Áfengiskaup foreldra viðbót við aðra drykkju

Láttu aðra vita

Þetta athyglisverða viðtal birtist í Morgunblaðinu

Andri Karl andri@mbl.is

Sú hugmynd að foreldrar geti komið í veg fyrir neikvæðar afleiðingar áfengisneyslu með því að kaupa áfengi fyrir börn sín á ekki við nein rök að styðjast. Þetta segir Kjartan Ólafsson, lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Þau ungmenni sem keypt er fyrir eru líklegri til að drekka meira og lenda í vandræðum.

Kjartan hélt erindi á ráðstefnu um íslenskar æskulýðsrannsóknir í gærmorgun. Fjallaði hann um uppruna áfengis sem unglingar drekka og tengsl við drykkjumynstur þeirra. „Ég skoðaði fyrst og fremst hvort foreldrar geti komið í veg fyrir að unglingarnir drekki heimabrugg, smyglað áfengi eða álíka, með því að kaupa áfengi fyrir þá sjálfir. Meginniðurstaðan er sú, að það virkar ekki þannig. Ungmenni sem eiga foreldra sem kaupa fyrir þau áfengi eru einnig líklegri til að fá áfengi eftir öðrum leiðum,“ segir Kjartan en könnunin beindist að nemendum í tíunda bekk grunnskóla, þ.e. 15-16 ára unglingum.

Lenda í vandræðum

Af þeim ungmennum sem höfðu einhvern tíma orðið drukkin árið á undan voru 13% sem áttu foreldra sem keypt höfðu fyrir þau áfengi. Langalgengast var hins vegar að unglingarnir kæmust yfir áfengi í gegnum vinskap, t.d. að einhver eldri færi í Vínbúðina fyrir þá. Um þrjátíu prósent þeirra sem höfðu orðið ölvuð drukku heimabruggað áfengi.

Ekki nóg með að þau ungmenni sem fengið höfðu áfengi hjá foreldrum sínum drykkju meira heldur voru þau mun líklegri til að lenda í alls kyns vandræðum. „Viðkomandi unglingar voru fjór- til fimmfalt líklegri til að lenda á slysadeild vegna drykkjunnar, tvöfalt líklegri til að lenda í slagsmálum og þrefalt líklegra var að einhverju hefði verið stolið af þeim vegna drykkjunnar. Það eru því allar tegundir vandræða sem ungmennin í hópnum sem foreldrar keyptu áfengi fyrir voru líklegri til að lenda í.“

Áhugavert fyrir foreldra

Að mati Kjartans er hugsanlegt að það séu þau skilaboð sem foreldrarnir senda börnunum sínum sem hafi þessi áhrif. „Ekki er hægt að segja að ungmennin drekki meira eða lendi í vandræðum vegna þess að áfengi er keypt fyrir þau. En með því að kaupa fyrir þau áfengi eru foreldrarnir að viðurkenna að það sé hluti af þeirra lífi að drekka áfengi. Það eru mjög sterk skilaboð og leiðir hugsanlega til þess að unglingarnir drekka meira og lendi því frekar í vandræðum.“

Kjartan segir að niðurstöðurnar ættu að vera mjög áhugverðar fyrir foreldra sem velta fyrir sér hvort ekki sé betra að kaupa sjálf áfengi fyrir börn sín en að þau nálgist það eftir öðrum leiðum. „Þeir krakkar eru líklegri til að ná sér í áfengi eftir öllum öðrum leiðum. Líklegri til að fá einhvern til að kaupa fyrir sig og drekka heimabrugg. Það sem foreldrarnir kaupa virðist vera lagt í púkkið.“

Æskulýðsrannsóknir
» Kjartan studdist við evrópsku vímuefnakönnunina sem Ísland hefur verið aðili að frá upphafi, árinu 1995.
» Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og Æskulýðsráð í samvinnu við Tómstunda- og félagsmálafræðibraut Menntavísindasviðs Háskóla Íslands stóðu að ráðstefnunni í gærmorgun.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengiskaup-foreldra-vi%c3%b0bot-vi%c3%b0-a%c3%b0ra-drykkju/