypt skilaboð en ekki innlegg í umræðu. Hagmunaaðilar hafa aldrei þorað í umræðu á jafnræðisgrundvelli en kjósa þess í stað að beita sér í krafti fjármagns.
Velferð æskunnar er grundvallaratriði og réttur barna og ungmenna til þess að vera laus við gegndarlausan áfengisáróður er augljós í því samhengi. Áfengisauglýsingar virka og það vel og ekki síst gagnvart börnum og ungmenn sem þeim er oft og iðulega sérstaklega beint að.
2 comments
Heil og sæl.
Þið talið um að áfengisauglýsingar virki og það vel. Virka hvernig, með leyfi?
Author
Blessaður
Áfengisauglýsingar virka eins og aðrar auglýsingar mjög vel og ekki síst á börn og ungmenni, þangað sem þeim er því miður af mörgum hagsmunaaðilanum sérstaklega beint til. Á síðu Foreldrasamtakanna má finna ýmsar greinar sjá http://www.foreldrasamtok.is/2012/05/burt-med-afengisauglysingar-frumvarp-i-saenska-thinginu/ og http://www.foreldrasamtok.is/2012/05/afengisauglysingar-born-og-ungmenni-stadreyndir/ og http://www.foreldrasamtok.is/2011/06/athyglisverd-grein-tharf-ad-vernda-ungmenni/ og svona mætti lengi telja.
Foreldarsamtök gegn áfengisauglýsingum / Árni