Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekur afstöðu með börnum og unglingum

Láttu aðra vita

Forvarnanefnd Hafnarfjarðar tók upp um daginn á fundi sínum frumvarp um sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum sem til stendur að taka upp á Alþingi nú í vetur. Forvarnanefndin tók upp frumvarpið því að það ætlar sveitarfélögum að framfylgja hluta laganna og sjá um að úthluta matvöruverslunum áfengissöluleyfi.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar tók heillshugar undir bókun forvarnanefndar þar sem lagst er gegn frumvarpinu. Þegar tillagan kom til bæjarstjórnar sköpuðust talsverðar umræður um frumvarpið en í ljós kom að einn flutningsmanna þess situr einmitt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. En meðferð málsins endaði þannig að allir bæjarfulltrúarnir utan þess sem er flutningsmaður studdu tillöguna 10 – 1. Vilji sveitarstjórnamanna í Hafnarfirði er skýr.

,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mælir eindregið gegn því að frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs), 37. þingmál 136. löggjafarþings, verði samþykkt. Reynsla annarra þjóða af auknu aðgengi að áfengi með afnámi einkasölu sýnir aukna neyslu, ekki síst meðal ungmenna og þar af leiðandi mikla fjölgun félagslegra og heilsufarslegra vandamála. Þetta frumvarp stefnir því í þveröfuga átt eftir að náðst hefur mikilvægur árangur í forvörnum gegn notkun áfengis og annarra vímuefna, með markvissri vinnu í Hafnarfirði og víðar.  Einnig er vakin athygli á að ekki hefur verið leitað formlegrar umsagnar þeirra aðila sem skv. frumvarpinu munu bera ábyrgð á framkvæmdinni.”

Bókun forvarnanefndar:

Forvarnarnefnd Hafnarfjarðar leggst eindregið gegn frumvarpi til laga um sölu áfengis í matvörubúðum. Gögn frá Lýðheilsustöð benda ótvírætt til þess að sala áfengis í matvörubúðum sé mikið óheillaspor. Landlæknir hefur lagst gegn frumvarpinu og fyrirliggjandi upplýsingar frá SÁÁ eru samhljóða.

Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur gefið út Stefnumótun í áfengismálum, sem fjallar um stefnumótun í áfengismálum. Þar eru þjóðir hvattar til að móta sér stefnu í áfengismálum og bent er á aðgerðir sem sannreynt þykir að skili árangri sem dregur úr skaðlegri neyslu áfengis.
Meðal þeirra leiða sem bent er á eru
:


Skert aðgengi
Aðgerðir gegn ölvunarakstri
Aðgengi að meðferð
Bann við áfengisauglýsingum
Áfengislaust umhverfi
Fræðsla

Forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar er eini aðilinn á Íslandi sem reglulega hefur athugað hvort unglingar undir aldri fái keypt tóbak í verslunum. Niðurstöður þeirra rannsókna benda til þess að rúmlega helmingur ungmenna sem ekki eiga að fá keypt tóbak geti verslað það í búðum hér. Bandarísk rannsókn hefur leitt í ljós að auðveldara er fyrir fólk undir lögaldri að fá keypt áfengi í matvöruverslunum og stórmörkuðum en sérstökum áfengisverslunum. Ætla má að svipað verði uppi á teningnum hér.

Forvarnarnefnd Hafnarfjarðar skorar á Bæjarstjórn að samþykkja samhljóða

,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mælir eindregið gegn því að frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs), 37. þingmál 136. löggjafarþings, verði samþykkt. Reynsla annarra þjóða af auknu aðgengi að áfengi með afnámi einkasölu sýnir aukna neyslu, ekki síst meðal ungmenna og þar af leiðandi mikla fjölgun félagslegra og heilsufarslegra vandamála. Þetta frumvarp stefnir því í þveröfuga átt eftir að náðst hefur mikilvægur árangur í forvörnum gegn notkun áfengis og annarra vímuefna, með markvissri vinnu í Hafnarfirði og víðar.  Einnig er vakin athygli á að ekki hefur verið leitað formlegrar umsagnar þeirra aðila sem skv. frumvarpinu munu bera ábyrgð á framkvæmdinni.”

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þessi ályktun á fundi sínum með tíu atkvæðum gegn einu en viðkomandi bæjarfulltrúi sem var á móti er Rósa Guðbjartsdóttir formaður knattspyrnudeildar Hauka ogvaraþingmaður , sem jafnframt er einn að flutningmönnum frumvarpsins á þing.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sýnir með þessari bókun jákvæðan hug sinni í verki gagnvart málefnum æskunnar. Bókun þessi er einnig afar mikilvægt fordæmi sem vonandi verður öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni.

Í Hafnarfirði hefur náðst góður árangur í forvarnarmálum og heilsueflingu með víðtæku samstarfi fjölmargra aðila. Eftir þessum árangri hefur verið tekið víða um land og hugmyndfræði okkar er fyrirmynd margra annarra á þessu sviði. Þessum góða árangri verður stefnt í voða ef sala vímuefna verður færð inn í matvörubúðir. Áfengi er engin venjuleg neysluvara.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/b%c3%a6jarstjorn-hafnarfjar%c3%b0ar-tekur-afsto%c3%b0u-me%c3%b0-bornum-og-unglingum/